VÁTRYGGINGAFÉLAG Íslands, Rauði kross Íslands og Félag framhaldsskólanema munu í vetur gangast fyrir fundaherferð meðal framhaldsskólanema um umferðarslysavarnir og skyndihjálp og hafa fulltrúar félaganna undirritað samning þ.a.l, að því er segir í fréttatilkynningu.

Samstarf gegn

umferðarslysum

VÁTRYGGINGAFÉLAG Íslands, Rauði kross Íslands og Félag framhaldsskólanema munu í vetur gangast fyrir fundaherferð meðal framhaldsskólanema um umferðarslysavarnir og skyndihjálp og hafa fulltrúar félaganna undirritað samning þ.a.l, að því er segir í fréttatilkynningu. Vátryggingafélag Íslands hefur unnið að forvörnum með þessum hætti á undanförnum árum en Rauði kross Íslands tekur nú í fyrsta sinn þátt í átakinu og annast fræðslu um skyndihjálp.

Á síðustu árum hefur VÍS lagt mikla áherslu á hvers konar forvarnastarf. Þungamiðjan í því starfi hafa verið umferðarfundir með ungu fólki undir kjörorðunum "Tökum slysin úr umferð". Haldnir hafa verið fjölmargir fundir í flestum framhaldsskólum landsins þar sem mætt hafa yfir 8.000 ungmenni á sl. fjórum árum. Umferðarfundir VÍS samanstanda af efni um afleiðingar umferðarslysa fyrir ungt fólk og er að mestu leyti stuðst við efni af myndböndum og glærum. Í því sambandi hefur VÍS látið framleiða eigið efni sem hvergi hefur verið sýnt nema á umferðarfundum VÍS og jafnframt sýnt erlent myndefni; efni þar sem fjallað er um þessi viðkvæmu mál á sannferðugan, hreinskilinn og hispurslausan hátt, segir í tilkynningunni.

Á þeim tíma sem liðinn er frá því umferðarfundirnir hófust, hefur VÍS átt árangursríkt samstarf við ýmsa aðila og má þar nefna lögregluna og SEM-samtökin en fulltrúar frá þeim hafa mætt sem gestir og rætt um persónulega reynslu sína af skelfilegum afleiðingum umferðarslysanna, að því er kemur fram í fréttatilkynningunni.

Fulltrúar frá Rauða krossi Íslands munu mæta á fundina í vetur og vekja athygli á mikilvægi skyndihjálpar og sýna nýja mynd um fyrstu hjálp á slysstað. Rauði kross Íslands og deildir hans um land allt hafa um áratugaskeið staðið að öflugri fræðslu um skyndihjálp og slysavarnir með námskeiðum og útgáfu kennsluefnis.

Hver umferðarfundur stendur í 50­60 mínútur og fá allir þátttakendur blað, þar sem fjallað er um afleiðingar umferðarslysa fyrir ungt fólk, penna, endurskinsmerkisspjald og vandaðan bækling um skyndihjálp. Auk þess mun VÍS styrkja útgáfustarfsemi skólafélaganna skv. ákveðnum reglum auk þess sem þeir nemendur skólanna, sem mæta á fundina, fá umtalsverðan afslátt af ábyrgðartryggingu eigin bíls.