Jacob Gershvin, eins og hann var skírður upphaflega, var sonur fátækra rússneskra gyðinga er settust að á Lower East Side á Manhattan í lok fyrri aldar. Engir tónlistarhæfileikar voru í ættinni, en þegar móðir hans Rose lét kaupa píanógarm á heimilið (aðallega til að láta ekki í minni pokann fyrir systur sinni), lék hinn tólf ára George lag á amboðið þegar við komu þess.
Maður hryns

og nýjunga HUNDRAÐ ár eru liðin frá fæðingu Georges Gershwins. Ríkarður Örn Pálsson segir hér frá manninum, sem tókst á innan við aldarfjórðung að hagga rækilega hugmyndum manna um létta og klassíska tónlist, ryðja ferskum vindum braut í lagagerð og auka um leið djassi hinnar þeldökku bandarísku lágstéttar virðingu og fylgi um heim allan.

Jacob Gershvin, eins og hann var skírður upphaflega, var sonur fátækra rússneskra gyðinga er settust að á Lower East Side á Manhattan í lok fyrri aldar. Engir tónlistarhæfileikar voru í ættinni, en þegar móðir hans Rose lét kaupa píanógarm á heimilið (aðallega til að láta ekki í minni pokann fyrir systur sinni), lék hinn tólf ára George lag á amboðið þegar við komu þess. Hann hafði orðið sér úti um píanókennslu í laumi. Söngvaprangarinn Eftir baldna bernsku, sem í dag væri talin einkenni ofvirkni og fengin í hendur vandamálafræðinga, datt George út úr menntaskóla og fór 16 ára að vinna fyrir sér sem spilandi sölumaður hjá nótnaforlagi Remicks. Átti hann m.a. að skrá hjá sér, hvers konar lög gengu bezt í hvers konar fólk - reynsla sem varð honum snemma ómetanleg. Fljótlega fór hann einnig að leika undir með einsöngvurum léttari geirans. Hann var vart kominn á þrítugsaldur, þegar lagið hans "Swanee" hlaut feikivinsældir í túlkun Als Jolsons. Brátt streymdu smellirnir linnulaust frá Gershwin eins og stórfljót í vexti, og áður en lauk, hafði hann samið um 30 söngleiki og yfir 700 stök lög, auk óperunnar "Porgy og Bess" og nokkurra hljómsveitarverka sem enn eru flutt - og það án þess að hafa fengið aðra faglega menntun en nokkra einkatíma á stangli hjá Edward Kilenyi, Rubin Goldmark, Artur Bodanzky, Henry Cowell, Wallingford Riegger og Joseph Schillinger; hinn síðastnefndi var honum sennilega einnig innan handar með ráðum og dáð fram eftir flestu um orkestrun. Gershwin er jafnan talinn með í fimmstirninu er kórónaði draupniskenndu lagagnótt Broadways á gullaldarárunum milli stríða ­ hinir voru Jerome Kern, Irving Berlin, Cole Porter og Richard Rodgers. Og vissulega hefðu sígræn lög eins og "Fascinating Rhythm", "The Man I Love", "Someone to Watch Over Me", "I Got Rhythm", "I Got Plenty of Nuthin'", "It Ain't Necessarily So", "They Can't Take That Away From Me", "Let's Call The Whole Thing Off", "A Foggy Day", "Nice Work If You Can Get It" og "Love Is Here To Stay" nægt ein sér til að varðveita nafn hans um ókomnar kynslóðir. En ólíkt starfsbræðrum sínum á Breiðvangi tókst Gershwin stökkið frá heimi dægurlaga yfir í sígildu deildina. Eða líkt og hinn sjálfmenntaði, lítt nótnalæsi en þeim mun afkastameiri Irving Berlin orðaði það: "George var eini söngvahöfundurinn sem gerðist tónskáld." Nýr tónn Á þá braut lagði