MIKIÐ er um hval í sjónum norðvestur af Bretlandi og þess vegna ber að koma þar upp nokkurs konar "hvalaþjóðgarði" og banna þar ýmsa starfsemi eins og olíuleit. Þetta hafa grænfriðungar farið fram á við bresk stjórnvöld.
"Hvalaþjóðgarður" við Bretland

London. Daily Telegraph.

MIKIÐ er um hval í sjónum norðvestur af Bretlandi og þess vegna ber að koma þar upp nokkurs konar "hvalaþjóðgarði" og banna þar ýmsa starfsemi eins og olíuleit. Þetta hafa grænfriðungar farið fram á við bresk stjórnvöld.

Í fimm vikna leiðangri grænfriðunga og Hvala- og höfrungaverndarfélagsins í Bretlandi á þessum slóðum sást til 11 hvalategunda, þar á meðal búrhvals, langreyðar, sandreyðar, hrefnu, steypireyðar, hnúfubaks, háhyrnings og ýmissa smáhvala, og í framhaldi af því hefur Melchett lávarður, stjórnarformaður samtaka grænfriðunga, skrifað Chris Smith, ráðherra menningararfleifðar, og hvatt til 18 mánaða banns við olíuleit á svæðinu.

Grænfriðungar halda því fram, að þær aðferðir, sem notaðar séu við olíuleit, fæli burt hvalinn og það sé brjálæði að fórna honum á altari nýrra olíulinda.