SIGRÚN Davíðsdóttir skrifaði skemmtilega grein um dönskukennslu á Íslandi í sunnudagsblað Morgunblaðsins 30. ágúst sl. Grein Sigrúnar vekur til umhugsunar en það kemur víst fæstum á óvart margt af því sem Sigrún nefnir, eins og til dæmis ummæli íslenska táningsins sem lært hafði "dönsku" í fimm ár og sagði þegar hann kom til Danmerkur: "Ég skil ekki orð.
Það var þetta með dönskukennsluna

Hvers vegna höldum við þá áfram, spyr Grétar H. Óskarsson , að þvinga alla skólanemendur til dönskunáms í 5 til 7 ár?

SIGRÚN Davíðsdóttir skrifaði skemmtilega grein um dönskukennslu á Íslandi í sunnudagsblað Morgunblaðsins 30. ágúst sl. Grein Sigrúnar vekur til umhugsunar en það kemur víst fæstum á óvart margt af því sem Sigrún nefnir, eins og til dæmis ummæli íslenska táningsins sem lært hafði "dönsku" í fimm ár og sagði þegar hann kom til Danmerkur: "Ég skil ekki orð."

Þegar ég gekk í gegnum íslenska skólakerfið fyrir 40­50 árum var það engin spurning að dönsku skyldu allir læra, í minnst sjö ár. Það var talinn hluti af almennri menntun að geta skilið dönsku og talað hana nokkurn veginn. Ég man eftir því að við urðum í menntaskóla að lesa efnafræði, stjörnufræði og stærðfræði á dönsku, hagfræði á norsku og eðlisfræði á sænsku, því að íslenskar kennslubækur í þessum fögum voru ekki til.

Nú er öldin önnur, en þrátt fyrir það er enn í dag, 54 árum eftir að Ísland varð sjálfstætt ríki, haldið í það vonlausa verkefni að reyna að kenna öllum skólabörnum landsins dönsku.

Danir eru drengir góðir og hvergi tel ég okkur eiga betri vini að en þá. En í dag er það ekki danskan sem er sú "útlenska" sem okkur mörlöndum ber að læra til þess að verða gjaldgengir meðal þjóða heims. Heimurinn hefur breyst mikið síðustu hálfa öld. Danir elska tungumál sitt, leggja rækt við það og bera virðingu fyrir því. Þeim er enginn greiði gerður eða virðing sýnd með því að þvinga íslenska æsku til þess að sitja í dönskutímum í 5­7 ár með þeim árangri að hún getur hvorki skilið né gert sig skiljanlega á dönsku.

Að sjálfsögðu á að vera hægt að læra dönsku á Íslandi eins og boðið er upp á kennslu í ensku, frönsku, þýsku, spænsku og fleiri tungumálum. Þeir íslenskir nemendur sem hafa hug á og virkilega vilja læra dönsku geta örugglega á 2­3 árum lært svo vel dönsku að þeir skilji hana reiprennandi og tali vel.

Dönsk æska lærir ensku og kann vel ensku. Detti íslenskum unglingum í hug að reyna að babla dönsku við jafnaldra sína í Danmörku, brosa þeir bara góðlátlega að þessum sveitamönnum og svara á ensku. Enskukunnátta í Danmörku er einnig mjög almenn meðal alls almennings innan við fimmtugt. Enginn útlendingur í Danmörku, hvort sem hann kemur frá Rússlandi, Íslandi eða Ameríku, þarf að tala dönsku til þess að tjá sig eða komast allra sinna ferða. Enskan dugar alls staðar.

Hverjum er greiði gerður með því að reyna að troða dönsku í alla íslenska skólakrakka í dag? Ekki Dönum. Ekki þeim skólakrökkum, sem engan áhuga hafa á dönsku, telja algera tímasóun að reyna að læra hana og sjá engan tilgang með náminu. Mér þykir líklegt að svo sé farið um að minnsta kosti 90% þeirra skólanemenda sem nú í dag eru skyldaðir til þess að sitja í dönskutímum.

Hvers vegna höldum við þá áfram að þvinga alla skólanemendur til dönskunáms í 5 til 7 ár? Hvað kostar það þjóðarbúið fjárhagslega í tímasóun, launum kennara og öðrum kostnaði við kennsluna? Hversu betur væru þessir dönskutímar ekki nýttir til þess að kenna nemendum gagnleg fræði, t.d. stærðfræði, eðlisfræði og aðrar raungreinar, þar sem komið hefur í ljós í alþjóðlegum könnunum að íslenskir unglingar standa sig mun verr en margar af þeim þjóðum sem við reynum að bera okkur saman við? Helstu vestrænu tungumál heimsins í dag eru enska, franska og spænska. Þessi tungumál eru móðurmál hundraða milljóna manna og sama má reyndar segja um rússnesku, portúgölsku og arabísku. Kapítuli út af fyrir sig eru svo tungumál hinna stóru Asíuþjóða eins og t.d. Kínverja, Japana og Indverja.

Af ýmsum orsökum hefur enska orðið það mál sem mest er notað í samskiptum þjóða í milli. Þetta er staðreynd og allflestar þjóðir heims leggja því rækt við ensku sem fyrsta erlenda tungumál sem kennt er í viðkomandi landi. Þetta á jafnt við í Rússlandi og Kína, Þýskalandi og Spáni, Ítalíu og Brazilíu, Grikklandi og Frakklandi, Indlandi og Egyptalandi, Indónesíu og Norðurlöndum.

Það erum bara við, hnípin þjóð í vanda, sem ennþá teljum dönsku vera lykilinn að samskiptum við umheiminn og þvingum alla skólanemendur landsins til þess að kasta á glæ dýrmætum tíma æskuáranna í þvílíka tímaskekkju. Er ekki kominn tími til að ræða málin af alvöru og hreinskilni, stokka upp spilin og gefa upp á nýtt?

Höfundur er flugvélaverkfræðingur og flugmálastjóri í Namibíu.

Grétar H. Óskarsson