Anna Björg Þorvaldsdóttir Kveðja frá söngfélögum í kór Stærra-Árskógskirkju

Það gat oft verið kátt á hjalla í "kaffipásunni" á kirkjuloftinu í Stærra-Árskógi þegar Anna Alla hló sínum dillandi hlátri og hreif aðra með sér. Hún söng í kirkjukórnum í 35 ár og var sárt saknað þegar hún tók að missa röddina og ákvað að hætta. Anna var mjög músíkölsk og fljót að læra. Hún var mikill tónlistarunnandi og hafði sérstakt yndi af harmoníkutónlist og naut þess mjög hin síðari ár að hlusta á hana.

Anna var mjög félagslynd og hrókur alls fagnaðar hvort heldur það var við kaffiborðið heima, í vinnunni eða á fundum í Árskógi. Anna léði krafta sína félagsstarfi og íþróttum í sveitinni fram eftir aldri. Hún keppti lengi í kúluvarpi og handbolta með Ungmennafélaginu Reyni og var boðin og búin að rétta öðrum félögum í sveitinni hjálparhönd fram undir það síðasta.

Anna og Alli bjuggu allan sinn búskap á Hauganesi, þau byggðu sér hús á Klapparstíg 16 og fluttu í það árið 1966. Eins og nærri má geta hefur lífið ekki alltaf verið dans á rósum, börnin ung og erfið húsbygging, en þau undu glöð við sitt og samheldni fjölskyldunnar aðdáunarverð. Sagt er að í lífinu skiptist á skin og skúrir og eflaust hefur svo verið hjá þeim. Árið 1996 tók mjög að dimma yfir lífshlaupi Önnu Alla. Hún greindist með ólæknandi vöðvahrörnunarsjúkdóm, sem herjaði fyrst á talfæri og hafði þau áhrif að hún missti málið, ásamt því að sjúkdómurinn markaði mjög þessa hnarreistu og hvatskeytslegu konu. Að það skyldu verða örlög þessarar skrafhreifnu konu að missa málið er ákaflega torskilið, en Anna brást ekki frekar en fyrri daginn, hún hélt sinni eðlislægu glettni og tjáði sig óspart með því að skrifa á blað það sem hún vildi sagt hafa. Það er mikil eftirsjá í persónu eins og Önnu Alla, slíkar perlur fyrirfinnast því miður sjaldnar og sjaldnar, allt er að verða steypt í sama mótið. Þegar hugsað er um lífshlaup Önnu og hún kvödd með söknuði, kemur ósjálfrátt upp í hugann ljóðlínurnar "en sama rósin sprettur aldrei aftur, þótt önnur fegri skreyti veginn þinn". Anna mín, hafðu þökk fyrir liðnu samverustundirnar, alla vináttuna og hjálpsemina. Við sem eftir stöndum trúum því að þið Rósa, gömlu vinkonurnar sem kvödduð þennan heim með svo stuttu millibil, séuð búnar að hittast og farnar að syngja og tralla saman. Okkur finnst vel við hæfi að kveðja ykkur vinkonurnar með ljóði Þuríðar Kristjánsdóttur, Mætti söngsins.

Söngurinn göfgar og glæðir

guðlegan neista í sál.

Lyftir oss hærra í hæðir

helgar vort bænamál.

Sameinar ólíka anda

eykur kærleikans mátt,

bægir frá böli og vanda

bendir í sólarátt.Harmur úr huganum víki,

hamingjan taki völd,

ástin að eilífu ríki

eflist hún þúsundföld.

Farsæld og fegurð glæðir,

forðast hatur og tál,

söngurinn sefar og græðir,

söngur er alheimsmál.

Við sendum eftirlifandi eiginmanni og afkomendum öllum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan guð að styðja þau og styrkja. Blessuð sé minning Önnu Bjargar Þorvaldsdóttur.

Söngfélagar.