MEÐ nýjum samstarfssamningi við alþjóðafjarskiptafyrirtækið iPass getur Skíma nú boðið viðskiptavinum sínum, sem eru á ferð erlendis, að tengjast Netinu í 150 löndum og komast í samband við eigin tölvupóst. Hægt er að tengjast með staðarsímtölum og spara menn sér því langlínusímtöl.
Skíma býður aukna möguleika á nettengingum

Hægt að tengjast frá útlöndum með staðarsímtölum

MEÐ nýjum samstarfssamningi við alþjóðafjarskiptafyrirtækið iPass getur Skíma nú boðið viðskiptavinum sínum, sem eru á ferð erlendis, að tengjast Netinu í 150 löndum og komast í samband við eigin tölvupóst. Hægt er að tengjast með staðarsímtölum og spara menn sér því langlínusímtöl.

Guðbrandur Örn Arnarson, þjónustustjóri Miðheima, sem eru hluti af Skímu, segir mikið hagræði að þessum innhringimöguleika, einfaldara sé og ódýrara að komast í samband við eigin tölvupóst gegnum slík staðarsímtöl en þurfa sífellt að hringja frá útlöndum í Skímu á Íslandi. Hann segir iPass eitt stærsta fyrirtæki á sínu sviði og í boði séu innhringimöguleikar á um þrjú þúsund stöðum í heiminum.

Viðskiptavinir geta með fartölvu sinni tengst Netinu þar sem þeir eru staddir og sparað sér langlínusímtöl. Skíma útvegar nauðsynlegan hugbúnað vegna tengingarinnar og með honum geta notendur bent þar á viðkomandi innhringiaðila og eru þar með komnir í samband. Notað er sama notandanafn og lykilorð og menn hafa heima. "Menn tengjast Skímu en í gegnum þennan millilið sem kemur á öruggu sambandi þegar notandanafnið og lykilorð eru send milli landa til að sannreyna þau og þegar menn eru komnir í samband eru notuð sömu forritin og þegar þeir tengjast heima og greiða aðeins fyrir staðarsímtöl," sagði Guðbrandur Örn. Hann sagði einfaldleikann einn stærsta kostinn, ekki þyrfti að stilla neitt eða breyta neinu í tölvunum, menn væru að vinna í því umhverfi sem þeir þekktu.

Tilboð á notkun til áramóta

Skíma er ekki fyrsti aðili sem býður slíkar tengingar hérlendis en Guðbrandur segir mikið hafa verið um hringingar í gær og búið væri þegar að setja upp hugbúnað hjá mörgum notendum. Viðskiptavinir Skímu geta sótt hugbúnaðinn á Netið og þurfa síðan að sækja um aðgang að iPass -netinu hjá Skímu.

Áskrifendum verður boðið upp á fimm klukkustunda notkun til áramóta en tekið verður síðan 300 króna gjald fyrir þann mánuð sem tengingin er notuð. Sem dæmi um kostnað við staðarsímtöl nefndi Guðbrandur að í Bandaríkjunum getur hann verið milli 1,60 og upp í 10 dollarar fyrir klukkutímann.