Hólmfríður Stefánsdóttir Fríða, föðursystir mín, ólst upp í Kambfelli í Djúpadal í hópi átta systkina og sinnti störfum heimilsins eins og þá tíðkaðist. Sumrin 1925 og 1926 var ég, þá níu og tíu ára, í sveit í Stóradal í Djúpadal. Frænka mín var þar kaupakona og þar kynntist ég hennar hlýja viðmóti og högu hönd er hún sá um fatnað minn og fleira mér viðkomandi. Síðar fluttist hún til Akureyrar og bjó lengi með systur sinni Sigrúnu og Jóhönnu móður þeirra. Var ég tíður gestur á heimili þeirra og naut þar margra ánægjustunda, þar sem stutt var í glaðværð og dillandi hlátur.

Á Akureyri gekk Fríða til liðs við Hjálpræðisherinn og þar kynntist hún norskri hjúkrunarkonu, Liv- Astrid Kröbö. Eftir að móðir frænku minnar lést og systir hennar var komin á Dvalarheimili, fluttist Fríða suður og starfaði þar með Liv, sem þá sá um Hjúkrunarheimilið Bjarg, sem var á vegum Hjálpræðishersins. Eftir það héldu þær saman, keyptu sér íbúð og áttu saman mörg góð ár. Þegar svo halla fór undan fæti og ellin sótti á frænku mína, varð Liv hennar stoð og stytta og veitti henni alla bestu umönnun og skjól.

Í tilefni 65 ára afmælis frænku minnar sendi ég henni hamingju- og heillakveðju:

Fréttin sú barst hingað frænka mín góð,

að fimmtán ár bæst hafi á fimmtuga slóð,

svo heillaósk færð skal í letur.

Þú glöggt hefur fetað þá gæfunnar braut,

sem gullinu skilar í gleði sem þraut

því gulli, sem eilífðin metur.

Heill þínu húsi og heill þinni trú,

heill þinni vegferð, og áfram halt þú,

uns tímann þér Alvaldur setur.

Sá tími reyndist 30 ár. Síðustu vikurnar dvaldi frænka mín á Dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík þar sem Liv þurfti að sinna veikri móður sinni úti í Noregi.

Nítugasti og fimmti afmælisdagur frænku minnar rann upp 18. september sl. Frændur og vinir fögnuðu með afmælisbarninu. Stór og mikil afmælisterta stóð til boða öllum á heimilinu með síðdegiskaffinu. Þá var hátíð á Dalbæ, en líka kveðjustund, því þrem dögum síðar hvarf andi hennar á eilífðarbraut.

Við kistulagningu í Höfðakapellu á Akureyri hitti ég konu sem þar vinnur, og hún sagðist muna vel eftir Fríðu þegar hún ung sótti sunnudagaskóla Hjálpræðishersins, þá stóð Fríða jafnan við dyrnar og setti stjörnu í sunnudagabókina hennar. Ég vona að þegar þar að kemur standi frænka mín við dyrnar og setji gyllta stjörnu í lífsbók mína.

Nú hef ég kvatt þessa góðu frænku mína um stund, en hlý minningin lifir.

Kæra frænka, hugurinn fylgir þér á ljóssins braut.

Þinn frændi,

Jón.