ÞAÐ STÁTA ekki margar rokkhljómsveitir af öðrum eins ferli og Kiss. Þrátt fyrir að hafa sjaldnast verið vinsælir hjá gagnrýnendum og beinlínis hataðir af menningarvitum um víða veröld hafa þeir félagar átt ótrúlegum vinsældum að fagna allt frá upphafi ferils síns. Það var árið 1973 sem meðlimir Kiss undirrituðu sinn fyrsta plötusamning eftir einungis eina tónleika.
Erlendar plötur

Ari Eldon tónlistarmaður fjallar um nýjustu breiðskífu rokksveitarinnar Kiss "Psycho Circus"

Nýmálað

ÞAÐ STÁTA ekki margar rokkhljómsveitir af öðrum eins ferli og Kiss. Þrátt fyrir að hafa sjaldnast verið vinsælir hjá gagnrýnendum og beinlínis hataðir af menningarvitum um víða veröld hafa þeir félagar átt ótrúlegum vinsældum að fagna allt frá upphafi ferils síns.

Það var árið 1973 sem meðlimir Kiss undirrituðu sinn fyrsta plötusamning eftir einungis eina tónleika. Sagt hefur verið að hljómsveitin hafi vakið meiri athygli í upphafi fyrir andlitsfarða og sviðsframkomu en tónlist. Það getur svo sem verið, enda voru búningar þeirra hannaðir með það fyrir augum að eftir þeim væri tekið.

Kiss voru brautryðjendur í markaðssetningu rokkhljómsveita og mætti einna helst líkja þeim við Spice Girls 9. áratugarins. En það hlýtur að teljast ólíklegt að kryddkvendin verði jafn vinsæl árið 2020 og Kiss eru nú, 25 árum eftir að ævintýrið hófst.

Þó Kiss hafi aldrei verið í peningavandræðum hefur leiðin ekki alltaf verið greið og dómgreindarskortur allverulegur hrjáð þá félaga oft og tíðum. Eftir að hafa skipt út Peter Criss og Ace Frehley í byrjun áttunda áratugarins vegna persónulegs ágreinings (lesist: peningarifrildi og drykkjuskapur) tóku þeir Gene Simmons og Paul Stanley öll völd í bandinu, skoluðu af sér andlitsfarðann og var engu líkara en þeir væru með vatn í eyrunum næstu tíu árin eða svo.

Nýja ímyndin gekk reyndar vel til að byrja með, en eftir vinsældir Lick it up tók að halla undan fæti. Lagahöfundar á borð við Michael Bolton voru fengnir til að reyna að hressa upp á söluna, en allt kom fyrir ekki, enda hann tæplega hátt skrifaður hjá hinum almenna Kiss aðdáanda sem vill bara sitt "Rock'n'Roll All Nite" og engar ballöðurefjar.

Kissherinn svonefndi sýndi þó langlundargeð og hlustaði bara á gömlu plöturnar þar til að hið ótrúlega gerðist. Ace og Peter mættu á "Unplugged"-tónleikana á MTV og það var eins og við manninn mælt; Kiss voru komnir aftur nýmálaðir og í fullu fjöri. Eftir fylgdi svo tónleikaferð um heiminn og nú er komin út fyrsta alvöru Kiss platan síðan 1982, þegar "Creatures of the Night" gerði allt brjálað og þá ekki síst foreldra eigenda hennar.

"Psycho Circus" heitir skífan og í samnefndu upphafslagi hennar verður strax ljóst að það hefur fleira breyst en mannaskipanin. Hljómurinn er hrár, minnir til skiptis á "Dressed to Kill", "Destroyer" og "Unmasked", og spilagleðin síst minni en á þeim eðalplötum. Það má og finna margar tilvísanir í fortíðina hér og þar á plötunni, bæði í lagatitlum og textum, en Kiss eru alltaf skemmtilegastir þegar þeir syngja um sjálfa sig og því spillir það síður en svo fyrir.

Eina áberandi feilsporið er fremur hallærisleg ballaða sungin af Peter Criss, "I Finally Found My Way", þar sem hann krunkar sig í gegnum augljósa eftirlíkingu af gamla smellinum "Beth". Það er þó ekki stórvægilegur galli, því lög eins og "Within", "Into the Void" og titillagið "Psycho Circus" vega á móti og standast fyllilega samanburð við það besta sem frá Kiss hefur komið. Frumneistinn er greinilega falinn í heildinni, frekar en einstökum meðlimum og ánægjulegt að hörkutólin Simmons og Stanley skuli loks hafa gert sér grein fyrir því.

"Þá er ekkert eftir annað en að hringja í vini sína í nágrenninu og hefja samkvæmið." Kiss eru komnir tilbaka og eins og venjulega skiptir engu máli hvað hver segir. Þeir gera það sem þeir vilja og þegar sá gállinn er á þeim hrista þeir afbragðsplötur á borð við "Psycho Circus" fram úr erminni. Næst á dagskrá er svo Kiss bíllinn, hannaður í samvinnu við Ford verksmiðjurnar og væntanlegur á markaðinn eftir aldamótin. Hvenær ætli við fáum svo Ford Spice?

Kiss eru alltaf skemmtilegastir þegar þeir syngja um sjálfa sig

Leiðin hefur ekki alltaf verið greið og dómgreindarskortur allverulegur hrjáð þá félaga oft og tíðum

Það mætti einna helst líkja þeim við Spice Girls 9. áratugarins