FRÁGANGUR fréttatilkynninga um afkomu félaga sem hafa fengið hlutabréf sín skráð á Verðbréfaþingi Íslands er ekki í samræmi við kröfur þingsins og uppsetning ársreikninga er ekki í samræmi við ströngustu kröfur laga og reglugerða. Kom þetta í ljós við athugun Verðbréfaþings Íslands á upplýsingagjöf 45 félaga vegna síðasta reikningsárs.
Verðbréfaþing gerir athugasemdir við upplýsingagjöf fyrirtækja Uppsetning ársreikninga ekki í

samræmi við ströngustu kröfur

FRÁGANGUR fréttatilkynninga um afkomu félaga sem hafa fengið hlutabréf sín skráð á Verðbréfaþingi Íslands er ekki í samræmi við kröfur þingsins og uppsetning ársreikninga er ekki í samræmi við ströngustu kröfur laga og reglugerða. Kom þetta í ljós við athugun Verðbréfaþings Íslands á upplýsingagjöf 45 félaga vegna síðasta reikningsárs.

Verðbréfaþing Íslands hefur að undanförnu lagt áherslu á að auka faglega umfjöllun um reikningsskil. Það hefur meðal annars verið gert með ráðningu löggilts endurskoðanda, Helenu Hilmarsdóttur, til starfa og í kjölfarið skipulegri yfirferð ársreikninga, milliuppgjöra og upplýsinga þeim tengdum.

Ófullnægjandi fréttatilkynningar

Um síðustu áramót tóku gildi nýjar reglur um viðvarandi upplýsingaskyldu útgefenda sem fengið hafa bréf sín skráð á Verðbréfaþingi. Með þeim er upplýsingagjöf til VÞÍ í tengslum við ársreikning breytt á þann hátt að nú ber skráðum félögum að senda þinginu fréttatilkynningu um leið og stjórn félagsins hefur samþykkt ársreikning. Þegar hann er tilbúinn til dreifingar skal senda eintak til VÞÍ og þeirra þingaðila sem þess óska, þó eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Skoðun á fyrstu umferð upplýsingagjafar eftir þessar breytingar á reglunum lauk í sumar og í framhaldi af því sendi Verðbréfaþing skráðum félögum helstu niðurstöður með ósk um að félögin kynni sér þær og lagfæri hjá sér fyrir næsta ár.

Í bréfinu sem Helena Hilmarsdóttir undirritar kemur fram að rúmur helmingur félaganna tilkynnti of seint um birtingu fréttatilkynningar, fæstar hófust á lykil- og kennitölum, 36% félaganna fjölluðu ekkert um horfur og 62% greindu ekki frá dreifingardegi ársreiknings.

Mismunandi færsla arðs

Í reglum Verðbréfaþings um viðvarandi upplýsingaskyldu er kveðið á um að skráð félag skuli leitast við að láta reikningsskil sín ávallt uppfylla ströngustu kröfur sem gerðar eru til félaga í þeirri grein sem félagið starfar í. Þau skulu samin í samræmi við gildandi lög og góða reikningsskilavenju.

Í ljós kemur að Verðbréfaþing þurfti að minna allmörg félög á að skila ársreikningi á tilskildum tíma og ýmsar athugasemdir eru gerðar um uppsetningu þeirra í athugun starfsmanns þingsins. Þannig sýna 38% félaganna ekki sérstaklega afkomu af reglulegri starfsemi eftir skatta. Helena segir að það atriði standi væntanlega til bóta því Reikningsskilaráð hafi boðað reglu um það. Hjá tæpum helmingi eru langtímaskuldir ranglega flokkaðar.

Mismunandi er hvort tillaga um úthlutun arðs er skuldfærð eða ekki. Fram kemur að aðeins níu félög skuldfæra úthlutaðan arð en 32 færa hann ekki fyrr en við greiðslu. Helena segir bagalegt að ekki skuli vera samræmi í því hvenær arður er færður til skuldar því það geti haft umtalsverð áhrif á reikningsskil félaganna. Lýsir hún því sem sinni skoðun að félögum beri að skuldfæra arð við úthlutun, samkvæmt tillögu stjórnar til aðalfundar enda séu engin eða fá dæmi um að aðalfundur hafi ekki farið að tillögunni.

"Það er eðlilegt að ætlast til þess að almenningshlutafélög sem skráð eru á verðbréfaþingi séu til fyrirmyndar hvað varðar reikningsskil og alla upplýsingagjöf," segir m.a. í niðurlagi bréfs Verðbréfaþings.