Upplýsingum um krabbamein í Íslendingum hefur verið safnað og þær skráðar af nákvæmni hjá Krabbameinsfélagi Íslands um árabil vegna margbreytilegra viðfangsefna félagsins í baráttunni gegn krabbameini. Þessar upplýsingar eru hagnýttar í fjölmörgum faraldsfræðilegum rannsóknum, þ.ám. í erfðafræðirannsóknum sem stundaðar eru á vegum félagsins.
KRABBAMEINSFÉLAGIÐ

Krabbameinsskrá

hagnýtt í rannsóknum

Upplýsingum um krabbamein í Íslendingum hefur verið safnað og þær skráðar af nákvæmni hjá Krabbameinsfélagi Íslands um árabil vegna margbreytilegra viðfangsefna félagsins í baráttunni gegn krabbameini. Þessar upplýsingar eru hagnýttar í fjölmörgum faraldsfræðilegum rannsóknum, þ.á m. í erfðafræðirannsóknum sem stundaðar eru á vegum félagsins.

Krabbameinsfélagið heldur ýmsar skrár. Stærsti gagnabanki félagsins fjallar um leitarstarf Leitarstöðvar félagsins en þar eru skrár um allar komur á Leitarstöðina vegna legháls- og brjóstakrabbameinsleitar. Helstu skrár sem haldnar eru á vísindasviði félagsins eru Krabbameinsskrá og Ættaskrá. Allir starfsmenn sem vinna við þessar skrár undirrita sérstakt þagnarheit um allar persónuupplýsingar í skránum sem leynt eiga að fara og gilda mjög strangar reglur um aðgang að þessum upplýsingum og meðferð upplýsinganna í samræmi við reglur og skilmála sem Tölvunefnd hefur sett. Þó upplýsingarnar séu skráðar með kennitölum einstaklinga í þessum skrám eru kennitölurnar undantekningalaust dulkóðaðar þegar borin eru saman gögn úr Krabbameinsskrá og aðrar upplýsingar.

Fjöldi æxlanna í Krabbameinsskrá 27.500

Í Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands eru skráð öll illkynja mein sem greinst hafa í Íslendingum frá árinu 1955. Í dag er fjöldi æxlanna sem skráð eru í Krabbameinsskránni tæplega 27.500. Síðastliðin tíu ár hafa verið stundaðar umfangsmiklar krabbameinsrannsóknir, sem vakið hafa athygli víða um heim. Þar er m.a. um að ræða rannsóknir á fjölskyldugengi krabbameina. Hefur mest áhersla verið lögð á rannsóknir á brjóstakrabbameinum.

Krabbameinsfélagið sækir um upplýsingar til allra lækna og heilbrigðisstofnana. Mestu máli skipta upplýsingar frá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í meinafræði um greiningar á æxlum og árlegrar skrár Hagstofunnar yfir það sem fram hefur komið á dánarvottorðum einstakra ára um krabbamein. Félagið hefur einnig heimild Tölvunefndar til að halda skrá um ættingja sjúklinga en þær upplýsingar fást úr útgefnum skrám, öðrum opinberum heimildum, og frá Erfðafræðinefnd Háskóla Íslands.

Grunnur Krabbameinsskrárinnar er þjóðskráin og skrá yfir horfna Íslendinga. Einstaklingar eru ekki teknir út af skránni þótt þeir deyi eða hverfi af landi brott, heldur er dánardegi eða brottfarardegi bætt í skrána.

Ættaskrá Krabbameinsfélagsins er skrá með færslum um fjölskyldutengsl krabbameinssjúklinga. Uppýsingar í Ættaskrá berast frá Erfðafræðinefnd bréflega eða á tölvudisklingum. Einnig eru í Ættaskrá upplýsingar sem teknar hafa verið saman úr útgefnum heimildum á borð við ættartöl, kirkjubækur og manntöl.

Nafntengd gögn varðveitt með aðgangstakmörkunum

Undirbúningur að íslenskri krabbameinsskrá hófst skömmu eftir að Krabbameinsfélagið var stofnað en skránni var formlega komið á fót 1954. Niels P. Dungal prófessor og Vilmundur Jónsson, þáverandi landlæknir, voru forgöngumenn að stofnun Krabbameinsskrárinnar, að sögn Hrafns Tuliniusar, prófessors og forstöðumanns Krabbameinsskrárinnar. Markmiðið var að afla upplýsinga og þekkingar á orsökum krabbameina, þar með talið fjölskyldugengi þeirra með faraldsfræðilegum rannsóknum. Mikil samvinna hefur verið höfð við krabbameinsskrár annarra Norðurlanda og Krabbameinsfélagið hefur einnig tekið mikinn þátt í alþjóðlegu samstarfi. Hafa miklar rannsóknir farið fram á fjölskyldugengi krabbameina og sérstaklega hafa íslenskar rannsóknir á ættgengi brjóstakrabbameins vakið athygli í alþjóðlega vísindasamfélaginu.

