SKIPIN sem verið hafa við loðnuleit norður og norðvestur af landinu síðustu daga hafa nú hætt leitinni í bili. Lítið hefur sést til loðnunnar en skipstjórnarmenn eru bjartsýnir á að hún gangi í veiðanlegt ástand þegar líður fram á haustið. Þeir segja að loðnudreif hafi sést víða, þó aldrei hafi verið kastað. Þá hafi togarar orðið talsvert varir við loðnu í afla sínum.
Loðnuleit

hætt í bili

SKIPIN sem verið hafa við loðnuleit norður og norðvestur af landinu síðustu daga hafa nú hætt leitinni í bili. Lítið hefur sést til loðnunnar en skipstjórnarmenn eru bjartsýnir á að hún gangi í veiðanlegt ástand þegar líður fram á haustið. Þeir segja að loðnudreif hafi sést víða, þó aldrei hafi verið kastað. Þá hafi togarar orðið talsvert varir við loðnu í afla sínum.

Enn kropp á kolmunnanum

Samkvæmt heimildum Versins munu einhver loðnuskipanna snúa sér að kolmunnanum uns loðnuveiði glæðist á ný. Þar hefur verið reitingsveiði síðustu daga. Þannig landaði Beitir NK rúmum 1.000 tonnum af kolmunna í Neskaupstað um helgina og Bjarni Ólafsson AK tæpum 800 tonnum á Eskifirði. Samtals er þá búið að landa rúmum 80 þúsund tonnum af kolmunna hér á landi á vertíðinni, þar af um 44.500 tonnum úr íslenskum skipum. Mest hefur verið landað af kolmunnanum hjá Síldarvinnslunni hf. á Neskaupstað, eða um 28 þúsund tonnum, en um 24 þúsund tonnum hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar. Tæpum 12 þúsund tonnum hefur verið landað hjá Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum.

Barningur á síldinni

Síldveiðin hefur gengið treglega síðustu daga, en nú eru 10 skip að síldveiðum í Héraðsflóadjúpi. Haustvertíðin fór þokkalega af stað, en síldin er dreifð og erfið viðureignar. Nokkur skip náðu góðum köstum um síðustu helgi, 200-300 tonnum í kasti, en lítil veiði var hinsvegar í fyrrinótt en þá var leiðindaveður á miðunum. Að sögn Birgis Henningssonar, skipverja á Svani RE, náðu skipin aðeins einu kasti undir morgunsárið og fengu flest þeirra á bilinu 40-50 tonn. Svanurinn náði hinsvegar skásta kastinu, eða um 100 tonnum. "Það er leiðindaástand á þessu núna. Við sjáum talsvert af síld en hún er dreifð og sömuleiðis leitast illa þegar veðrið er slæmt. Við náðum bara einu kasti, en yfirleitt ná skipin þremur til fjórum köstum á sólarhring og þá bara yfir nóttina. Við látum hinsvegar reka á meðan bjart er," sagði Birgir.

Svipað ástand og í fyrra

Síldin sem fæst er góð, að sögn Birgis, en nokkuð blönduð. Hann sagði stærstan hluta hennar fara til bræðslu, því líklega væri ekki hægt að vinna mikið til manneldis vegna ástandsins í Rússlandi. Birgir var ekki bjartsýnn á að veiðin glæddist mikið úr þessu. "Við erum þó búnir að fá um 1.500 tonn í haust. Ástandið núna er mjög álíkt því sem var í fyrrahaust en þá var mjög léleg vertíð. Árin þar á undan var hinsvegar alltaf mokveiði á haustin. En eftir að þeir hleyptu flottrollinu á síldin er eins og eitthvað hafi breyst. Við fengum 2.000 tonn á síðustu vertíð sem er aðeins um helmingur þess kvóta sem við eigum," sagði Birgir á Svaninum.