LAUGARDAGINN 10. október nk. eru liðin 100 ár frá því að skóli var settur í fyrsta sinn í Miðbæjarskólanum. Þessara tímamóta verður minnst með opnu húsi kl. 10­17 og hátíðardagskrá sem ber heitið Svipmyndir úr 100 ára skólasögu frá 14 til 16.

Miðbæjarskólinn 100 ára

LAUGARDAGINN 10. október nk. eru liðin 100 ár frá því að skóli var settur í fyrsta sinn í Miðbæjarskólanum. Þessara tímamóta verður minnst með opnu húsi kl. 10­17 og hátíðardagskrá sem ber heitið Svipmyndir úr 100 ára skólasögu frá 14 til 16.

Bygging Miðbæjarskólans markaði tímamót í fræðslumálum Reykjavíkur og húsið hefur æ síðan verið miðstöð mennta- og menningarmála auk þess sem skólaportið var í áranna rás vettvangur borgarbúa til skoðanaskipta og hátíðahalda, segir í fréttatilkynningu. Nú hýsir Miðbæjarskólinn Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og Námsflokka Reykjavíkur.

Á opnu húsi verður m.a. boðið upp á sýningu kvikmyndar sem tekin var að frumkvæði Jónasar B. Jónssonar, fv. fræðslustjóra, í tilefni af 50 ára afmæli Miðbæjarskólans árið 1948. Myndin verður sýnd á heilum tímum frá kl. 10 um morguninn.

Árbæjarsafn, Borgarskjalasafn Reykjavíkur og Ljósmyndasafn Reykjavíkur munu sýna muni, skjöl og myndir sem tengjast sögu skólahússins í 100 ár. Þar eru t.d. skjöl um byggingu skólans, um skólastarfið, lýsis- og mjólkurgjafir, tannlækningar og heilbrigðismál. Einnig eru nokkur skjöl, sem lýsa samskiptum Reykjavíkurbæjar og bæði breskra og bandarískra hernámsyfirvalda, m.a. húsaleigusamningur milli breska setuliðsins og borgarstjóra um Miðbæjarskóla, dagsettur 10. maí 1940.

Lýsissopi beint úr könnu í boði Lýsis hf. og rúgbrauðssneið frá Myllunni hf. gefa tilfinningu fyrir fortíðinni. Blásarasveitir barna við grunnskólana leika í portinu kl. 10 og 13.30.

Flutt verður hátíðardagskrá sem ber heitið Svipmyndir úr 100 ára skólasögu. Borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, ávarpar gesti og eftirfarandi erindi verða flutt. Jón Torfi Jónasson prófessor, Skólamálaumræða við tvenn aldamót. Loftur Guttormsson prófessor, Einkunnir upp á hvern dag. Jóhanna Þorgeirsdóttir, fv. kennari, Minningar úr Miðbæjarskóla. Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingur, Skólastarf upp úr miðri öld.

Í tilefni 100 ára afmælisins hefur Guðjón Friðriksson sagnfræðingur tekið saman efni í lítið rit, Miðbæjarskólinn 100 ára. Þar er farið hratt yfir sögu um aðdraganda skólabyggingarinnar, fjallað um helstu atburði sem átt hafa sér stað í skólanum og í skólaportinu og getið stofnana sem þar hafa verið til húsa.

Í fréttatilkynningu segir: "Miðbæjarskólinn er eitt merkasta hús borgarinnar. Það er von forráðamanna Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur og Námsflokka Reykjavíkur að sem flestir noti tækifærið og heimsæki Miðbæjarskólann og þiggi um leið veitingar, segir í fréttatilkynningu. Þetta er kjörið tækifæri fyrir nemendur og starfsmenn fyrr og nú að líta inn og rifja upp endurminningar frá liðnum dögum, finna gömlu stofuna sína, smíðastofuna eða leikfimisalinn og forvitnast um hvernig húsinu hefur verið breytt til að þjóna sem best nýju hlutverki."