Upp úr 1960 risu fyrstu raunverulegu kjúklingabúin hérlendis og hefur framleiðslan aukist jafnt og þétt síðan og Íslendingar borða orðið geysimikið af kjúklingum. Um daginn las ég grein í blaði um lífræna kjúklingaræktun sem farið er að stunda hér á landi, það verður gaman að fylgjast með henni.
Matur og matgerð

Kjúklingar

Ekki eru mörg ár síðan kjúklinganeysla hófst almennt hér á landi, segir Kristín Gestsdóttir , en veitingahúsið Naust reið á vaðið með kjúklinga á matseðlinum. Upp úr 1960 risu fyrstu raunverulegu kjúklingabúin hérlendis og hefur framleiðslan aukist jafnt og þétt síðan og Íslendingar borða orðið geysimikið af kjúklingum. Um daginn las ég grein í blaði um lífræna kjúklingaræktun sem farið er að stunda hér á landi, það verður gaman að fylgjast með henni. Lengi vel var ekki hægt að fá annað en frosna kjúklinga en nú er líka hægt að fá þá ferska, sem eins og allt annað kjöt er mun betri vara. Nú orðið eru kjúklingarnir oft seldir sundurhlutaðir bæði ferskir og frosnir og getur verið mikil hagræðing að því. Algengasta matreiðsluaðferð Íslendinga er að grilla kjúklinginn heilan, en ég kýs frekar að matreiða hann í bitum, ýmist steiktan eða soðinn, og tek gjarnan skinnið af. Vissulega er bragð af skinninu en í því er líka mikil fita og henni vil ég sleppa. Gott getur verið að sjóða skinnið með í pottrétt, fleygja því síðan og fleyta fituna ofan af soðinu. Mjög gott er að matreiða kjúklinginn með bragðsterku grænmeti svo sem lauk, hvítlauk og tómötum, enda er kjúklingakjöt fremur bragðlítið og veitir ekki af að hressa örlítið upp á það.

Format fyrir uppskriftir Karríkjúklingabringur

3 ófrosnar kjúklingabringur (6 hálfar)

2 tsk. salt

nýmalaður pipar

dl matarolía + msk. karrí til að steikja úr

1 meðalstór laukur

4 hvítlauksgeirar

2 msk. matarolía til að sjóða lauk og hvítlauk í

lítil dós tómatþykkni (puré)

2 dl vatn

1 kjúklingasúputeningur

1 stórt epli

2 litlir bananar

dós sýrður rjómi

1. Takið skinnið af kjúklingabringunum, skerið þær í 3 sm ræmur. Stráið á þær salti og pipar.

2. Setjið matarolíu og karrí á pönnu, brúnið örlítið en steikið síðan kjúklingaræmurnar við meðalhita í karrífeitinni. Setjið á disk og hvolfið öðrum yfir.

3. Bætið 2 msk. af matarolíu í pönnuna. Afhýðið og saxið lauk og hvítlauk og sjóðið í olíunni í 3­4 mínútur. Þetta má ekki brúnast. Hrærið síðan vatn og tómatþykkni út í.

4. Afhýðið eplin, skerið í teninga og sjóðið með í 3 mínútur.

5. Setjið kjúklingabitana út í og hitið vel í gegn. Hrærið sýrðan rjóma út í, hann má ekki sjóða. Skerið banana í sneiðar og raðið ofan á. Berið fram á pönnunni.

Meðlæti: Soðin hrísgrjón.

Kjúklingapottréttur

1 kjúklingur um 1 kg

1 tsk. salt

1 hálfdós niðursoðnir tómatar + 1 dl vatn

1 tsk. svört piparkorn

1 lárviðarlauf

3 msk. matarolía

2 meðalstórir laukar

4 hvítlauksgeirar

3 meðalstórar gulrætur

fersk steinselja

50 g rjómaostur án bragðefna

1. Hlutið kjúklinginn sundur, skerið frá alla sjáanlega fitu, raðið þétt í pott, stráið salti yfir. Setjið síðan tómatana og safann úr dósinni út í ásamt vatni, piparkornum og lárviðarlaufi og sjóðið við hægan hita í 45 mínútur. Takið allt kjöt úr soðinu og kælið örlítið.

2. Setjið 3 msk. af matarolíu á pönnu, hafið hægan hita. Saxið lauk og hvítlauk, skerið gulrætur í sneiðar og sjóðið þetta allt í olíunni í 5 mínútur. Setjið í soðið í pottinum og sjóðið áfram í tíu mínútur. Fleytið fitu ofan af soðinu og fleygið.

3. Fjarlægið bein og skinn af kjötinu, setjið í pottinn og hitið vel í gegn. Hrærið rjómaost út í. Klippið steinselju yfir og berið fram.

Meðlæti: Soðin hrísgrjón eða heitt hvítlauksbrauð.