SAMBAND ungra sjálfstæðismanna samþykkti á málefnaþingi sínu um síðustu helgi ályktun um fjölskyldumál, þar sem lagt er til að feðrum og mæðrum verði tryggður jafn réttur til fæðingarorlofs. Þessu vilja ungir sjálfstæðismenn haga þannig að hvort foreldri um sig eigi rétt á þriggja mánaða sjálfstæðu fæðingarorlofi, en þar að auki eigi foreldrar sameiginlega rétt á þriggja mánaða orlofi,
JAFN RÉTTUR FORELDRA

SAMBAND ungra sjálfstæðismanna samþykkti á málefnaþingi sínu um síðustu helgi ályktun um fjölskyldumál, þar sem lagt er til að feðrum og mæðrum verði tryggður jafn réttur til fæðingarorlofs. Þessu vilja ungir sjálfstæðismenn haga þannig að hvort foreldri um sig eigi rétt á þriggja mánaða sjálfstæðu fæðingarorlofi, en þar að auki eigi foreldrar sameiginlega rétt á þriggja mánaða orlofi, sem þeir ráði hvernig þeir skipti á milli sín. Þá telja ungir sjálfstæðismenn mikilvægt að foreldrum sé gefið tækifæri til sveigjanlegs fæðingarorlofs, sem t.d. sé hægt að nýta samhliða hlutastarfi.

Þessar tillögur eru athyglisverðar og jákvæðar. Eins og Morgunblaðið hefur margoft bent á, er jafnari þátttaka kynjanna í umönnun ungra barna ein meginforsendan fyrir jafnrétti á fleiri sviðum og aukið svigrúm foreldra til að vera með börnum sínum er tvímælalaust hagur barnanna og alls samfélagsins.

Lofsverð er jafnframt sú hreinskilni ungra sjálfstæðismanna að þessi tillaga horfi til aukningar ríkisútgjalda. En þótt útgjöld tryggingakerfisins kunni að aukast við það að feður fari í auknum mæli að taka sér fæðingarorlof, eru tryggingabætur lágar. Þær eru svo lágar að það dregur úr líkunum á að allir, sem eiga rétt á fæðingarorlofi, nýti sér það. Morgunblaðið hefur áður fjallað um nauðsyn þess að um aukinn rétt foreldra til launagreiðslna í fæðingarorlofi verði samið í kjarasamningum. Slíkt yrði án efa að gerast í áföngum og hugsa mætti sér að fyrsta skrefið gæti verið einhvers konar tilflutningur á orlofsrétti, þannig að fólk gæti tekið sér frí frá vinnu þegar mest við lægi; við fæðingu nýs fjölskyldumeðlimar.

Það er til langs tíma litið fyrirtækjum í hag að stuðla að því að konur og karlar skipti jafnt með sér ábyrgð á börnum og heimili, m.a. með töku fæðingarorlofs. Ef konur dragast aftur úr körlum í samkeppni á vinnumarkaðnum vegna meiri fjarveru í þágu barna og heimilis verður það til þess að fyrirtækin njóta ekki menntunar þeirra og hæfileika sem skyldi. Jöfn tækifæri kynjanna á þessu sviði stuðla að því að fyrirtæki fái hæfasta fólkið með beztu menntunina til að gegna ábyrgðarmeiri stöðum.

STUÐNINGUR VIÐ HEILBRIGÐISÞJÓNUSTU

ENGAN ÞARF að undra áhuga fólks á heilbrigðisþjónustunni. Það er meginhlutverk hennar að lina þjáningar, lækna mein og endurhæfa fólk til þátttöku í daglegu lífi. Hátæknisjúkrahús sinna og víðfeðmum rannsóknum og kennslu. Þjóðhagslegt gildi heilbrigðisþjónustunnar felst m.a. í lengri starfsævi fólks og minni fjarvistum frá störfum. Þar að auki er heilbrigði til líkama og sálar dýrmætasta eign sérhvers einstaklings.

Stofn- og rekstrarkostnaður heilbrigðisþjónustu er að stærstum hluta sóttur til almennings og atvinnulífs í formi skatta, sem löggjafinn ráðstafar í fjárlögum. Einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök hafa séð ástæðu til að bæta um betur með fjárstuðningi til að standa undir viðunandi heilbrigðisþjónustu, eins og dæmin sanna. Um síðustu helgi fór fram almenn fjársöfnum á vegum SÍBS, sem skilaði á fjórða tug milljóna króna til endurbóta á endurhæfingarstöð að Reykjalundi. Komandi laugardag selur Kiwanishreyfingin K-lykil til að fjármagna endurbætur á húsnæði Geðhjálpar. Krabbameinsfélag Íslands, sem lengi hefur skilað farsælu starfi í heilsugæzlu, stendur þessa dagana fyrir fræðsluátaki um krabbamein hjá körlum í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið. Hér eru aðeins nefnd þrjú dæmi úr fréttum síðustu daga um framtak félagasamtaka, en fjölmörg önnur mætti til tína. Og vert er að minna á, að drjúgur hluti nauðsynlegs tækjakosts heilbrigðisstofnana eru gjafir félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga.

Aðhald í ríkisútgjöldum er nauðsynlegt. Sitthvað bendir þó til þess að um of hafi verið saumað að heilbrigðisþjónustunni síðustu 10 til 15 árin. Hlutur frjálsra félagasamtaka hefur á hinn bóginn vaxið jafnt og þétt og gegnt ómetanlegu hlutverki í vörn og sókn þjóðarinnar á heilbrigðissviðinu. Viðbrögð almennings tala sínu máli. Þau eru stuðningsyfirlýsing í fjárframlögum.