DAGUR útgerðarinnar var haldinn hátíðlegur á Raufarhöfn síðastliðinn sunndag. Fjölmenni þekktist boð Jökuls hf. á Raufarhöfn og gekk um borð í skip félagsins til þess að kynna sér aðstæður og hlýða á fyrirlestra um sjávarútvegsmál. Að sögn forráðamanna Jökuls sótti á annað hundrað manns dagskrána, ungir sem aldnir, og margir nærsveitungar Raufarhafnarbúa.

Fjölmenni hjá Jökli hf.

DAGUR útgerðarinnar var haldinn hátíðlegur á Raufarhöfn síðastliðinn sunndag. Fjölmenni þekktist boð Jökuls hf. á Raufarhöfn og gekk um borð í skip félagsins til þess að kynna sér aðstæður og hlýða á fyrirlestra um sjávarútvegsmál. Að sögn forráðamanna Jökuls sótti á annað hundrað manns dagskrána, ungir sem aldnir, og margir nærsveitungar Raufarhafnarbúa.

"Það er mjög mikilvægt að almenningur sé upplýstur um hvað felst í útgerð skipa og að hann geri sér grein fyrir hvernig rekstrinum er haldið úti," sagði Haraldur Jónsson, útgerðarstjóri Jökuls, "því útgerð er geysileg vinna og miklir fjármunir í húfi."

Forráðamenn Jökuls létu sér ekki nægja að bjóða fólki um borð í skip sín í Raufarhöfn heldur hélt Haraldur Jónsson þrjá fyrirlestra um útgerðina um borð í togaranum Rauðanúpi. Þar fjallaði hann um flesta þætti sjávarútvegs á Íslandi og skýrði fyrir áheyrendum framleiðsluferli afurða, sölumál og kröfur neytenda á erlendum mörkuðum. Einnig var fjallað um samskipti útgerðar og sjómanna, um hlutaskipti og uppgjör og kauptryggingarákvæði í samningum, svo fátt eitt sé nefnt. Jökull er fimmtánda stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins hvað kvótastöðu varðar.

Landssambands íslenskra útvegsmanna og aðildarfélög bjóða um þessar mundir fólki um allt land að skoða skip sín og tenga vinnslu í landi. Slík kynning hefur þegar verið í Vestmannaeyjum auk Raufarhafnar og áfram verður haldið á fleiri stöðum næstu helgar.