TRYGGINGASTOFNUN ríkisins (TR) berst mikill fjöldi pappírsgagna sem innihalda heilbrigðisupplýsingar um sjúklinga, samkvæmt upplýsingum Kristjáns Guðjónssonar, deildarstjóra sjúkratryggingadeildar TR. Úttekt á viðkomandi sjúklingi
TRYGGINGASTOFNUN

Nafntengd gögn varin með aðgangstakmörkunum

TRYGGINGASTOFNUN ríkisins (TR) berst mikill fjöldi pappírsgagna sem innihalda heilbrigðisupplýsingar um sjúklinga, samkvæmt upplýsingum Kristjáns Guðjónssonar, deildarstjóra sjúkratryggingadeildar TR.

Úttekt á viðkomandi sjúklingi

Skipta má þessum upplýsingum í þrennt. Í fyrsta lagi er um að ræða reikninga sem heilsugæslulæknar senda stofnuninni en á þeim koma eingöngu fram upplýsingar um að tilteknir sjúklingar hafi komið til læknis. Stofnuninni berast einnig ýmsar heilsufarsupplýsingar m.a. um sjúkdómsgreiningar. Þeim er svo skipt í flokka eftir því um hversu viðkvæmar upplýsingar er að ræða. Í svokölluðum B1-flokki er að finna upplýsingar um sjúkdómsgreiningar, læknismeðferð og aðgerðir, lyfseðla o.fl. Á reikningum sem berast frá sérfræðingum er að finna sjúkdómsgreiningar og eru þessar upplýsingar færðar í þennan flokk.

Í B2-flokki eru skráðar viðkvæmustu upplýsingarnar. Þar er að finna nokkurskonar úttekt á heilsufari viðkomandi sjúklings þar sem teknar eru saman upplýsingar á borð við örorkumat, hvað er að viðkomandi sjúklingi, hvers konar lyf hann notar o.s.frv. Þá ber að geta þess að í tengslum við sjúklingatryggingar fær Tryggingastofnun oft afrit af sjúkraskýrslum frá viðkomandi heilbrigðisstofnunum.

Úrtak úr 1,2 milljónum lyfjaávísana

Tryggingastofnun þarf að hafa eftirlit með greiðslu lyfjakostnaðar og hefur stofnunin fengið send frumrit frá lyfjaverslunum af öllum lyfseðlum sem stofnunin tekur þátt í að greiða. Eftirlit með greiðsluskyldu stofnunarinnar hefur falist í því að tveir starfsmenn skoða úrtak úr um 1,2 milljónum lyfjaávísana á ári. Fyrir nokkru lét Tryggingastofnun hanna nýtt hugbúnaðarkerfi, svokallað lyfjaeftirlitskerfi, svo unnt væri að taka upp rafræna sendingu lyfseðla frá apótekum til TR. Lyfjaeftirlitskerfið er ekki komið í fulla notkun í dag en nokkrar lyfjaverslanir tengjast því nú þegar og senda lyfseðla og reikninga með tölvuskeytum til stofnunarinnar. Er stöðugt unnið að útvíkkun þessa kerfis.

Einstaklingsbundnar upplýsingar um lyfjaneyslu eru tvímælalaust meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga sem varðveittar eru. Tölvunefnd hefur heimilað Tryggingastofnun skráningu úr þeim lyfseðlum sem hún fær senda vegna greiðslu á lyfjakostnaði en nefndin hefur ekki heimilað stofnuninni að safna upplýsingum um allar afgreiðslur lyfjabúða eða um aðra lyfseðla en þá sem krafist er greiðslu á hjá stofnuninni.

Þá hefur Tölvunefnd nýlega endurnýjað heimild Tryggingastofnunar til að tengja lyfseðlaskrár sínar saman við þjóðskrá, lyfjaskírteinaskrá og örorkubótaskrá.

Nefndin hefur sett stofnuninni ákveðna skilmála um meðhöndlun þessara upplýsinga. Þannig ber Tryggingastofnun um leið og tiltekinn lyfseðill hefur verið samþykktur til greiðslu að rugla kennitölur og færa allar upplýsingar í gagnagrunn stofnunarinnar með rugluðum kennitölum. Gera má einn greiningarlykil sem geri kleift að afrugla kennitölurnar og er varsla hans falin tilsjónarmönnum Tölvunefndar. Þá verður öll umferð gagna á Netinu að vera á dulkóðuðu formi og er við það miðað að svokölluð lykillengd megi ekki vera skemmri en 56 bitar.

Afrit geymd í bankahólfi

Að sögn Kristjáns fer það nokkuð eftir eðli mála hvaða upplýsingar eru tölvuskráðar. "Við erum með tvennskonar tölvukerfi í dag. Gömlu kerfin eru öll hjá Skýrr og þarf sérstakt aðgangsorð til að komast inn í viðkomandi skrár. Er það yfirleitt takmarkað við tiltekna starfsmenn sem þurfa eðli máls samkvæmt að sýsla með þessi gögn.

Við erum einnig með kerfi hér innan húss sem er smám saman að taka yfir sem er miðlæg tölva í umsjá tölvudeildar Tryggingastofnunar. Tekin eru afrit sem geymd eru í bankahólfi. Þessar upplýsingar eru enn betur varðar en önnur gögn því aðgengi að þeim er takmarkað við færri starfsmenn."

Pappírsgögn í læstum hirslum

Tryggingastofnun ver öryggi upplýsinga sinna fyrst og fremst með stífum aðgangstakmörkunum að gögnum. Sumar upplýsingar eru einnig dulritaðar. "Við erum til dæmis með upplýsingar um sjúklinga sem hafa greinst með alnæmi og þar er yfirleitt ekki sýslað með nöfn heldur númer," segir Kristján.

Eðli málsins samkvæmt þarf Tryggingastofnun að hafa öll þessi gögn undir höndum í daglegum rekstri stofnunarinnar og reynt er að fara eins vel með þau og unnt er, að sögn Kristjáns. Pappírsgögnin eru t.d. geymd í læstum hirslum eftir því sem kostur er á. Að sögn Kristjáns er að störfum fjögurra manna nefnd, svokölluð gagnanefnd, að vinna að tillögum um úrbætur í þessum málum.

Fær að tengja lyfseðlaskrár saman við þjóðskrá, lyfjaskírteinaskrá og örorkubótaskrá