Leikgerð eftir Evu Sköld upp úr skáldsögu Astrid Lindgren. Íslensk þýðing: Þorleifur Hauksson. Söngtextar: Þórarinn Eldjárn. Leikstjóri: Viðar Eggertsson. Leikarar: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Bárður Smárason, Erlingur Gíslason, Elva Ósk Ólafsdóttir, Hafsteinn Pétursson, Hjalti Rögnvaldsson, Magnús Ragnarsson, Ólafur Darri Ólafsson, Randver Þorláksson,

Bræðurnir

Ljónshjarta LEIKLIST Þjóðleikhúsið BRÓÐIR MINN LJÓNSHJARTA

Leikgerð eftir Evu Sköld upp úr skáldsögu Astrid Lindgren. Íslensk þýðing: Þorleifur Hauksson. Söngtextar: Þórarinn Eldjárn. Leikstjóri: Viðar Eggertsson. Leikarar: Anna Kristín Arngrímsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Bárður Smárason, Erlingur Gíslason, Elva Ósk Ólafsdóttir, Hafsteinn Pétursson, Hjalti Rögnvaldsson, Magnús Ragnarsson, Ólafur Darri Ólafsson, Randver Þorláksson, Sigríður Þorvaldsdóttir, Stefán Jónsson, Sveinn Orri Bragason og Valdimar Örn Flygenring. Leikmynd og búningar: Elín Edda Árnadóttir. Lýsing: Páll Ragnarsson. Tónlist: Jóhann G. Jóhannsson. Stóra sviðið, sunnudagur 4. október Í LEIKDÓMI um frumsýningu Þjóðleikhússins á Bróðir minn Ljónshjarta var fjallað um frammistöðu þeirra Hilmis Snæs Guðnasonar og Gríms Helga Gíslasonar í hlutverkum bræðranna Jónatans og Snúðs. En með þessi aðalhlutverk fara einnig þeir Atli Rafn Sigurðarson og Sveinn Orri Bragason. Það var síðarnefnda parið sem lék á sýningunni síðastliðinn sunnudag og gagnrýnandi brá sér því aftur á sýningu. Segja má að hlutverk yngri bróðurins. Snúðs, sé það viðamesta í sýningunni. Snúður er inni á sviðinu svo að segja allan tímann og verður það að teljast mikið afrek hjá svo ungum og óreyndum leikurum eins og Sveini Orra og Grími Helga að fatast hvergi flugið í textameðferð og túlkun í þá tvo tíma sem sýningin tekur í flutningi. Sveinn Orri lifði sig vel inn í hlutverkið og fór með allan textann án þess að hika. Hann er ögn viðkvæmnislegri en félagi hans Grímur Helgi og hæfir það hlutverkinu vel. Hins vegar brá við að honum lægi of lágt rómur, þannig að stundum var erfitt að heyra hvað hann sagði. Reyndar má segja að það sama gildi um Atla Rafn og ég velti fyrir mér hvort míkrafónar sem leikararnir bera á sér væru lægra stilltir en á frumsýningu. Atli Rafn passar vel í hlutverk Jónatans, ekki síður en Hilmir Snær, og reyndar var eftirtektarvert hversu túlkun þeirra var sambærileg í stóru og smáu. Útlit þeirra er einnig hannað þannig að erfitt er að greina þá í sundur, til að mynda á ljósmyndum í leikskrá. Atli Rafn er þó strákslegri en Hilmir Snær og setur það svip sinn á túlkun hans, Jónatan var ívið þroskaðri og ákveðnari í túlkun Hilmis Snæs. Samleikur Atla Rafns og Sveins Orra var með miklum ágætum þó ekki væri hann á eins innilegum nótum og hjá hinu leikaraparinu. Þessi sýning staðfesti fyrri skoðun mína að yfirbragð og áherslur uppsetningarinnar eru full drungalegar fyrir yngsta áhorfendahópinn. Ég er ekki frá því að nýta hefði mátt betur þá fantasíu sem sagan býður upp á, bæði í umgjörð og efni sýningarinnar. Soffía Auður Birgisdóttir