GSM-FARSÍMAR njóta mikilla vinsælda hér á landi. Þeim hefur því fjölgað mikið á undanförnum mánuðum. Jafnhliða aukast líkur á að eigendur símanna tapi þeim eða að þeim verði stolið. Síðasta hálfa árið hafa u.þ.b. 80 tilkynningar borist lögreglunni í Reykjavík um að slíkum símum hafi verið stolið frá fólki.

Lögreglan endurheimtir týnda GSM-síma

GSM-FARSÍMAR njóta mikilla vinsælda hér á landi. Þeim hefur því fjölgað mikið á undanförnum mánuðum. Jafnhliða aukast líkur á að eigendur símanna tapi þeim eða að þeim verði stolið. Síðasta hálfa árið hafa u.þ.b. 80 tilkynningar borist lögreglunni í Reykjavík um að slíkum símum hafi verið stolið frá fólki. Í sumum tilvikum er fólk undir áhrifum áfengis þegar það tapar símanum, leggur tækið frá sér, gleymir því eða símanum er beinlínis stolið í innbrotum, bæði í bíla og á heimili eða annars staðar, segir í fréttatilkynningu frá lögreglunni. Þar kemur fram að lögreglan endurheimti átta síma af hverjum tíu sem tilkynntir hafa verið stolnir. Nær undantekningarlaust séu þeir þá í höndum fólks, sem að sögn hafði keypt þá af öðrum en þeim er stal þeim. Vonlaust að nota stolna GSM-síma

"Rétt er að vekja athygli á að næstum vonlaust er fyrir fólk að nota GSM-síma sem hefur verið stolið og tilkynnt hefur verið um," segir í tilkynningunni. "Það fólk verður ekki einungis fyrir óþægindum vegna notkunarinnar heldur og fær það í fæstum tilvikum peningana sína aftur þegar það þarf að sjá á eftir símanum í hendur eigandans." Dæmi eru um erlendis að litið sé á símtækin sjálf sem umgjörð um símkortið og þau því í raun verðlaus í viðskiptum. Með sérstökum tækjabúnaði er hægt að gera símann óvirkan með einni aðgerð í símstöð, kemur fram í tilkynningunni. Sé símanum stolið er hann "aflífaður" og þar með getur hann ekki nýst öðrum. Óvíst er hvort sá háttur verður tekinn upp hér á landi, en í honum felast bæði kostir og gallar. Kosturinn er aðallega sá að þegar símanum er stolið nýtist hann engum og eigandinn þarf ekki að hafa fyrir að endurheimta hann, einungis tilkynna hvarfið. Ókosturinn fyrir eigandann er hins vegar sá að þar með mun lögreglan ekki taka að sér að leita símans þar sem verðmætin eru engin. Varað við að skilja símana eftir í bílum

"Fólk er hvatt til að passa GSM- símana sína," segir í tilkynningunni. "Ekki skilja þá eftir í bílum eða annars staðar þar sem óviðkomandi getur nálgast þá. Verði þeim stolið þarf fólk að biðja um lokun á símanum og einnig um leit að honum verði hann notaður síðar af öðrum. Það er von lögreglunnar að með því að fólk gæti síma sinna betur megi fækka tilkynningum um þjófnað á þeim til lögreglu. Þess má að lokum geta að innbrotum hefur fækkað á starfssvæði lögreglunnar í Reykjavík. Fyrstu sex mánuði ársins 1997 voru 822 innbrot tilkynnt, en 708 á fyrstu sex mánuðum ársins 1998. Hér er um að ræða jákvæða þróun, sem hafði verið neikvæð allt frá árinu 1991 til síðasta árs."