UM allan heim er ólmast við að einkavæða alla hluti. Þróunin er að stigmagnast og nú er svo komið hér á landi að undir yfirskyni einkavæðingar er verið að selja allt, stofnanir, fyrirtæki og jafnvel eigin gen okkar og ættarsögu.
Vinnan og fjármagnið

Starfsmenn þurfa að hafa fullan aðgang að ákvarðanatöku um öll málefni fyrirtækisins, segir Júlíus Valdimarsson, til jafns við fjármagnseigendur.

UM allan heim er ólmast við að einkavæða alla hluti. Þróunin er að stigmagnast og nú er svo komið hér á landi að undir yfirskyni einkavæðingar er verið að selja allt, stofnanir, fyrirtæki og jafnvel eigin gen okkar og ættarsögu.

Einn ágætur vinur minn spurði mig hvort það væri eitthvert "svona hliðarhagræði" af því að einkavæða eða hvort þetta væri bara til þess að geta sett viðkomandi stofnun eða fyrirtæki á markað. Margir spyrja þessarar spurningar og er það engin furða því að því er stíft haldið að fólki að nauðsynlegt sé að einkavæða vegna hagræðingar, aukinnar hagkvæmni eins og sagt er.

Hagræðing er að gera hlutina betur

Sannleikurinn er hins vegar sá að hagræðing hefur ekkert með hlutafé að gera. Það eru ekki verðbréfin í hillum forstjórans eða í tölvum verðbréfamarkaðanna sem skapa þessa hagkvæmni. Aukin hagkvæmni verður alltaf með sama hætti, með því að gera hlutina á hagkvæmari hátt. Það er fólkið sem með vinnu sinni nær betri árangri, starfsmenn og stjórnendur fyrirtækjanna.

Hægt er að ná hagkvæmni innan hvaða rekstrarforms sem vera skal. Samvinnufélög starfsmanna á Norður-Spáni skara fram úr einkareknum fyrirtækjum þar í landi hvað varðar arðsemi og alla mælikvarða velgengni fyrirtækja, s.s. nýtingu fjármagns, vinnu og hráefnis. Margir kannast við Fagor heimilistækin sem Rönning flytur inn, þau eru framleidd af þessu samvinnufyrirtæki sem er einn stærsti framleiðandi á sínu sviði á Spáni. Starfsmennirnir eiga þessi fyrirtæki.

Arðrán

En af hverju er þá verið að einkavæða? Það er eins og þegar verið er búa vöru í söluhæft form. Og af hverju er það nauðsynlegt? Það er til þess að þeir sem hafa peninga til umráða geti keypt þessi fyrirtæki. Og af hverju hafa þeir áhuga á því? Vegna þess að þeir hafa þá tækifæri til að græða á þeim. Og hvernig gera þeir það? Með því að ráða fólk, fá fólkið til að vinna vel en borga því laun og það yfirleitt lág og hirða síðan sjálfir allan gróðann. Hér í eina tíð var talað um þetta fyrirbrigði sem arðrán. Verkalýðsforingjar fyrri tíma vonuðust til að með tímanum myndu fjármagnseigendur vitkast og sjá að slík framkoma gagnvart vinnandi fólki gengi ekki til lengdar. Talsmenn nýfrjálshyggjunnar, sérstaklega þegar sú trú var aðeins ríkjandi meðal hægri manna, sögðu að ef fyrirtækjunum væri leyft að græða, myndu þau beina velgengninni niðurá við til fólksins. Hvorugt hefur staðist. Í Þýskalandi, fyrir 4 árum, voru milljónamæringar taldir 60 þúsund en 900 þúsund manns voru undir fátæktarmörkum. Nú eru milljónamæringar um 120 þúsund og 2,7 milljónir undir fátæktarmörkum. Nýleg félagsfræðileg athugun á Íslandi sýnir að hlutfallslega jafn margir einstaklingar þurfa að leita fátækraaðstoðar nú í dag og um síðustu aldamót.

