Sigrún Pálsdóttir Í dag er kvödd hinstu kveðju tengdamóðir mín Sigrún Pálsdóttir. Aldarfjórðungur er liðinn frá því að ég hitti þessa mætu konu fyrst og á stundu sem nú leita ótal minningar á hugann. Ég gerði mér nokkuð fljótt grein fyrir því að Sigrún væri afskaplega sérstök kona. Við höfum oft sagt í gamni að vandfundið væri annað eintak af Sigrúnu Páls. Hún var skarpgreind, mikill dugnaðarforkur til vinnu og lagði allan sinn metnað í að börnin hennar fengju notið góðrar menntunar.

Sigrún var á margan hátt á undan sinni samtíð. Hún settist á skólabekk í Kennaraskólanum þegar yngsta barnið var sjö ára og það elsta að ljúka stúdentsprófi. Á þessum árum taldist það til tíðinda að konur á miðjum aldri færu í nám. Sigrún lét sig ekki muna um að taka tvo fyrstu bekkina samtímis, samhliða heimilisstörfum og umönnun allra barnanna sex. Kennaraprófinu lauk hún síðan með afburða námsárangri. Nokkrum árum síðar bætti hún við sig námi í sérkennslu.

Mér er minnisstætt hve oft hún sagði við mig að börn þyrftu "hálft stafrófið af vítamínum" en andlegt fóður væri ekki síður mikilvægt í uppeldinu. Hún studdi strákana mína af lífi og sál, las fyrir þá jafnt heimsbókmenntir, Íslendingasögur og þjóðsögur, kenndi þeim að tefla og spila á spil, hún var hafsjór af fróðleik sem hún óspart miðlaði til allra. Sigrún kunni heil býsn af vísum og ljóðum. Jónas Hallgrímsson var í miklu uppáhaldi hjá henni og kunni hún nánast öll ljóðin hans. Sigrún talaði gott og kjarnyrt mál og var oft haldgott að geta leitað í viskubrunn hennar þegar á þurfti að halda. Hún var ávallt reiðubúin að líta eftir strákunum okkar og létta undir með okkur þegar við vorum að eignast fyrsta húsnæðið. Strákunum þótti spennandi að vera hjá afa og ömmu í Fýlshólum þar sem þeir fengu ómælda athygli, máttu leika sér og byggja hús í stofunni, eða smíða með alvöru verkfærum. Það voru líka oft og iðulega fleiri frændur og frænkur í pössun hjá ömmu svo húsið iðaði af lífi og amma alltaf þátttakandi. Það var líka gott að eiga ömmu sem gat hjálpað til við námið og gat gert það svo lifandi að jafnvel það leiðinlegasta varð nokkuð skemmtilegt.

Sigrún var ótrúlega fróðleiks- og námfús, jafnvel þegar hún og Jóhann fóru í dansskóla á efri árum, þá dugði það henni ekki að læra danssporin í tímunum, hún keypti sér kennslubók í dansi til þess að geta lært heima. Sigrún og Jóhann réðust í það stórvirki á efri árum að byggja sér hús í Fýlshólum á fallegum stað með útsýni yfir alla borgina. Það var ótrúlegt að fylgjast með Sigrúnu í byggingarvinnunni, hún vann linnulaust og gekk í hvaða verk sem var á öllum byggingarstigum.

Sigrún greindist með Alzheimer- sjúkdóminn fyrir allmörgum árum. Það hefur verið þungbært fyrir fjölskyldu hennar að horfa á þessa greindu og góðu konu smátt og smátt hrörna og hverfa inn í tómið. Eftir að sjúkdómur Sigrúnar ágerðist dvaldi hún á Laugaskjóli og Skjóli en síðustu árin var hún á Hjúkrunarheimilinu Eir. Fjölskylda Sigrúnar þakkar af einlægni læknum, hjúkrunarfólki og öðrum sem annast hafa hana af mikilli alúð og virðingu. Ég kveð tengdamóður mína með þakklæti og bið henni allrar blessunar.

Ásta.