DÓMSMÁLANEFND fulltrúadeildar Bandaríkjaþings samþykkti í fyrradag að leggja til að hafin yrði formleg rannsókn á máli Bills Clintons forseta, sem hefur verið sakaður um meinsæri og fleiri lögbrot í tengslum við rannsókn á sambandi hans og Monicu Lewinsky,
Mál Clintons borið undir fulltrúadeild Bandaríkjaþings

Líklegt að rannsókn

verði samþykkt

Búist er við að fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykki tillögu um að hafin verði formleg rannsókn á máli Bills Clintons forseta, sem gæti leitt til ákæru á hendur honum til embættismissis. Margir telja að spurningin sé aðeins hversu margir demókratar samþykkja rannsóknina og framvindan gæti ráðist að miklu leyti af hollustu þeirra við forsetann í atkvæðagreiðslunni.

DÓMSMÁLANEFND fulltrúadeildar Bandaríkjaþings samþykkti í fyrradag að leggja til að hafin yrði formleg rannsókn á máli Bills Clintons forseta, sem hefur verið sakaður um meinsæri og fleiri lögbrot í tengslum við rannsókn á sambandi hans og Monicu Lewinsky, fyrrverandi starfsstúlku í Hvíta húsinu. Nefndin sendi fulltrúadeildinni tillögu að ályktun þess efnis að hún heimili nefndinni að "rannsaka til hlítar hvort nægjanlegur grundvöllur sé fyrir því að fulltrúadeildin beiti stjórnarskrárbundnu valdi sínu til að ákæra William Jefferson Clinton til embættismissis".

Gert er ráð fyrir því að fulltrúadeildin, sem er skipuð 435 þingmönnum, greiði atkvæði um ályktunina síðar í vikunni, hugsanlega á morgun, fimmtudag. Ályktunin verður eitt af síðustu málunum sem deildin afgreiðir fyrir kosningarnar 3. nóvember.

Rannsókn en ekki ákæra

Nefndin ræddi málið í ellefu klukkustundir í fyrradag og áður en umræðan hófst minnti formaður hennar, repúblikaninn Henry Hyde, nefndarmennina á að þeir ættu á þessu stigi aðeins að ákveða hvort rannsaka ætti málið frekar, en ekki taka afstöðu til þess hvort ákæra bæri forsetann til embættismissis.

"Við erum ekki hér til að fella dóm yfir einum né neinum," sagði hann. "Við erum hér til að svara þessari einu spurningu ­ á grundvelli þess sem við vitum nú ­ ber okkur skylda til að kafa dýpra eða líta undan?"

Samþykki fulltrúadeildin ályktunina tekur dómsmálanefndin málið til frekari rannsóknar og svo getur farið að hún yfirheyri Clinton og Monicu Lewinsky. Nefndin ákveður síðan hvort leggja eigi til að fulltrúadeildin samþykki formlega ákæru á hendur forsetanum til embættismissis. Hyde kvaðst búast við því að nefndin afgreiddi málið fyrir næstu áramót.

Samþykki fulltrúadeildin ákæru með meirihluta atkvæða dæmir öldungadeildin í málinu undir stjórn forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Komist tveir þriðju öldungadeildarinnar að þeirri niðurstöðu að forsetinn hafi gerst sekur um alvarleg lögbrot verður hann að láta af embætti.

Klofnar fulltrúadeildin eftir flokkslínum?

Þetta er aðeins í þriðja sinn í sögu Bandaríkjanna sem dómsmálanefndin leggur til formlega rannsókn á hendur forseta. Andrew Johnson hélt embættinu árið 1868 þegar aðeins eitt atkvæði vantaði til að hann yrði dæmdur sekur um embættisbrot í öldungadeildinni.

Richard Nixon sagði hins vegar af sér eftir að dómsmálanefndin hóf formlega rannsókn á Watergate- hneykslinu árið 1974.

Þegar dómsmálanefndin óskaði eftir heimild fulltrúadeildarinnar til að rannsaka frekar ásakanirnar á hendur Nixon var hún samþykkt með 410 atkvæðum gegn fjórum. Mjög ólíklegt er að niðurstaðan verði jafn afdráttarlaus í atkvæðagreiðslunni síðar í vikunni í máli Clintons.

Stjórnmálamenn í Washington búast flestir við því að fulltrúadeildin heimili dómsmálanefndinni að rannsaka mál Clintons frekar, enda eru repúblikanar með meirihluta í deildinni. Klofni deildin hins vegar eftir flokkslínum eins og dómsmálanefndin í fyrradag er líklegt að almenningur í Bandaríkjunum líti aðeins á rannsóknina sem þátt í flokkapólitíkinni á þinginu.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í fulltrúadeildinni gæti því gefið mikilvægar vísbendingar um framvindu málsins. Snúist aðeins örfáir demókratar á sveif með repúblikönum í málinu er líklegt að margir líti á rannsóknina sem pólitíska atlögu að forsetanum; verði þeir 50­70 veikist staða forsetans verulega.

Því fer fjarri að öruggt sé að öldungadeildin dæmi Clinton sekan um alvarleg embættisbrot með tilskildum meirihluta atkvæða. Eins og staðan er nú er líklegt að hann fái þau 34 atkvæði sem hann þarf til að halda velli. Það gæti þó breyst eftir kosningarnar í nóvember þar sem repúblikanar gætu verið með 60 þingsæti í öldungadeildinni þegar hún tæki málið fyrir. Fari svo ­ og klofni repúblikanar ekki í málinu ­ þyrftu aðeins sjö demókratar að snúast á sveif með repúblikönum til að forsetinn missti embættið.

