ÍBÚAR suðvesturhornsins hafa svo sannarlega fengið að njóta veðurblíðunnar í septembermánuði og fyrstu daga októbermánaðar. Það var ekki fyrr en á sunnudag, 4. október, sem Víkverja fannst vera komið raunverulegt haust í loftið, hvassviðri og sölnað lauf farið að fjúka um allt. Það er ekki á hverju hausti sem svo miklar stillur eru, að helst minnir á útlönd.
ÍBÚAR suðvesturhornsins hafa svo sannarlega fengið að njóta veðurblíðunnar í septembermánuði og fyrstu daga októbermánaðar. Það var ekki fyrr en á sunnudag, 4. október, sem Víkverja fannst vera komið raunverulegt haust í loftið, hvassviðri og sölnað lauf farið að fjúka um allt. Það er ekki á hverju hausti sem svo miklar stillur eru, að helst minnir á útlönd. Á þessum árstíma er heimsókn á Þingvelli árviss viðburður hjá fjölda manns, enda var margt um manninn á Þingvöllum fyrir rúmri viku, í dásamlegu veðri og óumræðilegri litadýrð. Raunar var bíll við bíl, rétt eins og um sunnudagsbíltúr á Laugaveginum væri að ræða. Margir vilja alls ekki missa af því að fara í haustlitaskoðunarferð til Þingvalla á hverju hausti.

ALLTAF hefur Víkverji jafngaman af að fylgjast með gengi Bjarkar, söngstjörnunnar okkar, sem fyrir margt löngu varð einskonar þjóðareign, en á þó sjálfa sig samt sem áður svo gott sem fullkomlega, á þennan einstaka Bjarkarlega hátt. Hér í Morgunblaðinu í síðustu viku voru birt brot úr viðtali Roberts Hellerts sem hann átti við Björk fyrir sérútgáfu tímaritsins Gramophone, Explorations 3 og var það skemmtileg lesning. Lýsing blaðamannsins á sérstöðu Bjarkar í tónlistarheiminum vakti athygli Víkverja: "Ótrúleg röddin, sérstakur persónuleiki og síðast en ekki síst heimalandið Ísland." Og eigin orð Bjarkar enn frekar, þegar hún sagði: Íslensk náttúra er kraftmikil og miskunnarlaus. Í henni eru ástríður og fegurð, sem þó er mjög ólík "venjulegri fegurð Alpanna eða einhverra hitabeltisblóma. Á Íslandi má finna viðkvæm blóm á stærð við fingurnögl í landslagi sem einkennist af hrikalegri, stórbrotinni fegurð. Veðurfarið er óútreiknanlegt. Allar tegundir veðurs geta skollið á sama daginn og sólarlagið er engu líkt."

SÖNGKONAN segir Heller að hún sé sannfærð um að hrikaleiki íslenskrar náttúru komi fram í tónlist sinni. "Ég veit ekki hvernig. Ég bara veit að áhrifin eru þar. Samt veit ég að tónlistina, sem ég heyri í höfðinu á mér þegar ég geng um íslenska náttúru, hef ég ekki ennþá samið eða skrifað um. Kannski mun ég aldrei gera það, en ég mun samt reyna." Það er ekki að ástæðulausu sem svo margir hafa orðið til þess að kalla Björk náttúrubarn af Guðs náð.