Í Krabbameinsskrána eru skráðar upplýsingar um illkynja æxli og forstig þeirra. Um sjúklingana er skráð kyn, fæðingardagur, greiningardagur, hvernig greining fór fram, vefjagerð, stigun, nokkrar upplýsingar um meðferð og útbreiðslu sjúkdómsins og dánardagur. Þessar upplýsingar eru nafntengdar í skránni en gögnin eru varðveitt með ströngum aðgangstakmörkunum og hefur félagið sett sér sérstakar reglur um meðferð upplýsinganna og aðgang að þeim vegna vísindarannsókna.

Krabbameinsfélagið þarf ekki sérstaka heimild Tölvunefndar til að tengja saman eigin skrár en ýmsar skrár félagsins eru innbyrðis samtengdar í tölvukerfi Krabbameinsfélagsins. Krabbameinsskránni er hins vegar haldið alveg út af fyrir sig á sérstöku tölvuneti og er þess gætt að aldrei sé opin tenging á milli þess og tölvukerfis félagsins (tölvunets hússins), þar sem er að finna ýmsar aðrar skrár og gögn vegna starfsemi félagsins.

Ein tölva hefur aðgang að báðum netum hússins en aðeins öðru í einu, þannig að aldrei er opið samband á milli tölvunetanna. Þá eru viðkvæmar pappírsupplýsingar geymdar í læstri, eldfastri geymslu, samkvæmt upplýsingum Hrafns.

Öll tölvusamskipti út úr húsi Krabbameinsfélagsins og tenging við alnetið fara í gegnum eina pósttölvu sem er með sérstakri ytri öryggisvörn en á milli hennar og tölvukerfis Krabbameinsfélagsins eru sérstakar varnir, sem eiga að tryggja að óviðkomandi komist ekki inn í tölvukerfi félagsins. Fyrir nokkru voru gerðar tvær árangurslausar tilraunir til að brjótast inn í tölvukerfi félagsins en tölvuþrjótarnir komust ekki lengra en inn í pósttölvuna. Í kjölfar þessara atvika voru öryggisvarnir tölvukerfis Krabbameinsfélagsins hertar.

Bera saman upplýsingar og leiðrétta villur

Hrafn Tulinius segir að þróaðar hafi verið sérstakar aðferðir við skráningu gagna í Krabbameinsskrána, sem miði að aukinni nákvæmni og áreiðanleika. "Krabbameinsskráin fær upplýsingar sínar frá sjúkrahúsum og starfandi læknum, rannsóknastofum í meinafræði og blóðmeinafræði og frá myndgreiningarstofum," segir hann. Stærsti hluti upplýsinga sem skránni berast kemur frá Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði, á tölvudisklingum á sex vikna fresti. "Við fáum tilkynningar frá öllum rannsóknarstofum, meðal annars úr greiningum frá meinafræðirannsóknastofunum í Glæsibæ og á Akureyri og frá blóðmeinarannsóknastofum, ýmist á disklingum eða pappírsgögn," segir Hrafn. Læknum ber ekki skylda til að senda Krabbameinsskránni upplýsingar en hafa gert það að beiðni landlæknis.

Höfð er náin samvinna við Hagstofu Íslands vegna upplýsinga um dánarorsakir. Þannig berast skránni margar tilkynningar um hvert mein sem greinist. "Hlutverk Krabbameinsskrárinnar er að bera saman þessar upplýsingar og ef um eitthvert misræmi er að ræða þá leita orsaka þess og leiðrétta villur ef einhverjar eru. Þessi starfsemi er vel metin af þeim sem helst fást við greiningu krabbameina," segir Hrafn.

Þegar sótt er um upplýsingar úr skránni ber m.a. að greina frá tilgangi rannsóknar og aðferðum, hverjir noti gögnin og hvernig trúnaðar verði gætt. Þurfa umsækjendur að staðfesta skriflega að þeir muni gæta trúnaðargagna á tryggan hátt og að einungis þeir sem til þess hafi leyfi hafi aðgang að þeim.