Allir repúblikanar dómsmálanefndarinnar, 21, greiddu atkvæði með ályktuninni og allir 16 nefndarmenn demókrata á móti. Margir demókratanna gagnrýndu hegðun Clintons harðlega en sögðu að ásakanirnar á hendur honum væru ekki nógu alvarlegs eðlis til að þær réttlættu ákæru til embættismissis.

Áður en ályktunin var samþykkt lögðu demókratar til að umfang rannsóknarinnar yrði takmarkað og að hún færi fram í tveimur áföngum. Þeir vildu að nefndin skilgreindi fyrst hvaða lögbrot teldust réttlæta ákæru til embættismissis áður en ákveðið yrði hvort hefja bæri formlega rannsókn. Sú tillaga var felld.

Sakaður um 15 lögbrot

Fyrir lokaatkvæðagreiðsluna færði David Schippers, lögfræðilegur ráðgjafi repúblikana, rök fyrir því að ástæða væri til að ákæra forsetann. Hann sagði að fyrir lægju "viðamiklar og trúverðugar vísbendingar" um að Clinton hefði hugsanlega gerst sekur um 15 lögbrot sem réttlættu ákæru til embættismissis. Kenneth Starr, sem var falið að stjórna rannsókn á Clinton- málinu, hafði sakað forsetann um 11 lögbrot sem hann taldi réttlæta ákæru.

Niðurstaða Schippers, sem er demókrati og lögfræðingur frá Chicago, er frábrugðin ásökunum Starrs í nokkrum atriðum. Schippers sleppti tveimur veikustu ásökunum Starrs, m.a. þeirri að Clinton hefði misnotað vald sitt með því að óska eftir því að aðstoðarmenn sínir yrðu undanþegnir vitnaskyldu og neita að bjóðast sjálfur til að bera vitni. Hvað varðar hugsanlega ákæru um meinsæri ákvað Schippers að breyta orðalaginu þannig að Clinton hefði gerst sekur um rangan vitnisburð, sem nokkrir nefndarmenn telja auðveldara að sanna.

Ráðgjafinn skipti nokkrum ásökunum Starrs og bætti nokkrum við, sakaði forsetann m.a. um að hafa látið hjá líða að skýra frá því að Lewinsky hefði borið ljúgvitni í eiðsvarinni yfirlýsingu. Forsetinn er nú einnig sakaður um að hafa tekið þátt í "samsæri" um að leggja stein í götu réttvísinnar ásamt Vernon Jordan, lögfræðingi og vini Clintons, og Betty Currie, ritara forsetans.

Heimili fulltrúadeildin rannsóknina mun Schippers í raun gegna hlutverki aðalsaksóknara í málinu. Að áliti hans snýst málið fyrst og fremst um það að forseti landsins hafi grafið undan dómskerfi landsins. "Sú regla að öll vitni í öllum málum verði að segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann, er meginstoð bandaríska dómskerfisins sem allar siðmenntaðar þjóðir líta öfundaraugum."

"Ósæmilegt samband" eða alvarlegur glæpur?

Abbe Lowell, lögfræðilegur ráðgjafi demókrata, sagði hins vegar að samkvæmt stjórnarskránni væri aðeins hægt að ákæra forsetann til embættismissis fyrir alvarlega glæpi gegn ríkinu og Schippers hefði ekki sýnt fram á að meint lögbrot Clintons væru nógu alvarlegs eðlis.

Lowell færði rök fyrir því að málið snerist fyrst og fremst um það að forsetinn hefði gerst sekur um "ósæmilegt samband sem hann vildi ekki að yrði afhjúpað". Hann vefengdi einnig lagalegt mikilvægi eiðsvarins vitnisburðar Clintons þar sem hann neitaði því að hafa átt í kynferðislegu sambandi við Lewinsky. Hann sakaði einnig Starr um að hafa færst of mikið í fang og sýnt hlutdrægni þegar hann sakaði Clinton um að hafa misnotað vald sitt með því að óska eftir því að aðstoðarmenn sínir yrðu undanþegnir vitnaskyldu.

Demókratar og repúblikanar í nefndinni deildu einkum um hvort málið snerist fyrst og fremst um kynmök og einkalíf forsetans eða alvarleg lögbrot líkt og Watergate- hneykslið. "Forsetinn hélt framhjá konu sinni," hrópaði einn þingmanna demókrata, Robert Wexler, fyrir lokaatkvæðagreiðslu dómsmálanefndarinnar. "Hann laug um það. Hann vildi ekki að neinn vissi um það. Trúir nokkur að það jafngildi því að hann hafi grafið undan ríkinu?"

Repúblikaninn Bill McCollum benti hins vegar á að 115 Bandaríkjamenn afplána nú fangelsisdóma fyrir meinsæri. "Það nægir okkur til að ákæra og það nægir til að hann verði sviptur embættinu."

Reuters BARNEY Frank, fulltrúi repúblikana í dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hvíslar í eyra nefndarformannsins og flokksbróður síns, Henrys Hydes, á sögulegum fundi nefndarinnar í fyrradag.