AUKIN sala og hækkað verð á þorski, sterkur markaður fyrir karfa og mikil sala á loðnu ráða mestu um aukna sölu SH síðustu tólf mánuðina. Samkvæmt tölum sem ná yfir kvótaárið frá september 1997 til loka ágúst 1998, var sala fyrirtækisins á tímabilinu rúmlega 140.000 tonn að andvirði 29,4 milljarða króna.
Sölumiðstöðin jók útflutning

um 9% á síðasta fiskveiðiári

Sala á þorskafurðum jókst

um tvo milljarða króna

AUKIN sala og hækkað verð á þorski, sterkur markaður fyrir karfa og mikil sala á loðnu ráða mestu um aukna sölu SH síðustu tólf mánuðina. Samkvæmt tölum sem ná yfir kvótaárið frá september 1997 til loka ágúst 1998, var sala fyrirtækisins á tímabilinu rúmlega 140.000 tonn að andvirði 29,4 milljarða króna. Í samanburði við kvótaárið 1996­1997 er aukningin 9% talið í magni og 2% miðað við verðmæti. Ef litið er á þróun í sölu helstu tegunda kemur í ljós að sala á þorski, karfa og loðnu eykst en samdráttar gætir í sölu á rækju og grálúðuafurðum.

Þessar upplýsingar koma frá í Frosti, nýjasta fréttabréfi SH, en þar segir ennfremur svo um gang mála á nýliðnu fiskveiðiári: Þorskur er mikilvægasta tegundin í sölu SH, en sala á þorskafurðum jókst talsvert á milli ára og fór úr 21.000 tonnum að andvirði 6,5 milljarða króna í tæplega 26.000 tonn að verðmæti 8,5 milljarða króna. Sala á karfa, sem er næstmikilvægasta tegundin, jókst lítillega og ráða þar mestu góð úthafskarfavertíð og sterk staða SH á Japansmarkaði. Sala á heilfrystum karfa til Japans jókst þannig um 2.500 tonn og náðust fram talsverðar verðhækkanir á þeim markaði, sem vógu að mestu upp lækkun á gengi japanska jensins. Karfasalan í heild fór úr 32.100 tonnum að verðmæti 6,7 milljarða króna í 34.000 tonn að andvirði 6,8 milljarða króna.

Allt að 50% verðhækkun á bolfiskafurðum

Síðustu 6 til12 mánuðir hafa öðru fremur einkennst af því að verð á flestum þorsk-, ýsu- og ufsaafurðum hefur verið á hraðri uppleið. Mestar hækkanir hafa orðið á sjófrystum afurðum og blokkarafurðum og eru dæmi um 40%­50 hækkun á verði einstakra afurða. Það sem hefur valdið þessum hækkunum er minnkandi framboð úr Barentshafi á þorski og ýsu, en jafnframt hefur framleiðsla á alaskaufsa úr Kyrrahafi dregist saman.

Miklar hækkanir hafa orðið á liðnum árum á karfaflökum og hefur sú þróun haldið áfram síðasta árið. Þannig hafa flokkaðir skammtar hækkað um 14%, millilögð flök um 24% og nú undir lok september hefur verð á flökum í eins kílóa pokum verið á uppleið.

Gagnstætt þessari þróun hefur verð á pillaðri rækju lækkað frá því í upphafi þessa árs og er nokkur óvissa um hvernig salan á eftir að þróast á næstu mánuðum. Framboð frá Íslandi hefur dregist saman, en á móti hefur komið mikil aukning frá Kanada og Noregi.

Meira selt til Bretlands, Spánar og Rússlands

Töluverðar breytingar hafa orðið í sölu á einstök markaðssvæði, en það orsakast að hluta til af sveiflum í veiði og á gengi gjaldmiðla. Helstu breytingar eru þær að sala til Bandaríkjanna minnkar og samdráttar gætir í sölu til Asíu. Á móti kemur aukning í sölu til Bretlands og Spánar og mikil aukning á seldu magni til Rússlands. Að auki hefur útflutningur Sæmarks aukist, en þetta dótturfélag SH selur að stærstum hluta til sölufyrirtækja SH erlendis.