Í 6. grein reglna Krabbameinsskrárinnar segir ennfremur: "Aldrei verði haft samband við einstakling sem Krabbameinsskrá hefur veitt upplýsingar um, eða ættingja hans, nema í samráði við lækni hans."

Kostnaður umfram tekjur um 300 millj. kr.

"Við svörum öllum spurningum vísindamanna ef við getum og lítum á það sem eitt helsta hlutverk okkar að vera til ráðgjafar og aðstoðar við þá sem vilja vinna að rannsóknum á orsökum eða gangi krabbameina. Ég tel að það hafi verið tilgangurinn hjá Níelsi og Vilmundi og af þessari ástæðu hafa krabbameinsfélögin sennilega lagt meira í þetta verkefni en nokkurt annað verkefni. Á síðast liðnum 17 árum var kostnaður umfram tekjur vegna þessa verkefnis 280 milljónir króna," segir Hrafn.

Upplýsingum í Krabbameinsskrána er ekki safnað á grundvelli upplýsts samþykkis viðkomandi einstaklinga. Að sögn Hrafns er það ekki gert við skráningu í neina krabbameinsskrá í heiminum sem hann þekkir til.

Sýni úr um 5.000 manns varðveitt í lífsýnabanka

Tíu ár eru liðin síðan Krabbameinsfélagið setti á stofn rannsóknastofu sem hefur það meginhlutverk að stunda grunnrannsóknir í sameinda- og frumulíffræði tengdar krabbameini. Átti rannsóknastofan m.a. drjúgan þátt í að finna annað af tveimur svokölluðum brjóstakrabbameinsgenum, BRCA2. Rannsóknarstofan hefur einnig með höndum umsjón skipulegrar söfnunar lífsýna til rannsókna á krabbameinum. Í lífsýnabanka rannsóknastofunnar eru nú sýni frá um 5.000 einstaklingum. Reglur félagsins um lífsýnabankann eru að verulegu leyti sniðnar eftir reglum lífsýnabanka Norska krabbameinsfélagsins.

Að sögn dr. Helgu M. Ögmundsdóttir, forstöðumanns rannsóknastofunnar, er í lífsýnabankanum aðallega varðveitt einangrað erfðaefni úr blóði og lifandi frostvarðar hvítfrumur úr blóði og blóðvökva.

Sýnin eru einungis merkt með sýnisnúmeri og tökudegi en engar persónuupplýsingar fylgja sýnunum sjálfum. Tölvuskrá fylgir lífsýnabankanum. Þessi tölvuskrá er ekki á tölvunetum hússins og er aðgengileg einungis með lykilorði, sem aðeins þrír starfsmenn kunna. Þar er skráð fyrir hvern einstakling raðnúmer sýna, tökudagur, persónuupplýsingar, ættarupplýsingar, sýnategundir, glasafjöldi, geymslustaðir og upplýsingar um notkun þegar sýni eru tekin úr bankanum.

Strangar reglur gilda um vörslu og meðferð sýnanna og hefur tilsjónarmaður Tölvunefndar eftirlit með notkun gagnanna við rannsóknir. Þegar sýni eru tekin til rannsóknar eru persónuupplýsingar dulkóðaðar og öll sýni fá ákveðið númer.

Fá aldrei einstaklingsbundnar upplýsingar

"Þegar utanaðkomandi vísindamenn sækja um afnot af sýnum úr bankanum eru þau afhent þannig að við tökum til sýnin miðað við þarfir viðskiptavina okkar, sem fá sýnin merkt með nýjum raðnúmerum. Sá sem rannsakar sýnin fær aldrei neinar einstaklingsbundnar upplýsingar í hendur," segir Helga.

"Við söfnum lífsýnum með þrennum hætti. Við fáum sýni úr sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahús til aðgerða vegna brjóstakrabbameins. Í öðru lagi söfnum við sjálf sýnum úr fjölskyldum og í þriðja lagi söfnum við samanburðarsýnum, það er að segja úr heilbrigðu fólki og er þeim að verulegu leyti safnað í samvinnu við Hjartavernd," segir hún.

Undantekningalaust er leitað upplýsts samþykkis þeirra einstaklinga sem Krabbameinsfélagið sjálft safnar sýnum frá og er tilgangur sýnatökunnar útskýrður. "Þegar við fáum sýni frá sjúkrahúsum getum við sjálf ekki leitað upplýsts samþykkis. Í þeim tilvikum er því um að ræða þetta svokallaða ætlaða samþykki," segir Helga.

