MORGUNBLAÐSSKEIFAN hefur í áranna rás verið eftirsóttur gripur í röðum nemenda bændaskólanna sem leggja stund á hestamennsku. Með tilkomu framhaldsdeildarinnar á Hólum, þar sem nemendur þreyta annan áfanga sem gefur þjálfara- og reiðkennararéttindi innan Félags tamningamanna, hefur Morgunblaðið gefið verðlaunagrip fyrir bestan árangur á þessum vettvangi.
Erlingur Ingvarsson dúxaði í framhaldsdeildinni á Hólum Varð að sanna að ég ætti erindi í framhaldsdeildina MORGUNBLAÐSSKEIFAN hefur í áranna rás verið eftirsóttur gripur í röðum nemenda bændaskólanna sem leggja stund á hestamennsku. Með tilkomu framhaldsdeildarinnar á Hólum, þar sem nemendur þreyta annan áfanga sem gefur þjálfara- og reiðkennararéttindi innan Félags tamningamanna, hefur Morgunblaðið gefið verðlaunagrip fyrir bestan árangur á þessum vettvangi. Að þessu sinni hlýtur gripinn Erlingur Ingvarsson frá Hlíðarenda í Bárðardal, en fjórir luku prófum í deildinni á þessu ári. Af þessu tilefni var Erlingur tekinn tali skömmu áður en hann hélt til starfa við tamningar og þjálfun í Þýskalandi. Sagðist hann ætla að starfa þar fram að jólum svona til að víkka sjóndeildarhringinn. Hvað hann gerði eftir áramótin væri ekki ráðið að öðru leyti en því að hann yrði örugglega við þjálfun hrossa, það eitt væri víst. Ég hef mikinn áhuga á að komast í vinnu hjá einhverjum af betri reiðmönnum landsins, það er líklega besta leiðin til fá frekari leiðsögn og reynslu en ég hef nú þegar aflað mér," segir Erlingur í upphafi samtalsins. Höfnunin skerpti einbeitinguna Hann kveðst í sjálfu sér ekki hafa stefnt að því að verða hæstur. "Ég var ákveðinn í að gera mitt besta úr því ég á annað borð fékk inngöngu í framhaldsdeildina. Það skerpti mjög einbeitinguna að mér hafði verið neitað um inngöngu en þegar einn væntanlegra nemenda hætti við á síðustu stundu var mér boðið að koma. Þeir töldu að ég hefði ekki næga keppnisreynslu. Einsetti ég mér því að sýna fram á að ég hefði átt fullt erindi þarna inn. Ég hafði mjög gott af náminu þarna og tel mig hafa lært mikið. Kennslan var mjög góð og tel ég að faglegheitin séu í góðu lagi hjá þeim á Hólum. Við vorum aðeins sex í framhaldsdeildinni svo við höfðum góðan aðgang að kennurunum og nutum meiri athygli en gerist í stæri bekkjum. Þetta var að vísu mjög strembið og tíminn sem ætlaður var í námsefnið og vinnuna því tengdu í tæpasta lagi. Við vorum alltaf komin í nám klukkan níu að morgni og vorum að fram að kvöldmat. Þá var eftir undirbúningur fyrir morgundaginn, sem gat verið talsverður, sérstaklega þegar við vorum að undirbúa reiðkennslu sem við þurftum að inna af hendi og var hluti af náminu. Það þýðir lítið að hugsa sér nám í framhaldsdeildinni sem einhverja slökun og skemmtilegheit því keyrslan er mjög mikil og vinnan í kringum námið mikil." Áhersla lögð á sjálfstæða hugsun "Eyjólfur Ísólfsson aðalkennari framhaldsdeildarinnar er mjög góður leiðbeinandi," segir Erlingur. "Hann velur þá leið að byggja kennsluna á skoðanaskiptum en ekki hrárri mötun og reynir með því að koma inn sjálfstæðri hugsun hjá nemendum sínum sem ég tel mikilvægt fyrir hvern tamningamann að hafa. Við höfðum góðan tillögurétt við þjálfun hrossanna sem við höfðum undir höndum og mikið mark á þeim tekið." Þrátt fyrir strembna dagskrá alla dagana segir Erlingur vistina á Hólum hafa verið mjög