Guðný Sigríður Gísladóttir Nú legg ég aftur augun mín,

en öndin, hvarflar, Guð, til þín,

þinn almáttugan ástarvæng

lát yfirskyggja mína sængAð rísa upp í heimi hér

með hverri sólu kenn þú mér,

svo fái' eg ljósið þitt,

er lífgar Jesús duftið mitt

(Þýð. M. Joch.) Nú hefur gangverk lífsklukkku merks kaupmanns slegið sinn síðasta slátt. Guðný Sigríður, ávallt kölluð Sigga, var borinn og barnfæddur Árnesingur. Í dag, 7. október, hefði hún orðið níutíu og eins árs hefði hún lifað. Eins og áður hefur komið fram var stórt heimilið og mannmargt á Litla-Ármóti hjá Gísla og Oddnýju, foreldrum Siggu. Um 1923 verður heimilið fyrir því áfalli að Gísli veikist og deyr. Þá var elsta barn þeirra hjóna tuttugu og eins árs og yngstir voru fjögurra ára tvíburar. Sigga var sextán ára. Í þá daga voru engir styrkir eða félagsleg aðstoð fyrir konur með tíu börn. Um 1924 ákveður Oddný móðir Siggu að bregða búi og flytja til Reykjavíkur með hópinn sinn. Oddný keypti sér fljótlega litla jörð í Skerjafirði sem hét Brúarendi. Var lítið hús á jörðinni. Hún var þar með kindur og kýr. Í dag er búið að rífa húsið og jörðin er komin undir flugvallarveginn. Mamma Siggu var dugnaðarforkur því auk þess að selja bæjarbúum mjólk og egg og hugsa um börnin vann hún við uppskipun úr togurum Thors Jensens í fiskstöðinni á nóttunni. Þá komu togararnir inn að kvöldi og fóru að morgni.

Fljótlega fór Sigga að vinna fyrir sér, fyrst fór hún að þéna í húsum og einnig var hún með þeim fyrstu sem fóru á síld á Siglufirði. Fljótlega fór hún að vinna við afgreiðslustörf. Í mörg ár vann Sigga við prjónaverslunina Hlín, fyrst á Laugavegi og síðar á Skólavörðustíg.

Sigga var há og grönn og samsvaraði sér vel. Hárið var dökkt og fallegt, augun fallega blá. Sigga var hress og alltaf glöð. Hún las mikið og hafði yndi af ferðalögum. Tungumál vöfðust ekki fyrir henni og talaði hún bæði ensku og dönsku. Hún hjólaði mikið og hjólaði til dæmis frá Reykjavík til Hveragerðis og til baka. Þetta var meðan vegurinn var ómalbikaður og gömlu Kambarnir við lýði. Sigga hjólaði eitt sinn með vinkonum sínum norður á Hvammstanga og hreppti hið versta veður en þær létu það ekkert á sig fá.

Það hefur verið kringum 1965 að þær systur, Sigga og Gunna, settu á stofn vefnaðarbúðina Baugalín á horninu á Miklubraut og Lönguhlíð. Ráku þær verslunina í yfir 20 ár eða meðan kraftar Siggu leyfðu. Árið 1968 keyptu þær sér jarðhæð í Nóatúni 29 og bjuggu þar æ síðan. Þær systur voru ákaflega samrýndar og áttu það sameiginlegt að hafa gaman af ferðalögum. Eftir að Gunna systir Siggu kynntist Þorvaldi, sem seinna varð sambýlismður hennar, voru farnar margar ferðir innanlands, því Þorvaldur átti alltaf bíl. Fyrir um tíu árum veiktist Sigga af blóðtappa í hægri fæti. Varð það til þess að hún missti fótinn fyrir neðan hné. Ég leyfi mér að hafa eftir það sem Gunna sagði um systur sína af því tilefni: "Þá sýndi Sigga systir sem fyrr dugnað og aldrei var kvartað, alltaf sama prúðmennskan, alltaf létt og kát."

Sigga naut þess að hafa fólk í kringum sig. Hún var vinmörg og það var henni mikil gleði að umgangast systkinabörn sín, Sigga elskaði þau eins og hún ætti þau sjálf. Sjálf giftist hún aldrei og var barnlaus. Þegar Sigga vann í versluninni Hlín á Laugaveginum leigði hún herbergi hjá foreldrum undirritaðs, sem þá var um tveggja ára aldur, og að sögn "var málbandið hennar Siggu skemmtilegast". Síðan hefur verið órjúfanleg vinátta alla tíð.

Gunna systir Siggu hefur beðið mig að koma á framfæri þakklæti fyrir órjúfanlega tryggð og umhyggju Siggu alla tíð. Að leiðarlokum viljum við hjónin þakka Siggu fyrir löng og góð kynni, öll jólaboðin, jólagjafir og afmælisgjafir. Við leyfum okkur að þakka Gunnu fyrir alla þá umhyggju sem hún sýndi systur sinni öll árin og fram á síðustu stund svo og ættingjum og vinum sem við sendum síðbúnar samúðarkveðjur.

Veri Guðný Sigríður kært kvödd, Guði á hendur falin. Hafi hún hjartans þökk fyrir allt og allt.

Þórður Rafn Guðjónsson,

Jónína Björnsdóttir.