Skrár keyrðar saman og síðan er dulkóðað

Þegar rannsóknastofan fær heimild Tölvunefndar til að keyra saman eigin skrár við skrár annarra aðila, t.d. Hjartaverndar, í afmörkuðum tilgangi berast skrárnar með kennitölum. Eftir að þær hafa verið keyrðar saman er búinn til listi yfir þá sem rannsóknin nær til, er sá listi þvínæst dulkóðaður og persónutengdu skránni er eytt.

Helga segir mjög þýðingarmikið við vísindarannsóknir að geta tengt saman skrár með heilsufarsupplýsingum í dreifðum gagnagrunnum í ákveðnum afmörkuðum tilgangi. Þegar upplýsingarnar hafa verið bornar saman eru tengslin rofin á ný. "Þegar við tengjum saman upplýsingar er það gert í afmörkuðum tilgangi. Við tengjum í rauninni aðeins saman fáein atriði hverju sinni, sem tengjast viðkomandi rannsókn. Ef við hugsum okkur nokkra dreifða gagnagrunna og í gagnagrunni A kemur upp hugmynd að rannsóknarverkefni og af því tilefni er búin til skrá úr grunninum yfir sjúklinga með sjúkdóminn x. Síðan er gerð fyrirspurn í gagnagrunn B um tiltekin atriði sem hugsanlega tengjast þessum sjúkdómi. Leggja verður fyrirspurnina fyrst fyrir Tölvunefnd og Vísindasiðanefnd. Þegar leyfi er fengið má fara fram tenging á milli grunnanna. Á því stigi er oft sett það skilyrði af hálfu Tölvunefndar að persónuupplýsingar séu kóðaðar og að upphaflegu gögnunum sé eytt. Þess er þó ekki alltaf krafist að upphafsgögnunum verði eytt heldur er greiningarlykill stundum varðveittur vegna þess að það getur verið mikilvægt að mögulegt sé að rekja sig til baka. Á vinnslustiginu er eingöngu unnið með kóðaðar upplýsingar. Næst þegar hugmynd vaknar að rannsóknarverkefni er mikilvægt að hægt sé að nota sömu aðferðir við að tengjast öðrum gagnagrunnum. Jafnframt er nauðsynlegt að eiga þess kost að bæta inn nýjum heilsufarsupplýsingum um einstaklinga í gagnagrunnana og skiptir mjög miklu máli að merkja og tímasetja upplýsingarnar, vegna þess að orsakaþættir sjúkdóma geta sagt til sín á löngum tíma," segir hún. Þetta segir Helga vera mun markvissari leið en að koma á fót einum miðlægum gagnagrunni með þeim takmörkunum sem honum fylgi.

Tekið er fram í gagnagrunnsfrumvarpinu að það taki ekki til sjúkraskrárkerfa einstakra stofnana, skráa sem stjórnvöld halda eða gagnasafna vegna vísindarannsókna á einstökum sjúkdómum eða sjúkdómaflokkum. Lögin taki þannig t.d. ekki til skrár Hjartaverndar eða Krabbameinsskrár og rétt er að benda á að væntanleg lög ná ekki yfir lífsýni. Hafi hins vegar niðurstaða rannsóknar á lífsýni verið skráð í sjúkraskrá hefur rekstrarleyfishafi gagnagrunnsins aðgang að þeim upplýsingum.

Helga segir aðspurð að starfsemi miðlægs gagnabanka gæti engu að síður haft ýmis áhrif á starfsemi rannsóknastofu Krabbameinsfélagsins. "Það er lykilatriði fyrir alla að Krabbameinsskráin fái að halda sínu sjálfstæða lífi og hún hverfi ekki inn í miðlægan gagnagrunn," segir hún.

"Samskipti við aðra gagnagrunna ganga ágætlega fyrir sig í dag. Það er hins vegar hugsanlegt að ýmsar skrár sem við höfum fengið aðgang að verði settar inn í miðlægan gagnabanka. Ef við ætlum að sækja um aðgang að upplýsingum í honum er þar fyrir aðgangsnefnd og í henni situr fulltrúi sérleyfishafans. Það skapar auðvitað hættu á hugvitsstuldi."

Morgunblaðið/Árni Sæberg

Á RANNSÓKNASTOFU Krabbameinsfélagsins eru m.a. stundaðar ýmsar erfðafræðirannsóknir á krabbameinum. Rannsóknastofan varðveitir einnig lífsýnabanka."Þegar við fáum sýni frá sjúkrahúsum getum við sjálf ekki leitað upplýsts samþykkis"