Hveragerði-Beiting þvingunar í meðferð og siðferði í starfi var yfirskrift ráðstefnu sem lauk á Hótel Örk um síðastliðna helgi. Ráðstefnan var haldin á vegum Samtaka starfsfólks á sólarhrings- og meðferðarstofnunum fyrir börn og unglinga og sóttu hana um 160 fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum en þar af voru um 60 Íslendingar.
Norræn ráðstefna starfsfólks á meðferðarheimilum haldin í Hveragerði Beiting þvingunar í meðferð og siðferði í starfi Hveragerði - Beiting þvingunar í meðferð og siðferði í starfi var yfirskrift ráðstefnu sem lauk á Hótel Örk um síðastliðna helgi. Ráðstefnan var haldin á vegum Samtaka starfsfólks á sólarhrings- og meðferðarstofnunum fyrir börn og unglinga og sóttu hana um 160 fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum en þar af voru um 60 Íslendingar. Fjölmargir aðilar fluttu fyrirlestra á ráðstefnunni en einnig voru haldnar þar málstofur um hin ýmsu málefni er tengdust efni ráðstefnunnar. Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni voru Svend Ejner Pejstrup, skrifstofustjóri á félagsmálastofnuninni í Frederiksborg, Anni Haugen, félagsráðgjafi, en hún fjallaði í sínu erindi um barnavernd hér á landi fyrr og nú, Leif Anderson, sálfræðingur frá Svíþjóð, flutti fyrirlestur um þvingun í meðferð og Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur á Barnaverndarstofu, fjallaði um réttarstöðu barna og unglinga og reglur um þvinganir. Í maí síðastliðnum kom út skýrsla hér á landi um þvingunarráðstafanir á íslenskum meðferðarheimilum. Skýrslan var unnin að frumkvæði félagsmálaráðherra. Gerði Hrefna í máli sínu grein fyrir helstu niðurstöðum hennar. "Það er aldrei hægt að setja einhlítar reglur um það hvað má og hvað ekki má í meðferðinni. Meðferðarheimilin eru sett upp því börn eiga rétt á meðferð og samfélagið krefst þess að meðferðin sé árangursrík og varanleg. Á öllum meðferðarheimilunum er reynt að móta starfið þannig að ekki þurfi að koma til þvingana af neinu tagi en iðulega þarf starfsfólk að beita öllum ráðum til að halda aga á heimilunum," sagði Hrefna.

Íslensk lög standa að mörgu leyti að baki lögum annarra Norðurlanda á þessu sviði. Engin lög eru til hér um þvinganir á meðferðarheimilum. Að sögn Hrefnu má almennt segja að hér gildi lögin um neyðarrétt/neyðarvörn á þessum stöðum. "Það þýðir að ef neyðarástand kemur upp þá þarf starfsfólk að stoppa það af með öllum ráðum og til þess að það sé hægt þarf oft að beita einhvers konar þvingunum. Það hefur verið mjög erfitt fyrir starfsfólk að fóta sig í þessum málum því engar reglur hafa verið til. Það er stórkostlegt að þessi ráðstefna skuli haldin nú því það er nauðsynlegt að þeir sem sinna þessum málum ræði opið hvað felst í því að veita börnum og unglingum með mestu erfiðleikana meðferð." Svend Ejner Pejstrup flutti fyrirlestur um siðfræði og faglegar grundvallarreglur í starfinu. Í máli hans kom fram að í Frederiksborgaramti hafa starfsmenn í þessum geira komið sér saman um reglur er gilda fyrir allt starf á meðferðarheimilunum. "Við leggjum áherslu á rétt barnsins og reynum að líta á málin frá þeim sjónarhóli. Hvernig myndum við sjálf vilja láta koma fram við okkur? Við göngum út frá því að börn og unglingar eiga ekki að þurfa að þola slæmar eða niðurlægjandi aðgerðir. Auðvitað geta komið upp tilfelli þar sem þvingun er nauðsynleg en þá geta starfsmenn rætt þau tilfelli út frá reglunum sem til eru," sagði hann.

Félagsmálastofnunin í Frederiksborg hefur gefið út bæklinga sem kynna reglurnar og gera bæði foreldrum og börnum grein fyrir rétti sínum. Svend lagði áherslu á að siðferðileg sjónarmið mættu ekki falla í skuggann af hinum faglegu og mikilvægt væri að starfsfólk ræddi sín á milli um reglur sem þessar því að erfitt væri að gera þær einhlítar og alltaf kæmu upp mál sem erfitt væri að setja á ákveðinn bás. HREFNA Friðriksdóttir, lögfræðingur á Barnaverndarstofu. SVEND Ejner Pejstrup, skrifstofustjóri á félagsmálastofnuninni í Frederiksborgaramti í Danmörku.