Enn meira arðrán

Auk hins hefðbundna arðráns er nú hafið nýtt ferli stórtækara arðráns. Heilu auðlindirnar eru gefnar þeim sem mesta peninga eiga eins og á sér stað með gjafakvóta útgerðarinnar. Þetta gerist einnig þegar heilu bankarnir, síminn og orkuver okkar eru seld í hendur stóra alþjóðafjármagnsins. Formæður þeirra sem berjast nú fyrir sölu lands og lýðs stóðu bognar yfir saltfiskkörunum og dóu margar hverjar úr vosbúð og harðræði langt fyrir aldur fram. Í Landsbankanum skreyta myndir af þessum konum veggina sem tákn um þá sem skópu þjóðarauðinn. Nú ætla afkomendur saltfiskkvennanna að afhenda afrakstur vinnu þeirra feitum Wallenbergum heimsins á fægðu silfurfati. Við verðum þannig hluti af umfangsmiklu og miskunnarlausu arðránskerfi þeirra.

Og hvernig má það vera að svo stórfellt rán er framið um hábjartan dag fyrir framan alla þjóðina og það í flóðljósi fjölmiðla? Það er vegna þess að fjölmiðlarnir eru undir stjórn sama fjármagns eða stjórnmálaafla sem ábyrg eru fyrir peningahyggjunni. Þetta fjármagn og þessi stjórnmál eru framlenging þeirra afla sem kúguðu saltfiskkonurnar, formæður okkar. Þessum völdum hefur tekist, með innrætingu menntakerfis og fjölmiðlunar að koma á þeim alheimstrúarbrögðum að hagkvæmni og hagræðing sé aðeins möguleg með því að afhenda öll okkar ráð í hendur hinna ríku.

Allir vita ...

Allir vita að upplýsingar eru í slæmum höndum og að stjórnað er með ofríki og fjárkúgun. Allir vita að núverandi stefna skapar fleiri félagsleg vandamál og mannlegar hörmungar en hún leysir. Allir sjá að leiðtogarnir svífa ofar skýjum og vita lítið um þær hörmungar sem þeir valda. Allir vita að það er valdamikill minnihluti sem ræður ferðinni en hinn almenni maður engu.

Þetta er ekki það ástand sem við viljum búa við. Húmanistar vilja að allir hafi jöfn tækifæri og það getur einungis orðið með byltingu. Og hvað eigum við við með byltingu? Bylting er gjörbreytt réttarstaða vinnunnar gagnvart fjármagninu.

Hagnaður renni til fyrirtækis og starfsmanna

Starfsmenn þurfa að hafa fullan aðgang að ákvarðanatöku um öll málefni fyrirtækisins til jafns við fjármagnseigendur, þar með talin ráðstöfun hagnaðar. Hagnað ætti ekki að taka út úr fyrirtækinu til að nota í spákaupmennsku utan rekstrar, heldur til uppbyggingar fyrirtækisins og til að auka fjölbreytni og atvinnutækifæri. Einnig eiga starfsmenn að njóta hlutdeildar í þeim hagnaði sem þeir hafa skapað með vinnu sinni.

Hefjumst handa tafarlaust!

Ég segi, látum þá ekki ræna öllu því sem foreldrar okkar og foreldrar foreldra þeirra hafa byggt upp hér á umliðnum öldum. Við erum fullfær um að taka örlög okkar í eigin hendur. Við erum ekki heimsk og við stöndum öllum Wallenbergum heimsins á sporði. Við erum líka kjörkuð þjóð, við gerðum jafntefli við heimsmeistarana í fótbolta, við sigruðum Breta í landhelgisstríðinu, og við brutum af okkur einokun Dana. Hvað viljið þið hafa það betra?

Bara þetta: Valdamennirnir munu ekki færa okkur breytingarnar á silfurfati, þeir ætla að nota sín silfurföt til annars. Það verðum við, fólkið, fjöldinn sem mun gera þessar breytingar. Hefjumst handa tafarlaust.

Höfundur er í stjórn Húmanistaflokksins.

Júlíus Valdimarsson