WILLIAM Hague, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, varaði í gær nokkra fyrrverandi ráðherra flokksins við og sagði, að þeir, sem væru andvígir stefnu hans í Evrópumálum, yrðu skildir eftir ef þeir féllust ekki á, að málið væri útrætt.
Dregur til tíðinda á flokksþingi breska Íhaldsflokksins Hague hótar að skilja Evrópusinnana eftir

Bournemouth. Reuters.

WILLIAM Hague, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, varaði í gær nokkra fyrrverandi ráðherra flokksins við og sagði, að þeir, sem væru andvígir stefnu hans í Evrópumálum, yrðu skildir eftir ef þeir féllust ekki á, að málið væri útrætt.

Kom þetta fram hjá Hague á fyrsta degi flokksþings Íhaldsflokksins í Bournemouth en flokksfélagar hafa samþykkt með miklum mun stuðning við þá stefnu leiðtogans, að Bretar gerist ekki aðilar að evrópska myntbandalaginu næstu átta árin.

Hague sagði í ræðu sinni, að hann vildi, að allir yrðu sér samferða en þeir, sem vildu það ekki, yrðu einfaldlega skildir eftir. Beindi hann þeim orðum sérstaklega til Evrópusinna í Íhaldsflokknum undir forystu þeirra Michaels Heseltines, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra, og Kenneths Clarkes, fyrrverandi fjármálaráðherra. Þeir halda því fram, að atkvæðagreiðslan um Evrópustefnuna hafi verið óþörf og geti komið flokknum í koll.

Hague segir aftur á móti, að atkvæðagreiðslan hafi verið nauðsynleg til að vilji flokksmanna kæmi ljóslega fram og til að kveða niður deilurnar í flokknum.

Sama gengisleysið

Hague tók við forystunni í Íhaldsflokknum eftir kosningaósigurinn í fyrra, þann mesta síðan 1832 en þá fékk hann aðeins fjórðung þingsæta. Flokknum hefur þó ekki vegnað neitt betur í stjórnarandstöðunni. Samkvæmt skoðanakönnun, sem birtist í dagblaðinu Guardian í gær, fengi Íhaldsflokkurinn aðeins 29% atkvæða nú en Verkamannaflokkurinn 51%.

Síðdegisblaðið Sun , sem einu sinni studdi Íhaldsflokkinn hvað ákafast, hæddist að honum í gær og birti mynd af Hague í líki dauðs páfagauks. "Þessi flokkur er ekki lengur til, hann er bara fyrrverandi flokkur. Banameinið: Sjálfsvíg," sagði blaðið.

Hague