JÓN G. Kristjánsson, starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýstofnaðs Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Jón tók til starfa um mánaðamótin en sjóðurinn hefur til bráðabirgða aðsetur í húsakynnum Sambands íslenskra sveitarfélaga við Háaleitisbraut. "Ég hef haft áhuga á og unnið að lífeyrissjóðsmálum í allmörg ár.
Ráðinn framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs sveitarfélaga

JÓN G. Kristjánsson, starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýstofnaðs Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Jón tók til starfa um mánaðamótin en sjóðurinn hefur til bráðabirgða aðsetur í húsakynnum Sambands íslenskra sveitarfélaga við Háaleitisbraut.

"Ég hef haft áhuga á og unnið að lífeyrissjóðsmálum í allmörg ár. Lífeyrissjóður borgarstarfsmanna heyrði undir starfsmannastjóra auk þess sem ég var fulltrúi vinnuveitenda í stjórn Lífeyrissjóðsins Framsýnar frá stofnun sjóðsins og þar til ég tók við nýja starfinu. Ég tók síðan þátt í að undirbúa stofnun Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Mér fannst kominn tími til að skipta um starf, sótti um og ákvað síðan að þiggja starf framkvæmdastjóra þessa nýja sjóðs þegar mér stóð það til boða. Það er áhugavert að fá að taka þátt í því að byggja upp fyrirtæki frá grunni, raunar einstakt tækifæri," segir Jón.

Jón er lögfræðingur og hefur starfað hjá Reykjavíkurborg hátt í 25 ár, fyrst sem skrifstofustjóri borgarverkfræðings og síðustu 16 árin sem starfsmannastjóri borgarinnar.

30 sveitarfélög aðilar

Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga var formlega stofnaður í haust og er að taka til starfa um þessar mundir. Aðalhlutverk hans er að annast lífeyrismál nýrra starfsmanna sveitarfélaganna, starfsmanna sem eru innan vébanda BSRB og BHM. Einnig er gert ráð fyrir að hann geti tekið að sér rekstur lífeyrissjóða sveitarfélaganna. Þegar hafa rúmlega 30 sveitarfélög og landshlutasamtök gerst aðilar að lífeyrissjóðnum, meðal annars Reykjavíkurborg.