INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær ekki skilja hversu illa þingmennirnir Árni Mathiesen og Árni Johnsen hefðu tekið bréfi sínu til fjárlaganefndar en þingmennirnir gagnrýndu bréf hennar harðlega í umræðum um fjárlagafrumvarpið á Alþingi á mánudag. Í bréfinu segir borgarstjóri m.a.

Gagnrýnir

vinnubrögð

fjárlaganefndar

INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær ekki skilja hversu illa þingmennirnir Árni Mathiesen og Árni Johnsen hefðu tekið bréfi sínu til fjárlaganefndar en þingmennirnir gagnrýndu bréf hennar harðlega í umræðum um fjárlagafrumvarpið á Alþingi á mánudag. Í bréfinu segir borgarstjóri m.a. að sjónarmið forystumanna borgarinnar hafi mætt takmörkuðum skilningi á fundum þeirra með nefndinni og að í ljósi fyrri reynslu þyki sér rétt að nefndin ákveði hvort ástæða sé til þess að forsvarsmenn borgarinnar komi á hennar fund.

"Í fyrsta lagi var þetta bréf mitt afskaplega kurteislegt," segir borgarstjóri, "og engin stóryrði þar á ferðinni, ólíkt því sem var í viðbrögðum þessara ágætu manna."

Ingibjörg segir að með bréfinu hafi hún viljað koma á framfæri ákveðinni gagnrýni á vinnubrögð nefndarinnar sem sér finnist dálítið gamaldags. Nefndin boði fólk til fundar við sig 21. til 24. september, áður en fjárlagafrumvarp sé komið fram og að því sé ekki hægt að nota þessa fundi til að ræða neitt það sem þar standi. Þessir fundir verði því lítið annað en almennir málfundir sem oftar en ekki vilji detta í pólitískt karp.

Þjónar takmörkuðum tilgangi

"Mér finnst þetta þjóna takmörkuðum tilgangi og því valdi ég þá leið að senda nefndinni nokkuð ítarlegt yfirlit yfir ýmislegt sem varðar fjárhagsleg samskipti ríkis og borgar," segir hún. "Mér hefði síðan þótt nær að nefndin læsi þessi gögn yfir og kæmi á fundi með okkur eftir að fjárlagafrumvarpið er komið fram."