Jón Thor Haraldsson Jón Thor Haraldsson kom til starfa í Flensborgarskólanum haustið 1972 og kenndi þar óslitið í tvo áratugi ef frá er talið eitt ár sem hann var við framhaldsnám í Ósló.

Jón Thor var farsæll og virtur kennari sem ávallt vann starf sitt af alúð og gerði miklar kröfur til sín og annarra. Haustið 1992 lét hann af störfum vegna þeirra veikinda sem nú hafa haft sigur eftir langa baráttu.

Það voru margar minningar sem flugu í gegnum hugann þegar fréttin barst. Mér verður alltaf minnisstætt hversu vel Jón Thor tók á móti mér þegar ég kom til starfa við Flensborgarskólann haustið 1989. Hann tók mig strax afsíðis og gaf mér góð ráð varðandi það hvernig bæri að skilja orð og athafnir einstakra samstarfsmanna. Þessi ráð skalt þú skilja bæði sem gaman og alvöru, sagði hann síðan að loknu samtali.

Allt frá þeirri stundu vissi ég að orðum Jóns var hægt að treysta. Hann var hafsjór af fróðleik og því var alltaf gott til hans að leita ef spurningar vöknuðu um einhver mál.

Jón var sterkur persónuleiki og hann var gjarnan miðdepill í öllum umræðum á kennarastofunni og talaði ætíð tæpitungulaust um menn og málefni. Hans var því sárt saknað þegar hann þurfti að láta af störfum vegna heilsubrests.

Ég vil fyrir hönd starfsmanna og nemenda Flensborgarskólans senda fjöldskyldu Jóns okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hans er minnst með söknuði sem kennara, samstarfsmanns og góðs félaga.

Einar Birgir Steinþórsson.