STJÓRN Opinna kerfa hf. hefur ákveðið að nýta sér til fulls heimild til stjórnar félagsins, sem samþykkt var á aðalfundi Opinna kerfa hf. 11. mars sl., um að auka hlutafé um allt að 4 mkr. að nafnverði.
ÐOpin kerfi með 4 milljóna hlutafjárútboð

STJÓRN Opinna kerfa hf. hefur ákveðið að nýta sér til fulls heimild til stjórnar félagsins, sem samþykkt var á aðalfundi Opinna kerfa hf. 11. mars sl., um að auka hlutafé um allt að 4 mkr. að nafnverði.

Í fréttatilkynningu kemur fram að tilgangur útboðsins er að afla fjár vegna fjárfestinga í öðrum félögum og fjölga hluthöfum til að uppfylla skilyrði um skráningu á Aðallista Verðbréfaþings Íslands. Samið hefur verið við Búnaðarbankann Verðbréf um að annast hlutafjárútboðið sem áætlað er að verði um mánaðamótin október/nóvember.

Fjárhæð útboðsins er 4.000.000 kr. að nafnverði og er um að ræða nýtt hlutafé til viðbótar við áður útgefið hlutafé sem er 38.000.000 kr. að nafnvirði.

Skiptist í tvo hluta

Útboðið skiptist í tvo hluta. Annars vegar geta núverandi hluthafar neytt forkaupsréttar á nýju hlutafé og er hámarksnafnverð hlutabréfa sem forkaupsréttarhafar geta nýtt sér 4.000.000 kr. Hins vegar verður almenningi boðið að kaupa með áskriftarfyrirkomulagi þau hlutabréf sem forkaupsréttarhafar kaupa ekki og verður sett hámark á nafnverð þess hlutar sem hver einstaklingur getur skráð sig fyrir. Verði eftirspurn í almennu útboði meiri en sem nemur því hlutafé sem boðið er til sölu skerðist hlutur hvers og eins hlutfallslega miðað við þá upphæð sem óskað er eftir. Almenna sölutímabilið mun hefjast að loknu forkaupsréttartímabilinu og mun Búnaðarbankinn Verðbréf þá sjá um sölu á þeim hluta, og þeirri fjárhæð sem forkaupsréttarhafar hafa ekki tekið á forkaupsréttartímabilinu, til almennings í almenna útboðinu, segir í í fréttatilkynningu.