NÝLEGA er lokið upptökum á geisladiski þar sem Sólrún Bragadóttir sópransöngkona syngur íslenska ljóðatónlist. Hér er um að ræða fyrsta einsöngsdisk Sólrúnar, en áður hafa hljóðritanir með henni verið gefnar út á safndiskum sem Menningarmiðstöðin Gerðuberg hefur staðið að auk hljómplötu með Bergþóri Pálssyni og Jónasi Ingimundarsyni frá árinu 1986.
Fyrst núna sátt við

það sem ég er að gera

NÝLEGA er lokið upptökum á geisladiski þar sem Sólrún Bragadóttir sópransöngkona syngur íslenska ljóðatónlist. Hér er um að ræða fyrsta einsöngsdisk Sólrúnar, en áður hafa hljóðritanir með henni verið gefnar út á safndiskum sem Menningarmiðstöðin Gerðuberg hefur staðið að auk hljómplötu með Bergþóri Pálssyni og Jónasi Ingimundarsyni frá árinu 1986.

Bræðurnir Hrólfur og Haukur Vagnssynir sáu um vinnslu disksins, sem fram fór í hljóðveri Hrólfs í Hannover í Þýskalandi, Tonstudio Vagnsson. Hrólfur stjórnaði sjálfur upptökum og eftirvinnslu þeirra. Fyrirtæki Hauks, Vagnsson Grafik, sá um gerð bæklings. Þýska útgáfufyrirtækið CordAria, sem einnig er í eigu Hrólfs, gefur diskinn út og er útgáfan hugsuð fyrir alþjóðlegan markað. Japis mun sjá um dreifingu disksins á Íslandi.

"Þetta var vandasamt val," sagði Sólrún um lagavalið á diskinum. "Ég var búin að fá margar hugmyndir um uppbyggingu efnisskrárinnar áður en endanleg niðurstaða lá fyrir. Það hefur verið ótrúlega erfitt að velja saman lög þannig að mér finnist valið ganga upp." Á diskinum er að finna úrval íslenskra sönglaga, þar á meðal lög eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Karl O. Runólfsson og Sveinbjörn Sveinbjörnsson og einnig syngur Sólrún lög eftir Atla Heimi Sveinsson, Tryggva Baldvinsson, Jón Ásgeirsson og Sigvalda Kaldalóns.

Sólrún hefur farið sér hægt og hafnað tilboðum um að hljóðrita geisladiska. "Ég hef sjálf hingað til ekki talið mig vera tilbúna að senda frá mér slíka diska," segir hún. "Mér finnst ég fyrst núna vera sátt við það sem ég er að gera. Ég er orðin þroskaðri í túlkun og vinnubrögðin þjálfaðri. Ég er því betur í stakk búin til að gefa af mér þannig að útkoman standist tímans tönn og að ég verði sjálf ánægð eftir því sem árin líða."

Frá árinu 1987 hefur Sólrún Bragadóttir starfað við óperusöng á alþjóðlegum vettvangi. Hún hefur sungið flest stærstu hlutverkin og komið fram í hundruðum óperusýninga víðs vegar um heim, þar sem dagsformið getur skipt sköpum. "Það sem mér finnst kannski erfiðast við þessa vinnu í hljóðverinu er að dagsformið þessa þrjá daga sem upptökur standa yfir hefur svo mikið að segja um útkomuna. Þar spila inn í atriði eins og svefn, mataræði og andlegt jafnvægi. Þetta hefur reynsla síðustu tólf ára í óperuheiminum kennt mér, að þekkja hljóðfærið mitt, sem er líkaminn. Það var lengi að lærast en nú bý ég að þessari reynslu og hún nýtist mér vel, hvort sem er við vinnuna í hljóðverinu, ljóðatónleika eða annars konar uppákomur."

Við gerð geisladisksins fékk Sólrún til liðs við sig amerískan píanóleikara, Margaret Singer, sem hún hefur unnið mikið með undanfarin ár. "Ég velti því lengi fyrir mér að fá útlending til að taka þátt í flutningi á þessum alíslensku perlum sem Íslendingar þekkja og gera svo miklar kröfur til," sagði Sólrún. "Ég er núna ánægð með ákvörðunina því það hefur verið mikil upplifun að vinna þetta með Margaret. Hún bar svo mikla virðingu fyrir verkefninu og var svo áhugasöm að ég fór að sjá alveg nýja hlið á lögunum.

Hún þekkir auðvitað ekki þennan hefðbundna flutningsmáta sumra laganna. Ég þýddi alla textana fyrir hana og lýsti stemmningu laganna og þær ábendingar, sem hún kom með, til dæmis varðandi hraða og hrynjandi, var ný upplifun fyrir mig. Á Íslandi er flutningur íslenskra sönglaga mikið fastur í sama mótinu og þeim oft tekið sem sjálfsögðum hlut, ekki það að þau séu ekki vel flutt heldur vantar stundum að velt sé upp nýjum hliðum á tónlistinni."

Auk Margaret leika einnig Franz Bumann, Ladislaus Kosak og Jürgen Norman með í lögum eftir Atla Heimi.

Geisladiskur Sólrúnar kemur út samtímis á Íslandi og í Evrópu og verður hann fáanlegur í verslunum frá miðjum nóvember.

Sólrún Bragadóttir og Margaret Singer munu halda tónleika í tilefni útgáfunnar víða um land seinnipart nóvembermánaðar, 19. í Bolungarvík, 21. á Akureyri, 23. á Stykkishólmi og 25. í Hafnarborg í Hafnarfirði.

Sólrún Bragadóttir og Margaret Singer bera saman nótur sínar.