EIGNARHALDSÁKVÆÐIÐ fræga í reglum gæðingakeppninnar bar nokkrum sinnum á góma í úrtökukeppnum fyrir landsmótið í vor. Eitt þessara mála virðist ætla að draga einhvern dilk á eftir sér en þar er um að ræða skráningu á stóðhestinum Glúmi frá Reykjavík í úrtökukeppni hjá hestamannafélaginu Hornfirðingi í vor.
Formaður LH segir mörg eignarhaldsmál berast til stjórnar Stórvandamál sem þarf að finna lausn á HESTAR EIGNARHALDSÁKVÆÐIÐ fræga í reglum gæðingakeppninnar bar nokkrum sinnum á góma í úrtökukeppnum fyrir landsmótið í vor. Eitt þessara mála virðist ætla að draga einhvern dilk á eftir sér en þar er um að ræða skráningu á stóðhestinum Glúmi frá Reykjavík í úrtökukeppni hjá hestamannafélaginu Hornfirðingi í vor. Glúmur vann sér rétt til þátttöku í B-flokki á landsmótinu fyrir hönd Hornfirðings en nokkrir félagsmenn höfðu rökstuddar efasemdir um réttmæti eignarhaldsskráningarinnar. Tildrög málsins eru þau að Glúmur frá Reykjavík var skráður í vor í B-flokk hjá Fáki í eigu Friðgerðar Guðnadóttur sem er félagi í Fáki. Knapi var skráður Daníel Jónsson. Glúmur mætti ekki til leiks hjá Fáki en það næsta sem gerist er að Daníel hyggst skrá hann til leiks hjá Léttfeta á Sauðárkróki og þá í eigu Friðgerðar og félagsmanns í félaginu. Sveinn Guðmundsson á Sauðárkróki gekk þá í málið og ræddi við hlutaðeigendur og gerði mönnum grein fyrir því hvaða afleiðingar það gæti haft og var því fallið frá skráningu. Að síðustu var Glúmur svo skráður hjá Hornfirðingi í eigu Friðgerðar, knapans Daníels og sambýliskonu hans Guðbjargar Ágústsdóttur. Að sögn Hanni Heiler stjórnarmanns í Hornfirðingi uppgötvaðist fyrir tilviljun forsaga málsins og fór hún ásamt fjórum félögum í Hornfirðingi fram á að haldinn yrði stjórnarfundur í því augnamiði að vísa Glúmi frá þar sem ljóst væri að eignarhaldið væri eitthvað málum blandið. Hanni segir að ekki hafi fengist stjórnarfundur um málið og því meðal annars borið við að ef víkja ætti hestinum úr keppni myndi slíkt eyðileggja stemmningu mótsins. Þá sagði Hanni það óneitanlega hafa gert málið erfiðara að móðir Guðbjargar væri ritari stjórnar félagsins og faðir hennar væri varamaður í stjórn og fyrrverandi formaður. Því hafi ekki komið til þess að Glúmi yrði vísað frá en málið kært til Ungmennasambandsins Úlfljóts sem dæmdi þátttöku Glúms réttmæta og sagði í niðurstöðu þátttöku hans ekki stangast á við reglur Landsambands hestamannafélaga þar sem hann hefði ekki keppt hjá Fáki. Málinu var áfrýjað til dómstóls LH en þrátt fyrir ítrekaða beiðni um að málið yrði afgreitt fyrir landsmót var það ekki gert að sögn Hanniar. Sagði hún að þeir kærendur væru orðnir langeygir eftir niðurstöðu í þessu máli. Birgir Sigurjónsson formaður LH sagði að þessu máli hafi verið vísað til aganefndar samtakanna um leið og það barst skrifstofunni. Stjórnin hefði ítrekað beðið um afgreiðslu þessa máls en nefndin hefði því miður ekki enn skilað af sér. Aðspurður kvað hann þessi eignarhaldsmál vera orðið stórvandamál og ekki virtist nokkur leið að fylgja þessu ákvæði eftir öðru vísi en höfða til siðferðiskenndar manna. Ekki náðist í neinn aganefndarmanna. Valdimar Kristinsson