hann með Rhapsody in Blue árið 1924 fyrir stórsveit Pauls Whiteman, sem útsetjari Whitemans, Ferde Grofé (kunnastur af Miklagljúfurs-svítu sinni) orkestraði fyrir sinfóníuhljómsveit, og sló í gegn svo undir tók. Hér þótti kveða við nýjan tón, sem ekki var fenginn úr skraufþurrum kennslustofum tónlistarháskólannna, heldur frá löngum síðkvöldum í Harlem, þar sem Gershwin sat nótt eftir nótt við að hlusta á frægustu djasspíanista samtímans skálma upp og niður hljómborðið. Rapsódían var að vísu gagnrýnd fyrir skort á úrvinnslu; sagt var, sem raunar er, að farið væri á milli hugmynda líkt og atriða í revíu án sannfærandi tenginga. En hvað sem því líður, þá hefur verkið náð að lifa og er enn í dag meðal kunnustu sígildu bandarískra tónverka. Tvennt er þó ekki á allra vitorði um þetta fræga verk: Klarínettglissandóið nafntogaða er ekki eftir Gershwin, heldur klarínettleikara Whiteman bandsins, sem langaði að setja aukið "krydd" í kaflamótin (og fékk það.) Hitt er, að Rapsódían var jafnframt síðasta hljómsveitarverkið sem Gershwin orkestraði ekki sjálfur að flestu eða öllu leyti. Öfund og virðing Sagan segir að George Gerswhin hafi eitt sinn spurt Igor Stravinsky, hvað hann tæki fyrir einkatíma í tónsmíðum. "Hverjar eru tekjur yðar?" spurði rússneska tónskáldið. "Kringum 100.000 dollarar á ári." "Sé svo, ætti ég frekar að þiggja einkatíma hjá yður," var svarið. Hvað sem hæft er í þeim orðaskiptum, þá lýsa þau samt í hnotskurn persónulegum metnaði bandaríska söngvasmiðsins, er vildi koma alþýðulaginu á nýtt og hærra plan, og jafnframt vanda listmúsíkur 20. aldar, er náði hvergi sambærilegri tilhöfðun til almennings og ljúflingsdillur Breiðvangsmeistaranna, enda ekki laust við að Gershwin fengi að kenna á öfund fagmenntaðra landa sinna í alvarlegum tónsmíðum, er harðneituðu að viðurkenna framlag hans. Andgyðingleg afstaða kann og að hafa blandazt þar inní, eins og lesa má úr heldur þóttafullri umfjöllun hins áhrifamikla tónskálds og (sér í lagi) gagnrýnanda, Virgils Thomsons, um Porgy og Bess (1935), er margir telja í dag frumlegasta óperuverk Bandaríkjamanna: "Skilningsleysi hans á öllum undirstöðuatriðum forms, framheldni og alvarlegri eða hnitmiðaðri tjáningu kemur ekki á óvart miðað við óhreinleika efniviðar hans að uppruna, og hvernig hann gín við honum.. ..Þegar bezt lætur errilegur en afar óviðfelldinn hrærigrautur frá Ísrael, Afríku og Gelísku eyjunum... ...Mér er ekkert um gerviþjóðlegheit gefið, né heldur um síjuðandi undirleik, sætsúra hljómanotkun, sexradda kóra né gefilte fisch [jiddíska; = handahófskennda] orkestrun." Þess ber þó að gæta, að "svertingjaópera" Thomsons sjálfs, Four Saints in Three Acts frá 1934 (greinin virðist hafa verið í tízku um þær mundir, líkt og "tyrkneskar" óperur í Vín 150 árum fyrr) staldraði ofurstutt við á Broadway og gerði sig bezt hjá öðrum gagnrýnendum. Ópera Gershwins var hins vegar sýnd 129 sinnum í fyrstu atrennu; "skell" á mælikvarða Breiðvangs, en á hinn bóginn margfalt betri undirtektir en leikhústilraunir hinna alvarlegri bandarískra tónskálda á þeim árum. Sömuleiðis hefur stundum