Tatu Kantomaa flutti umritanir á klassískum verkum og hefðbundin harmonikkulög. Laugardaginn 3. október. "HARMONIKKAN einasta yndið mitt er" var einu sinn sungið og er þetta vísubrot ekki fjarri lagi, því "fátt var svo til gamans gert" hér áður fyrr í dansi og öðrum mannfagnaði, að harmonikkan væri þar fjarri góðu gamni.

Orgelharmonikka

TÓNLIST

Gerðuberg

HARMONIKKUTÓNLEIKAR

Tatu Kantomaa flutti umritanir á klassískum verkum og hefðbundin harmonikkulög. Laugardaginn 3. október.

"HARMONIKKAN einasta yndið mitt er" var einu sinn sungið og er þetta vísubrot ekki fjarri lagi, því "fátt var svo til gamans gert" hér áður fyrr í dansi og öðrum mannfagnaði, að harmonikkan væri þar fjarri góðu gamni. Nokkuð er sagan fáorð um uppruna þessa alþýðuhljóðfæris en nafnið "accordion" kemur fyrst fram 1829, í sambandi við einkaleyfi Vínar-Armenans Cyrills Demians á belghljóðfæri með fimm bassatökkum, sem á mátti leika tíu hljóma, er var nýjungin fyrir þetta hljóðfæri. Nafnið "Harmonica" á hljóðfærinu munnharpa er sagt eiga sér þann uppruna, að Christian F.L. Buschmann (1805­64) hafi fengið hugmyndina að munnblásnu orgeli, er hann var að smíða stilliflautur á verkstæði föður síns, sem var orgelstillari. Christian Messner og Matthias Hohner voru um langt skeið nær þeir einu sem framleiddu munnhörpur og voru einnig frægir fyrir hamonikkur sínar.

Consertina eða Konzertina var fyrst notuð af Carli Fr. Uhlig, árið 1834, og þá var form þess rétthyrnt. Sama form var einnig notað af Heinrich Band (1846) en hann breytti tónskipan hljóðfærisins og segir þjóðsagan, að Íri nokkur hafi haft þetta hljóðfæri með sér til Argentínu, þar sem það varð sérlega vinsælt tangó-hljóðfæri. Sexstrendingslagið er rakið til Charles Wheatstones og samstarfsmanns hans, Johanns Matthias Stroh (1851). Hjóðfæri þeirra var upphaflega kallað "melophone" og vinsældirnar má m.a. rekja til þess að tónskipanin var tvöföld, svo að sami tónninn hljómaði á út- og innsogi.

Til skamms tíma var tónskipanin og hljómkerfi bassans það sem hindraði notkun hljóðfærisins í klassískri tónlist, en nú eru framleiddar harmonikkur þar sem hægt er að leika án bundinnar hljómskipunar. Hljóðfærið sem Kantomaa lék er á þesslegt, auk þess að vera byggt með sub-bassa og stærra hljómborði og því mun stærra og þyngra í meðförum en venjulegar harmonikkur. Á þessa stóru nikku lék Kantomaa Austurias eftir Albeniz, Valse triste eftir Sibelius og Oblivion eftir Piazzolla ásamt harmonikkuverkum eftir minna þekkt tónskáld og Lýrískan vals eftir óþekktan höfund, fallegt lag, sem var sérlega fínlega flutt. Það háði Kantomaa nokkuð að hann er ekki búinn að ná fullum sáttum við þetta mikla hljóðfæri, þótt það hafi ekki dulist neinum, að hér er á ferðinni frábær flytjandi.

Eftir hlé lék Kantomaa á venjulega nikku, nokkra "standarda" eins og La Mariposita og Carmelita, bæði eftir Pietro Frosini, og tvö þekkt lög eftir Pietro Deiro, Elvira og Heimkoma Pietros, og skemmtilega ungverska útleggingu eftir Viljo Vesterinen. Í öllum þessum lögum var leikur Kantomaa aldeilis glæsilegur, bæði hvað snertir tækni og fallega tónmyndun. Svo aftur sé vikið að hljóðfærinu sem notað var á fyrri hluta tónleikanna verður fróðlegt að fylgjast með Kantomaa, er hann hefur fullmótað leik sinn á þetta volduga hljóðfæri, sem hvað hljómvídd minnir á orgel og mætti vel hugsa sér að orgeltónlist frá barokktímanum hæfði þessu hljóðfæri mjög vel, t.d. Tokkata og fúga í d-moll, sem er eignuð J.S. Bach. Hvað sem þessu líður er hér um að ræða hljóðfæri, sem er í allt örðum gæðaflokki en venjulegar nikkur, eins konar orgelharmonikka, hljóðfæri er sómir sér í allri tónlist og býður upp á margvíslega tómyndunar- og tæknimöguleika, umfram það sem gerist á venjulegar nikkur.

Jón Ásgeirsson