HEILBRIGÐISRÁÐUNEYTIÐ hefur um nokkurra ára skeið safnað og tölvuskráð með samþykki landlæknis og að fengnu leyfi Tölvunefndar, svokallaðar vistunarupplýsingar frá sjúkrahúsum landsins. Þar er skrásett hverjir leggjast inn á sjúkrahús, legutími sjúklings, sjúkdómsgreining hans og aðgerðir.
Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkdómsgreiningar í skrá heilbrigðisráðuneytis

HEILBRIGÐISRÁÐUNEYTIÐ hefur um nokkurra ára skeið safnað og tölvuskráð með samþykki landlæknis og að fengnu leyfi Tölvunefndar, svokallaðar vistunarupplýsingar frá sjúkrahúsum landsins. Þar er skrásett hverjir leggjast inn á sjúkrahús, legutími sjúklings, sjúkdómsgreining hans og aðgerðir.

Að sögn Matthíasar Halldórssonar verður þessi skrá væntanlega falin landlækni til varðveislu innan tíðar. Upplýsingarnar eru í umsjá eins sérfræðings í ráðuneytinu og hafa ekki aðrir starfsmenn aðgang að skránni.

Kennitölur brenglaðar

Sjúkdómsgreiningar eru skráðar með sérstökum kóða samkvæmt kerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, en það er notað á sjúkrastofnunum um heim allan. Við færslu upplýsinganna úr sjúklingabókhaldi sjúkrahúsanna fylgja með persónuauðkenni sjúklinganna svo unnt sé að fylgja einstökum sjúklingum eftir á milli sjúkrahúsa og sjúkradeilda, en til að tryggja persónuleynd eru kennitölur þeirra brenglaðar með sérstökum aðferðum.

Heimild Tölvunefndar hefur frá upphafi verið m.a. bundin þeim skilyrðum að kennitölum einstaklinga í þessari skrá verði breytt, þannig að ekki sé unnt að rekja upplýsingarnar til einstakra manna, að fullkominnar nafnleyndar sé gætt og að óheimilt sé að nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi.

Ráðuneytið og landlæknir nýta upplýsingar sem unnar eru upp úr þessum gögnum við stjórnun og skipan sjúkrahúsmála í landinu og tölfræðilega úrvinnslu í heilbrigðisþjónustunni.

"Það er í verkahring landlæknisembættisins að fylgjast með sjúkdómum og hafa eftirlit með sjúkrahúsunum. Að okkar mati eiga þessar upplýsingar í raun og veru að vera hjá landlæknisembættinu en ekki ráðuneytinu, vegna þess að það er ekki við hæfi að þetta sé geymt undir pólitískri stjórn," segir Matthías.