gætt andúðar innan raða þeldökkra tónlistarmanna, og raunar fleiri, sem héldu því fram, að Gershwin hefði eignað sér arfleifð frumkvöðla djassins. En þá vill oft gleymast, að á tilurðartíma Rhapsody in Blue var djassinn rétt að slíta barnsskónum, og menn eins og Louis Armstrong og Jelly Roll Morton enn gjörsamlega ókunnir utan Chicago og New Orleans. Duke Ellington var þá ekki einu sinni farinn af stað, en hann lét sig þó ekki muna síðar meir um eftirfarandi athugasemdir um Porgy og Bess: "Hún er fengin úr sumu af hinu bezta og nokkru af hinu versta. Gershwin fór sannarlega ekki í manngreinarálit; hann jós úr brunni allt frá Liszt til kazoo-sveitar Dickie Wells.. ..Það sem fyrst kemur upp um hana er að hún notar ekki þeldökka tóntjáningu. Þetta er ekki tónlist úr Steinbítssundi [götunni í Charleston þar sem óperan gerist] né úr fórum annarra negra.. ..áður óséð langavitleysa, þar sem tónlistin fer eina leið og atburðarrásin aðra." Því miður verður að hafa í huga um Ellington eins og um Thomson, að honum tókst, þrátt fyrir töluverða viðleitni, ekki heldur slá í gegn á Broadway, og hefur hertoganum eflaust ekki staðið alveg á sama um brautargengi Gershwins þar. Öðru máli gegndi um evrópsk samtímatónskáld eins og Maurice Ravel, er skrifaði Nödju Boulanger í París (m.a. tónsmíðakennara Thomsons og Coplands) eftirfarandi 1928 ­ því miður án frekari afleiðinga: "Hér er tónlistarmaður sem er gæddur afar glæsilegum, heillandi og jafnvel djúpstæðum hæfileikum, George Gershwin. Alheimsframi hans nægir honum ekki lengur, því hann stefnir hærra. Honum er ljóst að hann vantar faglega undirstöðu til að ná markmiðum sínum. Þessir hæfileikar gætu spillzt við kennslu í þeirri undirstöðu.Mynduð þér þora að takast á við slíka geigvænlegu ábyrgð, sem mér er um megn?" Né heldur var Arnold Schönberg að skafa utan af virðingu sinni: "Margir tónlistarmenn telja ekki George Gershwin alvarlegt tónskáld.. Aftur á móti er fjöldi tónskálda.. ..sem raða nótum saman, en verða aðeins talin alvarleg vegna algjörrar fjarveru húmors og sálar.. ..Mér sýnist óumdeilanlegt, að Gershwin var maður nýjunga.. ..hann birti tónrænar hugmyndir sem voru nýjar ­ eins og framsetningarmáti hans." Kvennagullið athyglissjúka George Gershwin var hrókur alls fagnaðar og mikið upp á kvenhöndina, þótt ekki tjaldaði hann til margra nátta í senn. "Af hverju vera að binda sig við eina konu, þegar maður getur fengið eins margar og maður vill?" svaraði hann eitt sinn aðspurður um framtíðarplönin. Meðal þeirra sem þóttust hafa kynnzt honum náið var slúðurfréttakonan Elsa Maxwell, en einnig kisulóruleikkonan Simone Simon (úr myndinni Kattarfólkið, 1942), Kay Swift og eiginkona Charlies Chaplins, Paulette Goddard, komust á blað á löngum lista skyndisigra Gershwins. Annars varð aðaltómstundaiðja hans á seinni árum, líkt og hjá vini hans Schönberg, myndlist, og náði hann töluverðum árangri sem portettmálari. Síðustu árin sem hann lifði kvartaði Gershwin æ oftar undan gríðarlegum höfuðverkjum, sem, þótt ótrúlega kunni að virðast, voru afskrifuð af hans nánustu sem sálrænir kvillar. "Þetta