TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, vakti í gær máls á málefnum Tíbets og mannréttindum í því sem hann kallaði "hreinskilnum skoðanaskiptum" við Zhu Rongji, forsætisráðherra Kína. Daginn áður höfðu kínversk stjórnvöld undirritað sáttmála Sameinuðu þjóðanna um stjórnmálaleg borgararéttindi.

Rætt um mannréttindi í

Kínaheimsókn Blairs

Peking. Reuters.

TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, vakti í gær máls á málefnum Tíbets og mannréttindum í því sem hann kallaði "hreinskilnum skoðanaskiptum" við Zhu Rongji, forsætisráðherra Kína. Daginn áður höfðu kínversk stjórnvöld undirritað sáttmála Sameinuðu þjóðanna um stjórnmálaleg borgararéttindi.

Blair, sem er fyrsti brezki ríkisstjórnarleiðtoginn sem heimsækir Kína í sjö ár, lagði áherzlu á hve persónulegt samband þeirra starfsbræðranna væri gott. Eftir alllangan fund þeirra í Peking í gær stigu leiðtogarnir fram fyrir fjölmiðla með breitt bros á vörum til að undirstrika hve vel færi á með þeim. Blair sagði að þeir Zhu, sem hann sagði að stæði "sannarlega fyrir nútímavæðingu", hefðu átt "hreinskilin skoðanaskipti, jafnvel á sviðum þar sem okkur greindi á". Þar með átti hann við mannréttindamálin, sem hafa verið í brennidepli athygli umheimsins frá því Pekingstjórnin undirritaði sáttmála SÞ um borgaraleg og pólitísk réttindi í fyrradag.

Sáttmálinn kveður á um að borgurunum sé tryggt tjáningarfrelsi, réttur til sanngjarnrar réttarmeðferðar og vernd gegn pyntingum. Kínverskir andófsmenn og Mary Robinson, yfirmaður mannréttindamála hjá SÞ, sem heimsótti Kína fyrir skömmu, tóku þessu skrefi Kínastjórnar vel, en þó með fyrirvörum. Þótt Kínastjórn hafi nú undirritað þennan mikilvæga mannréttindasáttmála er óvíst hvenær hún muni staðfesta hann og hvort hann muni þegar á reynir hafa einhverja áþreifanlega þýðingu fyrir mannréttindabaráttu innan Kína.

Samskiptin í "eðlilegt horf"

"Ég vil sérstaklega leggja áherzlu á það hve vel forsætisráðherrann og ég höfum vingazt persónulega," sagði Zhu. Hann hældi Blair fyrir hinn "sögulega þátt" sem hann hefði leikið í því að skila Hong Kong undir kínversk yfirráð. Það ferli hefði gengið mjög vel og tekizt hefði að dreifa áhyggjum þeirra sem óttuðust breytinguna sem endalok nýlendustjórnar Breta í héraðinu þýddi.

Í för með Blair er fjölmenn viðskiptasendinefnd, sem gerir sér vonir um að geta í ferðinni bætt upp töpuð tækifæri sem farið hefðu forgörðum vegna gagnkvæmrar tortryggni og fyrirvara sem almenningur í Bretlandi, Hong Kong og víðar hefðu haft gagnvart Kína.

Reuters TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands (t.h.), og kínverskur starfsbróðir hans, Zhu Rongji, fylgjast með heiðursverði kínverskra hermanna ganga hjá fyrir framan Alþýðuhöllina í Peking við vesturenda Torgs hins himneska friðar, í gær.