MIKLAR sviptingar hafa verið í efnahagsmálum Austur-Asíu síðustu mánuði. Sumir sérfræðingar halda því fram að nú þegar sé hafið verðhjöðnunartímabil í Japan. Þá leiðir minnkandi eftirspurn til verðlækkunar, framleiðsla dregst saman, laun lækka og atvinnuleysi eykst. Í kjölfarið minnkar eftirspurn frekar.
Mikill samdráttur í sölu

sjávarafurða til Japans

Árangur SH góður þrátt

fyrir þrengingar í álfunni

MIKLAR sviptingar hafa verið í efnahagsmálum Austur-Asíu síðustu mánuði. Sumir sérfræðingar halda því fram að nú þegar sé hafið verðhjöðnunartímabil í Japan. Þá leiðir minnkandi eftirspurn til verðlækkunar, framleiðsla dregst saman, laun lækka og atvinnuleysi eykst. Í kjölfarið minnkar eftirspurn frekar. Þetta kom fram í máli Jóns Magnúsar Kristjánssonar, framkvæmdastjóra söluskrifstofu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, en hann fór yfir stöðu mála á mörkuðum í Austur-Asíu á markaðsfundi SH í síðustu viku. Sagði hann að samdrátt í sölu sjávarafurða mætti ekki að öllu leyti rekja til efnahagskreppunnar í álfunni, heldur minnkandi framleiðslu vegna aflabrests. Þrátt fyrir lækkandi verð á afurðum hefði söluskrifstofa SH náð góðum árangri í sölu ýmissa tegunda og verð haldist viðunandi.

Landsframleiðsla í Japan dróst saman um 0,8% á tímabilinu apríl-júlí á þessu ári, en það er um 3% samdráttur á ársmælikvarða. Er þetta þriðji ársfjórðungurinn í röð þar sem um samdrátt er að ræða. Einkaneysla minnkaði um 0,8% á sama tímabili, borið saman við fyrsta fjórðung þessa árs. Heildarinnflutningsverðmæti dróst saman um 9,3% á fyrstu sjö mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Innflutningur sjávarafurða minnkaði um 12,5%. Gengissveiflur jensins og verðfall hlutabréfa síðustu mánuði endurspegla þann óstöðugleika og óvissu sem nú ríkir í Japan.

Almenningur í Japan vantrúaður á betri tíð

Jón Magnús sagði að almenningur í Japan gerði sér ekki vonir um bata á næstunni. Stjórnmálamenn njóti lítils frelsis og það sama gildi um embættismannakerfið og fjármálastofnanir eftir fjölmörg spillingarmál síðustu misseri. Hann sagði það sýna vel vantrú almennings gagnvart framtíðinni að þótt verðlag hafi lækkað, gylliboð séu á hverju strái og lítil sem engin ávöxtun fáist af sparifé leggi Japanir fyrir sem aldrei fyrr. Sparnaður sem hlutfall af ráðstöfunarfé hafi sjaldan verið meiri eða um 26%, en hann er 10­15% í stærstu löndum Evrópu. Almennir innlánsvextir séu þó aðeins um 0,1%. "Það fer ekki á milli mála að Japönum er mikill vandi á höndum. Japan er annað stærsta efnahagsveldi heims og staðan þar hefur áhrif á alla heimsbyggðina. Þótt Vesturlönd treysti á aðgerðir er erfitt að ímynda sér að til séu launsnir sem skila skjótum árangri."

Áfram mikil óvissa

Jón sagði því ljóst að óvissu gætti áfram í efnahagsmálum Austur-Asíu næstu mánuði. Viðskiptaumhverfið taki einnig mið af þessum aðstæðum. Fyrirtæki í Japan fái ekki sama stuðning og áður frá lánastofnunum, seljendur stytti greislufrest og dragi úr áhættumeiri viðskiptum. "Neytendur draga einnig úr neyslu á meðan óvissa ríkir um framtíðina. Neysla á dýru fisk- og kjötmeti hefur dregist saman og verð lækkað í kjölfarið. Markaðsöflin eru þó enn við lýði og framboð og eftirspurn ráða verði. Þannig seldist úthafskarfi síðustu vertíðar á 18% hærra verði en í fyrra. Grálúðuverð hefur hækkað um 13% frá ársbyrjun og rækjuverð um 30% síðustu tólf mánuði. Á sama tíma hefur almennt verðlag lækkað. Við skulum vona að Japanir breyti ekki út af vananum og haldi áfram að vera sólgnir í afurðir frá Íslandi."

Mikill samdráttur í framleiðslu helstu tegunda

Útflutningsverðmæti SH til Asíu dróst saman um 20% í jenum fyrstu átta mánuði ársins. Salan nam 8,3 milljörðum jena eða um 4,3 milljörðum íslenskra króna, á móti rúmlega 10,4 milljörðum jena eða um 5,3 milljörðum króna árið 1997. Jón Magnús sagði að ekki mætti nema að litlu leyti rekja þennan samdrátt til efnahagsástandsins í Asíu. Fyrst og fremst stafi minni sala af samdrætti í framleiðslu þriggja af fjórum stærstu tegundum söluskrifstofunnar í Tókýó, loðnu, grálúðu og rækju. Smá og þar með ódýrari loðna og erfiðleikar í framleiðslu skýri 27% samdrátt í loðnusölu á þessu ári. Grálúðusala hafi einnig dregist mjög mikið saman eða um 43% í verðmætum og um 41% í magni. Sala á sjófrystri rækju fyrir Japansmarkað og suðurækju fyrir Kína hafi einnig minnkað mikið í kjölfar aflasamdráttar eða um 53%. Á móti komi að karfaveiði hafi verið mjög góð í sumar og mun betri en í fyrra. Sala hafi einnig gengið vel og aukningin um 27% í verðmætum og 17% í magni. "Veruleg verðhækkun hefur orðið í úthafskarfaafurðum og fyrirséð að þetta ár verður metár í karfaflökum. Sala á öðrum tegundum hefur verið að aukast. Til dæmis hafa viðskipti með Nílarkarfa þróast hratt og þessi afurð er nú þegar fastur hluti af vöruúrvali skrifstofunnar."

Jón Magnús sagði að einnig væri fyrirsjáanlegur mikill samdráttur í sölu á grálúðuafurðum á Taívansmarkað vegna síminnkandi framleiðslu á grálúðu. Á þessu ári hafi grálúðusala til Taívans dregist saman um 56%, bæði að magni og verðmæti. Þá hafi ekki verið hægt að selja afurðir til Kóreu síðastliðinn vetur vegna hins erfiða efnahagsástands sem þar ríkti, en síðustu mánuði hafi eftirspurn verið góð og sala gengið vel.