er ekkert", sagði einn ættinginn, þegar George lagðist einu sinni sem oftar í keng af kvölum, "hann er bara að vekja á sér athygli!" Það var ekki fyrr en Gershwin hneig skyndilega í öngvit júlí 1937 að hann var loks keyrður á spítala, þar sem fannst heilaæxli, sem reyndist óuppskeranlegt. Lézt hann næsta dag. Bróðir Gershwins og náinn samstarfsmaður, söngtextahöfundurinn Ira, sat við banabeðinn, þó að móðir hans hirti ekki um að koma. En jafnskjótt og Rose gamla frétti andlátið, setti hún allt á annan enda til að komast yfir arfinn. George lét ekki eftir sig erfðaskrá, og eftir miklu var að slægjast, sem sést bezt af því, að þegar niðjarnir seldu Warner Music réttindin að tónverkum Gershwins 1990, nam andvirðið rúmum 200 milljónum dollara. Frumflutningur Porgy og Bess 1935 reyndist listrænn sigur en fjárhagslegt tap, og George og Ira héldu til Hollyvúdds að reyna að bæta sér það upp. George líkaði miðlungi vel við andrúmsloft draumaverksmiðjunnar, sem var gegnumsýrt af peningahyggju og samhliða skorti á listrænum metnaði. Hann sagði systur sinni Frankie: "Mér finnst ég vart hafa krotað í yfirborðið. Ég kom hingað til að aura nógu miklu saman á kvikmyndum, svo ég gæti sleppt öllum fjárhagsáhyggjum eftirleiðis. Því mig langar aðeins að vinna við ameríska tónlist: sinfóníur, kammerverk, óperur. Það er það sem ég hef mestan áhuga á." Þótt sjálfmenntaður væri að mestu, og ætti framan af í erfiðleikum með að vinna úr stefjaefni stærri forma á klassíska vísu, var framför Gershwins engu að síður slík í seinni hljómsveitarverkunum hans, Píanókonsert í F, Ameríkumanni í París, 2. Rapsódíu, Kúbverskum forleik og Tilbrigði um I've Got Rhythm, að sannarlega hefði mátt vænta mikils, hefði hann ekki látizt langt um aldur fram, og í rauninni ógerlegt að ætla hvað úr honum hefði getað orðið. Hinn þrem árum yngri landi hans Aaron Copland var t.a.m. rétt farinn að setja fyrsta mark sitt á bandaríska tónlist, þegar hann náði dánaraldri Gershwins, og átti þá mestallan sinn langa tónsmíðaferil eftir. En ef maður leyfir sér að velta vöngum án ábyrgðar, hefði langlífur Gershwin hugsanlega náð að brúa bilið, sem eftir átti að snarbreikka milli alþýðutónlistar og alvarlegrar tónlistar, með bræðingsnálgun sinni. Hefði þá sumt í þróun vestrænnar tónlistar eftirstríðsára getað farið á annan veg en varð. Fjölhyggja ("eklektismi") 9. og 10. áratugar hefði getað hafið innreið sína 30-40 árum fyrr og jafnvel bjargað ótöldum tónskáldum úr botnlanga ofurskipulags og steingeldrar röðunartækni Darmstadt-skólans. Í því ljósi er það e.t.v. mesti harmur Gershwins, og okkar allra, að honum skyldi ekki hafa gefizt lengri tími til að vinna sig enn betur upp úr umhverfi dægurlagaiðnaðarins og rjúfa þá einangrun og sjálfheldu sem metnaðarfull tónsköpun okkar tíma er komin í ­ tónsköpun sem virðist samin fyrir æ færri, meðan síbyljuskröltið nær til æ fleiri. [M.a. byggt á Terry Teachout, The New Grove & Tutti Magazine.]

George Gershwin; höfundur um 30 söngleikja og yfir 700 stakra laga, auk óperunnar "Porgy og Bess" og nokkurra hljómsveitarverka sem enn eru flutt.