SAMKVÆMT bráðabirgðatölum frá FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, var fiskframleiðslan á síðasta ári, 1997, 122 milljónir tonna eða nær óbreytt frá metárinu 1996. Mikil aukning var í Kína, mesta fiskframleiðsluríki í heimi, en á móti kemur minni veiði við Suður-Ameríku vegna heita straumsins, El Ni~no.

Heimsframleiðslan í fiski

óbreytt síðastliðin tvö ár

Verð á botnfiski

líklega áfram hátt

SAMKVÆMT bráðabirgðatölum frá FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, var fiskframleiðslan á síðasta ári, 1997, 122 milljónir tonna eða nær óbreytt frá metárinu 1996. Mikil aukning var í Kína, mesta fiskframleiðsluríki í heimi, en á móti kemur minni veiði við Suður-Ameríku vegna heita straumsins, El Ni~no.

Hlutur fiskeldisins í framleiðslunni heldur áfram að aukast en í rækjueldinu virðist þó vöxturinn vera að jafnast út. Verðmæti útfluttra fiskafurða jókst nokkuð á síðasta ári, úr rúmlega 3.700 milljörðum ísl. kr. 1996 í tæplega 4.000 milljarða kr., þótt magnið minnkaði dálítið á milli ára. Skýrist það af hærra verði almennt en um 85% útflutningsins fóru til þróuðu ríkjanna.

Japanir voru enn einu sinni mesti innflytjandinn, með um 30%, og Bandaríkjamenn voru í öðru sæti ásamt því að vera þriðji stærsti útflytjandi fiskafurða. Innflutningur til Evrópusambandsríkjanna jókst á milli ára og stækkar stöðugt bilið á milli þess, sem þau framleiða sjálf, og neyslunnar í ríkjunum.

Kreppan í Asíu hefur veruleg áhrif

Enn er það rækjan, sem er númer eitt í alþjóðlegum viðskiptum með fiskafurðir og er hlutur hennar um 20% í verðmæti. Fjármálakreppan í Asíu hafði þó veruleg áhrif á rækjuviðskiptin snemma á þessu ári og innflutningur til Japans dróst saman vegna efnahagserfiðleikanna þar.

Þótt skortur hafi verið á fiski á Evrópumarkaði á fyrsta ársfjórðungi og verðið þess vegna hátt, var besti markaðurinn samt í Bandaríkjunum. Á fyrstu þremur mánuðum ársins var sett nýtt innflutningsmet þar, 67.200 tonn, eða 20% umfram innflutninginn á sama tíma 1997. Þá var neyslan 75.000 tonn og hefur ekki verið meiri frá árinu 1993.

Búist er við, að eftirspurnin eftir fiski verði áfram mikil vestra út þetta ár en frá því um mitt árið hefur verðið lækkað aðeins. Á það einkum við um hlýsjávarrækjuna og er aðalástæðan erfiðleikarnir í Japan og minni eftirspurn þar.

Minna framboð af kaldsjávarrækju

Búist er við nokkurri aukningu á framboði af eldisrækju en útlit er fyrir, að heldur dragi úr framboði af kaldsjávarrækju. Þá er einnig líklegt, að verð á hlýsjávarrækju haldi áfram að lækka vegna þess, að engar horfur eru á batnandi ástandi í Japan. Í Evrópu hefur verðið einnig lækkað og því er spáð, að það lækki enn.

Botnfiskur ýmiss konar svarar til 10% af heimsviðskiptunum með fisk og fiskafurðir en vegna lélegrar fiskveiðistjórnunar standa margir botnfiskstofnanna illa. Framboðið er því lítið en verðið hátt og vegna þess og efnahagserfiðleikanna í Asíu hefur eftirspurn þar aukist eftir öðrum og ódýrari tegundum. Almennt er búist við, að verð á botnfiski og botnfiskafurðum verði áfram hátt og meðal annars vegna þess, að allt stefnir í minna framboð af Alaskaufsa.

Rányrkja í lýsingi

Lýsingsaflinn við Argentínu var 600.000 tonn á síðasta ári, 60% umfram kvóta, en nú er verið að grípa til strangra ráðstafana til að vernda stofninn. Það á þó eftir að koma í ljós hvort þær duga til að halda aflanum innan löglegs kvóta. Vegna El Ni~no var engan lýsing að fá við Perú á síðara misseri 1997 og fyrra misseri þessa árs en nú virðist ástandið vera að lagast á ný.

Mikil eftirspurn er eftir hokinhala frá Nýja-Sjálandi en hokinhalablokkin er oft notuð í staðinn fyrir annan hvítfisk, sem svo er kallaður. Hefur verðið hækkað auk þess sem útflytjendur hafa hagnast á heldur lágu gengi nýsjálenska dollarans.

Mikil óvissa ríkir um þorskstofninn í Barentshafi og meðal annars vegna þess, að Rússar hafa meinað norskum fiskifræðingum að stunda rannsóknir innan rússnesku lögsögunnar. Þrátt fyrir það er ljóst, að stofninn hefur minnkað verulega og mun það segja til sín í minna þorskframboði á næstunni.

Verðlækkun í túnfiski

Túnfiskur er 11% af heimsviðskiptunum en góð veiði í sumum smærri tegundum að undanförnu hefur orðið til að lækka verðið. Raunar er góð eftirspurn í Evrópu en efnahagsástandið í Asíu hefur haft sín áhrif, ekki síst á markaðinn fyrir ferskan túnfisk í Japan. Í Bandaríkjunum hefur salan verið góð og jöfn en búist er við, að úr henni dragi í október að venju.

Að lokum má nefna smokkfisk og kolkrabba en þeir svara til 4% af heimsviðskiptunum. Hefur langmest verið flutt til Japans en vegna ástandsins þar og minni eftirspurnar hefur verðið lækkað allmikið. Mun Evrópumarkaðurinn vafalaust njóta góðs af því, jafnt í framboði sem verði.