Sigrún Pálsdóttir Okkar langar í nokkrum orðum að minnast ástkærrar ömmu okkar sem er jarðsungin í dag. Í huga okkar var amma Sigrún tengd miklum innri styrk, ákveðinni framkomu en jafnframt alúð og kærleika. Við vorum ávallt aufúsugestir í Fýlshólum, þaðan sem farið var í leiðangra út í garð eða niður í Elliðaárdalinn. Þegar heim var komið var vinsælt að fá samloku með osti úr ristinni hjá ömmu og ef réttur árstími var þá voru nýjar kartöflur, rófur eða ribsber einnig á borðum. Hún var ávallt boðin og búin að aðstoða á hvers kyns hátt við námið á meðan heilsan leyfði og þreyttist aldrei á að boða gildi menntunar fyrir manninn. Samverustundirnar eru margar sem lifa í minningunni og standa þar upp úr fjölskylduboðin á annan í jólum. Þar kom fjölskyldan saman, borðaði góðan mat og fór síðan í bingó eins og gerðist í mörg ár. Við krakkarnir komum með sýnishorn af jólagjöfunum og svo áttum við skemmtilegar stundir saman fram á kvöld.

Elsku besta amma. Við þökkum þér fyrir allar stundirnar og huggum okkur við það að eiga ylríkar minningarnar um ókomna tíð.

Einar, Hákon og Sigrún Huld.