HÆSTIRÉTTUR Filippseyja hnekkti í gær dómi undirréttar yfir Imeldu Marcos, ekkju fyrrverandi einræðisherra, Ferdinands Marcos, sem dæmt hafði hana til tólf ára fangelsisvistar fyrir spillingu. Þessi úrskurður hæstaréttar olli írafári meðal reyndra stjórnmálamanna í landinu, sem sögðu að dómurinn gæti orðið til þess að ryðja Marcos-fjölskyldunni aftur leið til valdaembætta.
Imelda Marcos sýknuð

Manila. Reuters.

HÆSTIRÉTTUR Filippseyja hnekkti í gær dómi undirréttar yfir Imeldu Marcos, ekkju fyrrverandi einræðisherra, Ferdinands Marcos, sem dæmt hafði hana til tólf ára fangelsisvistar fyrir spillingu.

Þessi úrskurður hæstaréttar olli írafári meðal reyndra stjórnmálamanna í landinu, sem sögðu að dómurinn gæti orðið til þess að ryðja Marcos-fjölskyldunni aftur leið til valdaembætta.

"Ég er bergnumin af ánægju yfir réttarsigrinum," sagði Imelda Marcos er dómurinn lá fyrir, að sögn lögfræðings hennar. Dómurinn hnekkti dómi sérstaks spillingardómstóls, sem árið 1993 dæmdi Imeldu fyrir að hafa brotið spillingarvarnalög. Í janúar sl. virtist sem hún yrði að sætta sig við að þurfa að afplána fangelsisdóminn, þegar dómur skipaður fimm hæstaréttardómurum staðfesti undirréttardóminn. En hún fékk fullskipaðan hæstarétt til að taka málið fyrir, sem í gær komst með átta atkvæðum gegn fimm að þeirri niðurstöðu, að sýkna bæri ekkjuna.

Dómur gærdagsins er endanlegur og óáfrýjanlegur. Hann er stærsti lögfræðilegi sigurinn sem Marcos-fjölskyldan hefur unnið í baráttu sinni fyrir að hljóta uppreisn æru.

Fleiri málaferli

En Imelda Marcos er ekki laus undan armi réttvísinnar. Fjöldi málaferla gegn henni er í vinnslu á lægri dómsstigum, þar sem hún er meðal annars sökuð um að hafa lagt eiginmanni sínum lið við að raka saman milljörðum dollara af almannafé á 20 ára valdaferli hans. Ekkjan hefur neitað öllum sakargiftum.

Imelda Marcos