MANNRÉTTINDASAMTÖKIN Amnesty International hófu í gær alþjóðlega herferð til varnar mannréttindum í Bandaríkjunum. Í tengslum við herferðina hefur verið gefin út skýrsla, þar sem meðal annars er fjallað um lögregluofbeldi, dauðarefsingar og slæma meðferð á föngum og flóttafólki.
Mannréttindasamtökin Amnesty International efna til herferðar

Mannréttindabrot í

Bandaríkjunum gagnrýnd

Washington. Reuters.

MANNRÉTTINDASAMTÖKIN Amnesty International hófu í gær alþjóðlega herferð til varnar mannréttindum í Bandaríkjunum. Í tengslum við herferðina hefur verið gefin út skýrsla, þar sem meðal annars er fjallað um lögregluofbeldi, dauðarefsingar og slæma meðferð á föngum og flóttafólki.

Í skýrslunni segir að greina megi "stöðugt og víðfeðmt mynstur mannréttindabrota" í Bandaríkjunum, og þar er meðal annars farið fram á að dauðarefsingar verði afnumdar, að lögregluofbeldi verði rannsakað af óháðum aðilum og að alþjóðareglur um mannréttindi verði virtar. Samtökin hvetja einnig Bandaríkjastjórn til að setja strangari reglur um útflutning vopna og tækja sem notuð eru til pyndinga.

Fangar fórnarlömb alvarlegra mannréttindabrota

Lögregluofbeldi er víðtækt vandamál í öllum fylkjum Bandaríkjanna, að því er fram kemur í skýrslunni. Flestar kvartanir eru vegna meiðinga og barsmíða við handtökur, og algengt er að fólk, sem er í haldi lögreglu, sé beitt raflosti eða úðað með piparúða, og því sé haldið í fjötrum eða stellingum sem hindra öndun. Einnig eru dæmi um að óvopnað fólk hafi orðið fyrir byssukúlum lögreglumanna.

Nærri tvær milljónir manna eru á bak við lás og slá í Bandaríkjunum, og verða fangar oft fórnarlömb alvarlegra mannréttindabrota, að sögn samtakanna. Rannsóknir benda til þess að algengt sé að fangar verði fyrir líkamlegri og kynferðislegri misbeitinu af hendi fangaverða. Í trássi við alþjóðlega samninga eru járnhlekkir víða notaðir í bandarískum fangelsum og þess eru jafnvel dæmi að vanfærar konur hafi verið hafðar í hlekkjum. Í skýrslunni er lýst áhyggjum vegna skorts á læknisaðstoð í fangelsum og fjölgunar öryggisdeilda, þar sem föngum er haldið í einangrun til langs tíma.

Bandarísk fangelsi eru gjarnan yfirfull, að því er fram kemur í skýrslunni. Í sumum fylkjum hefur verið reynt að draga úr kostnaði með því að einkavæða fangelsi, en að mati Amnesty getur það aukið líkurnar á slæmri meðferð fanga. Samkvæmt heimildum samtakanna eru að minnsta kosti 3.500 ungmenni undir 18 ára aldri vistuð í fangelsum fyrir fullorðna í Bandaríkjunum, en það brýtur í bága við alþjóðlega mannréttindasáttmála.

Aftökum fjölgar

Dauðarefsingar eru leyfðar í 38 fylkjum Bandaríkjanna, og frá því að hæstiréttur heimilaði þær á ný árið 1976 hafa nær 500 afbrotamenn verið teknir af lífi. Öfugt við þróunina í flestum iðnvæddum ríkjum hefur dauðadómum þar fjölgað, og hvergi í heiminum bíða nú fleiri aftöku, eða um 3.300 menn. Í Bandaríkjunum eru leyfðar aftökur á andlega veilu fólki, í bága við alþjóðlega mannréttindasáttmála, og gagnstætt alþjóðalögum heimila 24 fylki dauðadóm vegna glæpa sem ungmenni fremja fyrir 18 ára aldur.

Vakin er athygli á því að fólk sem tilheyrir minnihlutahópum, eða er félagslega eða efnahagslega illa sett, verður helst fyrir mannréttindabrotum. Svertingjar, sem dæmdir hafa verið fyrir að nauðga eða myrða hvíta manneskju, eru til dæmis mun líklegri til að hljóta dauðadóm en hvítir afbrotamenn, og síður er kveðinn upp dauðadómur ef fórnarlambið er svart. 60% fanga í Bandaríkjunum tilheyra minnihlutahópum, og þar af er helmingurinn svertingjar, en þeir eru aðeins 12% af heildarmannfjölda.

Bandaríkin sein til að staðfesta alþjóðasáttmála

Samtökin benda á að Bandaríkin hafi verið sein til að staðfesta alþjóðlega mannréttindasáttmála og reynt að komast hjá eftirliti með framkvæmd þeirra. Í skýrslunni segir að Bandaríkin vísi óhikað til alþjóðalaga þegar það þjóni hagsmunum þeirra, en sniðgangi þau ella. Þau hafi tilhneigingu til að gagnrýna mannréttindabrot ríkisstjórna sem taldar séu óvinveittar, en sitji aðgerðalaus hjá þegar brot séu framin í vinveittum ríkjum.

Þá er harðlega gagnrýnt að margir flóttamenn, sem æskja hælis í Bandaríkjunum, séu settir á bak við lás og slá þegar þeir koma til landsins. Þeir fá þá sömu meðferð og aðrir fangar, og eru jafnvel fjötraðir og settir í einangrun. Fjölmörg dæmi eru um að flóttafólki sé meinað að hafa samband við ættingja, lögfræðinga eða flóttamannasamtök. Einnig er fullyrt að Bandaríkin stuðli að mannréttindabrotum með því að veita tækniaðstoð og selja tækjakost til ríkisstjórna og vopnaðra hópa, sem vitað er að beri ábyrgð á pyndingum, pólitískum morðum og öðrum mannréttindabrotum.

AFTÖKUHERBERGI í fangelsinu í Lucasville í Ohio. Þar bíða nú 180 fangar aftöku, í rafmagnsstól eða með banvænni lyfjagjöf.