ÖRORKUBÓTAÞEGAR voru færri hér á landi en á Norðurlöndunum 1996, að því er fram kemur í grein eftir tryggingalæknana Sigurð Thorlacius, Sigurjón Stefánsson og Stefán Ólafsson prófessor í Læknablaðinu nýlega. Sigurjón Stefánsson tryggingalæknir segir að þessi hlutföll hafi lítið raskast síðastliðin tvö ár.

Færri örorkubótaþegar

en í nágrannalöndunum

ÖRORKUBÓTAÞEGAR voru færri hér á landi en á Norðurlöndunum 1996, að því er fram kemur í grein eftir tryggingalæknana Sigurð Thorlacius, Sigurjón Stefánsson og Stefán Ólafsson prófessor í Læknablaðinu nýlega. Sigurjón Stefánsson tryggingalæknir segir að þessi hlutföll hafi lítið raskast síðastliðin tvö ár. Þetta stangast á við það sem haft er eftir Davíð Oddssyni forsætisráðherra í Morgunblaðinu í gær. Þar segir hann að tryggingayfirlæknir hafi minnt á að mun fleiri væru á örorkubótum hér á landi en í nágrannalöndunum. Mikill fjöldi öryrkja og mikill fjöldi manna á örorkubótum gæti leitt til þess að bætur væru lægri en annars gæti orðið.

Sigurjón segir að 4,2% landsmanna á aldrinum 16-66 ára séu metnir 75% öryrkjar árið 1996. Á sama tíma var þetta hlutfall 4,3% í Danmörku, 7,6% í Svíþjóð, 8,4% í Noregi og 9,2% í Finnlandi.

"Samanburður af þessu tagi er samt ekki einfaldur því mismunandi reglur gilda í hverju landi. En það er rangt að staðhæfa að öryrkjar séu fleiri hér á landi en á Norðurlöndunum eins og við skilgreinum þá.

Ef við tökum örorkustyrkþega, þ.e. 65% örorku og minna, með í reikninginn hækkar hlutfallið í um 4,8%. Það er áhugavert í þessu máli að þegar skoðaðar eru tölur frá því fyrir 20 og 40 árum, er hlutfallið mjög svipað og nú er. Það virðist ekki sem umsóknum hafi fjölgað mikið á síðustu 40 árum," segir Sigurjón.

Sjúkradagpeningar hærri á Norðurlöndunum

Sigurjón segir að öryrkjar séu að jafnaði yngri hérlendis en í nágrannalöndunum. Skýringin á því geti legið í því að stuðst er við annað bótakerfi á Norðurlöndunum. Þar eru bótaþegar lengur á sjúkradagpeningum sem eru mun hærri en örorkubætur. Hérlendis eru sjúkradagpeningar mun lægri eða svipaðir og örorkustyrkur.

Ungt fólk, 16-19 ára, sem er veikt og þarf á langvarandi endurhæfingu að halda, færi frekar á örorku hér. Á hinum Norðurlöndunum þægi það fremur sjúkradagpeninga.

Sigurjón segir að sú tilhneiging hafi verið í tryggingakerfinu hér á árum áður að heimavinnandi konur væru fremur metnar 65% en 75% öryrkjar.

Helgi Seljan, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins, segir að forsætisráðherra fari með rangt mál þegar hann segi að örorkubótaþegar séu fleiri hérlendis en á Norðurlöndunum. Heildartalan sé lægri á Íslandi.

"Það er hins vegar ákveðinn aldurshópur sem tryggingayfirlæknir segir að sé fjölmennari hér á landi en í okkar nágrannalöndum. Skýringin felst að nokkru í því atvinnuleysi sem var hér á tímabili sem ekki var þekkt hér áður. Forsætisráðherra grípur þetta á lofti og slær þessu fram en þetta er ekki rétt. Öryrkjum í heild hefur ekki fjölgað á þessum áratug. Þótt örorkulífeyrisþegum hafi fjölgað hefur örorkustyrkþegum fækkað," segir Helgi.

