VEGNA bréfs sem barst til blaðsins vegna kvörtunar viðskiptavina Heimsferðar þar sem þeir fengu allir matareitrun og lélega þjónustu og engar skaðabætur ákvað ég að segja mína reynslu frá því í sumar vegna ferðar minnar í sumar sem var vikuferð til Ibiza á vegum Samvinnuferða-Landsýnar. Ég var í 200 manna hópi sem lenti með breiðþotu Atlanta á Mallorka, þaðan var flogið til eyjarinnar Ibiza.
Samvinnuferðir-Landsýn miðað við Heimsferðir

Frá Steindóri Halldórssyni:

VEGNA bréfs sem barst til blaðsins vegna kvörtunar viðskiptavina Heimsferðar þar sem þeir fengu allir matareitrun og lélega þjónustu og engar skaðabætur ákvað ég að segja mína reynslu frá því í sumar vegna ferðar minnar í sumar sem var vikuferð til Ibiza á vegum Samvinnuferða-Landsýnar.

Ég var í 200 manna hópi sem lenti með breiðþotu Atlanta á Mallorka, þaðan var flogið til eyjarinnar Ibiza. Einhverra hluta vegna var ekki pláss fyrir fjórar manneskjur fyrr en daginn eftir. Það var gengið í málið í hvelli og okkur útvegað pláss á hóteli á Mallorka. Daginn eftir fórum við með flugi til Ibiza. Einn dagur af ferðinni fór í þetta en þegar við vorum komin til Ibiza var okkur boðið til kvöldverðar í staðinn, sem við afþökkuðum.

Þegar heim var komið lögðum við inn kvörtun til Samvinnuferða og var okkur tekið mjög vel og okkur mætt með virðingu og vinsemd. Nokkrum vikum eftir að við kvörtuðum barst mér bréf með endurgreiðslu ferðarinnar að einum þriðja. Þetta var ákvörðun Samvinnuferða eftir að hafa athugað hvar mistökin lágu. Við höfðum ekki farið fram á neinar skaðabætur, en Samvinnuferðir virtust líta á það sem þjónustu við kúnnann, og því fóru þeir þessa leið.

Það gladdi mig mest að fá hlustun og vera mætt með virðingu og skilningi. Ég ákvað að koma því jákvæða á blað til tilbreytingar og síðast en ekki síst þakka fyrir góða þjónustu Samvinnuferða-Landsýnar. Og til hinna sem lesa þetta: Góða ferð!

STEINDÓR HALLDÓRSSON,

Kringlunni 91.