eftir Iðunni Steinsdóttur. Höfundur leikgerðar og söngtexta: Pétur Eggerz. Leikstjóri og höfundur leikmyndar: Bjarni Ingvarsson. Leikarar: Drífa Arnþórsdóttir og Linda Ásgeirsdóttir. Tónlist: Vilhjálmur Guðjónsson. Búningar og brúðugerð: Katrín Þorvaldsdóttir. Möguleikhúsið við Hlemm. 3. október

Baldnar

systur bregða á leik LEIKLIST Möguleikhúsið SNUÐRA OG TUÐRA

eftir Iðunni Steinsdóttur. Höfundur leikgerðar og söngtexta: Pétur Eggerz. Leikstjóri og höfundur leikmyndar: Bjarni Ingvarsson. Leikarar: Drífa Arnþórsdóttir og Linda Ásgeirsdóttir. Tónlist: Vilhjálmur Guðjónsson. Búningar og brúðugerð: Katrín Þorvaldsdóttir. Möguleikhúsið við Hlemm. 3. október SNUÐRA OG TUÐRA er leikþáttur ætlaður yngsta áhorfendahópnum (2­9 ára) sem er byggður á sögum eftir Iðunni Steinsdóttur. Pétur Eggerz, leikhússtjóri Möguleikhússins, er höfundur leikgerðarinnar sem samanstendur af þremur "frásögum" af þeim systrum: þegar Snuðra meiddi sig, þegar þær gáfu föt foreldra sinna í Afríkusöfnun og þegar þær fóru í sveitina og duttu í fjóshauginn. Þessi atriði eru síðan tengd saman með lýsingum á daglegu lífi systranna, mestmegnis lýsingum á því hvernig þær rífast um dótið sitt og eru foreldrum sínum erfiðar. Það eru þær Drífa Arnþórsdóttir og Linda Ásgeirsdóttir sem fara með hlutverk systranna. Báðar teljast þær til yngstu kynslóðar íslenskra leikara og báðar hafa þær sýnt ágæta takta í gamanleik, Drífa í uppsetningu Lundúnaleikhópsins á Margréti miklu eftir Kristínu Ómarsdóttur í hittifyrra og Linda í Uppstoppaður hundur eftir Staffan Göthe, sem var lokaverkefni Nemendaleikhússins í vor sem leið. Hæpið er að segja að hlutverk Snuðru og Tuðru geri miklar kröfur til leikaranna tveggja, atferli þeirra felst aðallega í ýktum ólátum, hamslausri kátínu og grátviprum, þar sem það á við. Þær Drífa og Linda fóru léttilega með þetta og náðu þær vel til hinna ungu áhorfenda, þótt örfáum vel upp öldum börnum þætti greinilega nóg um ólætin í þeim á köflum. Katrín Þorvaldsdóttir hefur hannað litríka og sniðuga búninga systranna og hún gerir einnig brúður sem notaðar eru á skemmtilegan hátt í sýningunni. Samvinna brúðuleiks og "leikaraleiks" var vel útfærð og einnig var nýting á leikmynd skemmtileg og óvenjuleg. Það er Bjarni Ingvarsson, leikstjóri, sem á heiðurinn af leikmyndinni sem samanstendur af kommóðu og trékubbum sem snúa má á alla kanta eftir þörfum. Leikurinn er síðan kryddaður með nokkrum sönglögum eftir Vilhjálm Guðjónsson sem voru létt og grípandi eins og við á í barnasýningu. Snuðra og Tuðra er barnasýning sem hönnuð er með það fyrir augum að hægt sé að ferðast með hana á milli staða og vafalaust eiga hinar böldnu systur eftir að kæta marga krakka á leikskólum landsins í vetur. Soffía Auður Birgisdóttir