Örorkustyrkur 11.000 kr. á mánuði

Örorkulífeyrisþegi er sá sem er metinn með 75% örorku eða meira en örorkustyrkþegi sá er metinn er með 65% örorku eða minna, allt niður í 50%. "Þó bætur séu ekki beysnar fyrir örorkulífeyrisþega fær örorkustyrkþegi ekki nema að hámarki 11.000 kr. á mánuði. Hann getur haft aðrar tekjur en hann getur einnig verið án annarra tekna, svo sem lífeyrissjóðsgreiðslna, og við höfum fengið mörg slík dæmi inn á okkar borð. Þetta leiðir til þess að menn hætta ekki fyrr en þeir þokast inn í 75% flokkinn og fá greiddan örorkulífeyri. Við höfum mælst til þess að minna bil sé á bótum til örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega því fyrir bragðið mun örorkustyrkþegum fækka," segir Helgi.

Helgi segir að örorkustyrkþegar hafi verið 1.580 talsins í árslok 1997 en örorkulífeyrisþegar 7.776.

Örorkubætur hafa hækkað um 17% á tveimur síðustu árum

Siv Friðleifsdóttir alþingismaður, sem á sæti í heilbrigðis- og trygginganefnd, segir að á síðustu tveimur árum hafi örorkubætur hækkað um 17%. 1. janúar hækka bætur almannatrygginga um 3,65% í samræmi við kjarasamninga. Þessi hækkun hefur í för með sér 780 milljóna kr. útgjaldaaukningu.

"Einnig er gert ráð fyrir því að halda stöðugleika í efnahagsmálum í horfinu og halda verðbólgu niðri. Þetta skiptir öryrkja mjög miklu máli sem þurfa að nýta sína peninga vel eins og aðrir. Þeir njóta þá góðs af því," segir Siv.

Siv sagði að deila mætti um það hvort 63.000 kr. örorkubætur að hámarki á mánuði væru mannsæmandi bætur. "Það eru margir illa haldnir af sínum örorkubótum. Það er sett fram í heilbrigðiskafla fjárlagafrumvarpsins að það eigi að reyna að auka starfsþjálfun til þess að koma í veg fyrir örorku til langtíma. Ég held að við höfum gert allt of lítið af því og við þurfum að taka endurhæfingarmál til endurskoðunar. Það hefur verið lögð áhersla á bráðaþjónustu í okkar heilbrigðismálum og því miður hefur endurhæfingin liðið fyrir það. Ég mun beita mér fyrir því á næstunni að auka hlut endurhæfingarinnar," sagði Siv.

Hún sagði að almenn hækkun á örorkubótum, umfram samningsbundnar hækkanir, væri ekki mál sem einn þingmaður tæki upp með sjálfum sér. "Mál af þessari stærðargráðu þyrfti að taka upp á milli stjórnarflokkanna ef breyta ætti upphæðum bóta. En aðalatriðið er það að öryrkjar og forsvarsmenn þeirra hafa sjálfir lagt höfuðáherslu á að minnka tekjuskerðingu vegna tekna maka. Við komum til móts við þá með það. Það verður gert í þrepum og ég býst við að settar verði um 200 milljónir kr. til að minnka tekjutenginguna. Það verður tekið skref í þessa átt á næsta ári og mér finnst þetta vera ákveðið réttlætismál. Einfalt er að benda á að atvinnuleysisbætur eru ekki tengdar við tekjur maka," segir Siv.

Hún kvaðst ekki geta metið það hvort verið væri að brjóta gegn Mannréttindayfirlýsingu SÞ með bágum kjörum öryrkja. "Það má þá líka segja að verið sé að brjóta mannréttindi á þeim sem eru á atvinnuleysisbótum. Ég get ekki tekið undir þetta," segir Siv. Hún tekur þó undir það að erfitt geti verið að komast af með 63.000 kr. á mánuði ef greiða þarf húsaleigu af þeirri upphæð. Svo sé ástatt um marga og hafi svo sem alltaf verið.

Garðar Sverrisson, talsmaður Öryrkjabandalagsins, hefur sagt að hækka þyrfti örorkubætur verulega og miða þær að lágmarki við 100.000 kr. á mánuði.

"Ég býst ekki við að þetta verði gert á næstunni en mér finnst eðlilegt að öryrkjar haldi uppi sínu merki og veki athygli á sinni stöðu. Þeir hafa gert það og náð árangri með því að fá stjórnarflokkana til að koma til móts við kröfur þeirra um minnkun á tengingu tekna maka á bæturnar."