EKKI vildi betur til á sýningu Enrico Coveri í Mílanó en að ljósapera sem hitaði mjólkurbaðkar einnar fyrirsætunnar sprakk með þeim afleiðingum að fnykur af viðbrenndri mjólk og reykur fóru um salinn.
Tískuvikan í Mílanó Fnykur af viðbrenndri mjólk

EKKI vildi betur til á sýningu Enrico Coveri í Mílanó en að ljósapera sem hitaði mjólkurbaðkar einnar fyrirsætunnar sprakk með þeim afleiðingum að fnykur af viðbrenndri mjólk og reykur fóru um salinn. Sumir áhorfenda á fremsta bekk urðu skelfingu lostnir og bjuggust til að flýja sýningarsalinn en ítalska sjónvarpsstjarnan Alessa Merz, sem lá makindalega í baðkarinu, kippti sér ekkert upp við óhappið og lét sem ekkert væri.

Á sýningunni á laugardag var "Lólítu-útlitið" allsráðandi með stuttum pilsum, fléttum og íþróttaskóm. Sumar af unglingsstúlkunum sem sýndu flíkurnar voru með innkaupapoka og gula uppþvottahanska.

Tískuvikan í Mílanó stendur til 10. október og þar munu margir af fremstu fatahönnuðum leggja drög að tískunni næsta sumar. Ítalski hönnuðurinn Gai Mattiolo hefur vakið einna mesta lukku fram að þessu og verið nefndur "hinn nýi Versace". "Fatalínan verður mjög létt og að sama skapi full kynþokka," sagði þessi 30 ára nýliði í samtali við Reuters fyrir sýninguna. "Ég vil ekki hjúpa konurnar mínar með of mörgum klæðum."

EIN af Lólítunum á sýningu Enrico Coveri.

ÍTALSKA sjónvarpsstjarnan Alessia Merz í mjólkurbaði.

NAOMI Campbell á sýningu hönnuðarins Gai Mattiolo.

FYRIRSÆTA í hvítu bikiníi á sýningu Mattiolo.

SÝNING Chiara Boni var í anda fjórða áratugarins.

KATE Moss, Donatella Versace og Naomi Campbell á sýningu Versace.