góða. "Þarna var maður í góðum félagsskap, ég kynntist fullt af fólki bæði í röðum nemenda og kennara og þarna komu góðir gestakennarar og ber þar að nefna menn eins og Reyni Aðalsteinsson og Einar ¨Oder Magnússon sem höfðu áhugaverða hluti fram að setja og til stóð að Atli Guðmundsson kæmi og kenndi kerruakstur en því miður kom hitasóttin í veg fyrir að af því yrði," segir Erlingur. Um framhaldið að loknu námi sagði Erlingur að þrátt fyrir þennan námsáfanga gengi hann ekki að neinu starfi vísu eða einhverjum lágmarkslaunakjörum eins og algengt er í öðrum greinum atvinnulífsins. Í heimi hestamennskunnar verða menn að sýna fram á hæfni sína í starfi bæði sem góður tamninga- og reiðmaður og svo aftur almennt sem heiðarlegur og áreiðanlegur starfskraftur, sama hvort um er að ræða sjálfstæðan rekstur eða vinnu hjá öðrum. Þetta er hvorttveggja í senn kostur og galli, menn þurfa að hafa fyrir hlutunum ef þeir ætla að ná árangri. Hluti af því sýnist mér vera að keppa og ná árangri," segir Erlingur og ljóst að hér fylgir hugur máli hjá ungum og efnilegum tamningamanni. Eldskírn á Melgerðismelum "Meðal réttinda sem við fáum að loknu námi í framhaldsdeildinni eru dómararéttindi bæði í gæðinga- og íþróttakeppni og fékk ég mína eldskírn á Melgerðismelum síðsumars. Komst ég þá að því hversu erfitt starf dómarans getur verið þegar maður þarf að vera með fulla einbeitingu linnulaust klukkustundum saman. Okkur hafði verið ráðlagt að vera ritarar á fyrsta mótinu áður en við byrjuðum að dæma en þeir á Melgerðismelum lögðu hart að mér að dæma svo ég sló til. Rennur mér seint úr minni hversu illa mér leið á fyrsta hesti því við fengum engan upphitunarhest. Eftir fyrsta hestinn var slegið á stuttum fundi dómara og eftir það var ekkert mál að leggja mat á sýningarnar sem eftir komu," mælir Erlingur og greinilega feginn að vera búinn með þessa erfiðu frumraun. Hestamennskan í Bárðardal er ekki stórbrotin miðað við það sem gerist víða í öðrum landshlutum en þrátt fyrir það kom áhugi Erlings á hestum snemma fram þótt ekki væru mikið um hross á bænum. Í dag eru 15 hross að Hlíðarenda og segir Erlingur brosandi að líklega eigi hann nú mesta sök á þeim fjölda. Í sumar var hann við tamningar heima eins og hann kallar það auk þess að aðstoða við önnur bústörf. Tamdi eigin hross og annarra og kveðst hafa verið heppinn með að fá eingöngu reiðfær hross til þjálfunar. Hestamennskan þarna er frekar lítilfjörleg. Að vísu er mjög góð ræktun að Torfunesi eins og flestir hestamenn kannast við en annars er þetta frekar dauft. Sem dæmi um um áhugann má nefna að Þingeyingar hafa oftast verið með í bikarmóti Norðurlands en í sumar þegar mótið var haldið í Húnavatnssýslu þótti fjarlægðin of mikil til að standandi væri í þessu svo ekki var um þátttöku að ræða í þetta skiptið. Við erum alltaf með gott mót síðsumars á Einarsstöðum þar sem byggt hefur verið upp ágæt vallaraðstaða. Á þetta mót hafa komið í fríðum flokkum hestamenn úr Eyjafirði og jafnvel austan af Melrakkasléttu. Þar tjalda menn og grilla saman og skapa góða stemmningu auk þess að keppa á hestunum," segir Erlingur í lok viðtalsins. Morgunblaðið/Valdimar Kristinsson DÚXINN frá Hólum, Erlingur Ingvarsson. EINN þáttur í prófum framhaldsdeildar er fjórgangsverkefni þar sem Erlingur sýndi hryssu sína Kveikju frá Vatnsleysu.