FYRIR nokkru fékk ég sendan inn um bréfalúguna bækling frá SVFÍ, þar sem farið er fram á við mig að ég styrki svokallaðan Björgunarskipasjóð Slysavarnafélagsins. Um leið dynja yfir auglýsingar í fjölmiðlum, mikilsmetnir menn í þjóðfélaginu senda greinar í blöðin, borgarstjóranum er hent í sjóinn og að sjálfsögðu bjargað giftusamlega af vöskum björgunarmönnum SVFÍ.
Björgunarbátar SVFÍ tímaskekkja Byggjum upp þyrluflota, segir Þorgeir Jóhannsson , sem telur þyrlur mikilvægari en björgunarbáta. FYRIR nokkru fékk ég sendan inn um bréfalúguna bækling frá SVFÍ, þar sem farið er fram á við mig að ég styrki svokallaðan Björgunarskipasjóð Slysavarnafélagsins. Um leið dynja yfir auglýsingar í fjölmiðlum, mikilsmetnir menn í þjóðfélaginu senda greinar í blöðin, borgarstjóranum er hent í sjóinn og að sjálfsögðu bjargað giftusamlega af vöskum björgunarmönnum SVFÍ.

Innihaldið er allt svipað, þ.e. að draga fram hversu fórnfúsir björgunarmenn eru o.fl. Allt lítur þetta vel út á pappírnum og sá er ekki veit betur, en reiðubúinn af örlæti sínu að gefa fé til þessarar starfsemi með bros á vör, en staðreyndin er sú að þegar bátur lendir í sjávarháska, verður vélarvana, strandar eða lendir í öðrum óhöppum og er aðstoðaður eða bjargað af öðrum bát eða skipi, fær viðkomandi greitt fyrir veitta aðstoð hvort heldur það er björgunarbátur eða önnur fley.

Tryggingafélag bátsins sem lendir í óhappinu greiðir gjald sem byggt er á ákveðnu grunngjaldi og síðan á umfangi aðstoðarinnar. Hvað skyldi björgunarbátur félagsins hafa fengið greitt mikið frá tryggingafélögum undanfarin ár? Það hlýtur að vera dágóð upphæð ef útköll sveitarinnar eru að meðaltali sex sinnum í viku! Get ég ekki betur séð en að sveitin ætti að standa sterk fjárhagslega ef marka má þessar tölur um útköll.

Sævar Gunnarsson segir í grein sinni í Mbl. þann 1. október að rekstur björgunarbátanna sé erfiður. Því get ég verið sammála þar sem ég veit að t.d. björgunarbáturinn í Sandgerði hefur farið í mjög fá útköll sl. 2 ár. Það fer ekki saman að segja að reksturinn sé erfiður og segja síðan að mikið sé að gera fyrir bátana sem ætti að þýða dágóða innkomu fyrir félagið. Að framansögðu get ég ekki séð að það standist sem Esther Guðmundsdóttir heldur fram, að útköll séu mjög kostnaðarsöm fyrir félagið.

Þegar kaup og rekstur slíkra báta er staðreynd, hlýtur það að vera eðlilegt að það sé grundvöllur fyrir veru þeirra og rekstri fjárhagslega. Ég tel að kaupin á þessum bátum sé tímaskekkja, þar sem bátar á grunnslóð í dag eru betur búnir tækjum og vélbúnaði frá því sem áður var.

Útköll björgunarmanna eru í langflestum tilfellum smávægileg aðstoð við báta á grunnslóð og einnig er það mjög algengt að þessir bátar dragi hver annan í land og þurfa því ekki á björgunarbáti að halda.

Ef við skoðum björgunarsögu síðustu ára fer það ekki fram hjá neinum að það björgunartæki sem hefur bjargað sjómönnum úr sjávarháska á nákvæman og öruggan hátt eru björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar. Nær væri að eyða kröftum og fjármunum í að stækka þyrlukost landsins.

Landsmenn góðir, tökum frekar höndum saman og byggjum upp þyrluflota Landhelgisgæslunnar.

Höfundur er sjómaður og kafari á aðstoðarbátnum Eldingu. Þorgeir Jóhannsson