Í NÝJASTA fréttabréfi Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum, Vinnslunni, eru kynntar skipulagsbreytingar sem ráðist var í á vormánuðum. Breytingar miða að því að gera rekstur bolfiskdeildarinnar markvissari en áður og auka arðsemi deildarinnar frá fyrri tíð.
Breytingar hjá Vinnslustöðinni

Í NÝJASTA fréttabréfi Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum , Vinnslunni, eru kynntar skipulagsbreytingar sem ráðist var í á vormánuðum. Breytingar miða að því að gera rekstur bolfiskdeildarinnar markvissari en áður og auka arðsemi deildarinnar frá fyrri tíð. Sagt er frá því að Halldór Arnarson hefur tekið við starfi framleiðslustjóra fyrirtækisins, en hann var áður framkvæmdastjóri Marnor , dótturfyrirtækis SÍF í Noregi . Þorsteinn Magnússon verður vinnslustjóri fyrirtækisins í Vestmannaeyjum en hann hefur um tveggja ára skeið unnið fyrir Vinnslustöðina hf. í Þorlákshöfn. Þorsteinn er sjávarútvegsfræðingur að mennt og vann lokaverkefni sitt við Vinnslustöðina hf. á sínum tíma. Guðrún Kristín Sigurgeirsdóttir hefur verið ráðin gæða- og þróunarstjóri fyrirtækisins. Hún er menntaður matvælafræðingur og hefur starfað hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins í Vestmannaeyjum. Hún mun stjórna þróunarstarfinu í fyrirtækinu, ásamt því að hafa yfirumsjón með gæðamálum. Þá hefur Þór Vilhjálmsson tekið við starfi innkaupastjóra hráefnis, en hann var áður verkstjóri í móttöku fyrirtækisins.

Halldór Arnarson.

Þorsteinn Magnússon.

Guðrún Kristín Sigurgeirsdóttir.

Þór Vilhjálmsson.