NÝJA framboðið var kynnt á Kornhlöðuloftinu á sunnudag og þar sátu fyrir svörum aðstandendur undirbúningshópsins. Meðal þeirra voru þingmennirnir Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson og Hjörleifur Guttormsson, varaþingmennirnir Guðrún Helgadóttir, Árni Steinar Jóhannsson,
Vinstrihreyfingin ­ grænt framboð hyggst bjóða fram í öllum kjördæmum

Gera á sértækan gróða

fyrirtækja upptækan

Vinstrihreyfingin ­ grænt framboð, er vinnuheiti nýs stjórnmálaafls á vinstri væng stjórnmálanna sem kynnt var blaðamannafundi á sunnudag. Björn Ingi Hrafnsson sat fundinn og ræddi við aðstandendur framboðsins sem setja umhverfis- og náttúruvernd í öndvegi í málefnaskrá sinni og vilja binda endi á aðild Íslands að NATO.

NÝJA framboðið var kynnt á Kornhlöðuloftinu á sunnudag og þar sátu fyrir svörum aðstandendur undirbúningshópsins. Meðal þeirra voru þingmennirnir Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson og Hjörleifur Guttormsson, varaþingmennirnir Guðrún Helgadóttir, Árni Steinar Jóhannsson, Þuríður Backman og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Flestir í undirbúningshópnum hafa um árabil unnið í Alþýðubandalaginu, en hafa sagt skilið við það á undanförnum misserum í kjölfar hugmynda um sameiginlegt framboð félagshyggjuflokkanna.

Í málefnapakka, sem kallaður er ávarp undirbúningshóps, og kynntur var á fundinum, hefur verið lögð megináhersla á fjóra meginþætti; náttúru og umhverfi, jafnrétti og félagslegt réttlæti, samfélag og atvinnulíf og sjálfstæða utanríkisstefnu.

Langvarandi undanhald gagnvart fjármagnsöflum

Í ávarpinu segir að langvarandi undanhald gagnvart fjármagnsöflum hafi leitt til stóraukins misréttis í þjóðfélaginu og virðingarleysis fyrir náttúru landsins. Hentistefna og málamiðlanir margra flokka, sem kenni sig við jafnaðarstefnu eða félagshyggju, hafi víða um lönd greitt götu hægri sjónarmiða. Þess vegna sé nú sums staðar þannig komið, að vart sé greinanlegur munur á stefnu flokka þó þeir kenni sig ýmist við frjálshyggju eða félagshyggju. Það sé mat hreyfingarinnar að æ fleiri skynji nú mikilvægi þess að skerpt verði pólitísk umræða í samfélaginu og teflt fram skýrari kostum í stjórnmálum.

Þá kemur fram, að hreyfingin vilji vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar. Náttúruauðlindir eigi að vera sameign landsmanna og þær eigi að nýta í þágu almannahagsmuna án þess að gengið sé á umhverfið. Varðveita þurfi hreina ímynd landsins, taka eigi upp græna þjóðhagsreikninga og meta verðmæti ósnortinnar náttúru. Til umhverfisverndar eigi að hvetja með breytingum á skattkerfinu. Þá kemur fram að hreyfingin styðji sjálfbæra orkustefnu og leggist gegn stóriðju og stórvirkjunum í þágu mengandi iðnaðar. Vernda skuli hálendi Íslands og stofna þar til stórra þjóðgarða og friðlanda.

Hjörleifur Guttormsson, þingmaður óháðra, segir að slík áhersla á umhverfismál sé einsdæmi í íslenskum stjórnmálum. "Náttúruvernd er slíkur grunnþáttur í okkar stefnu, að tíðindum hlýtur að sæta," sagði hann.

Vistvænar veiðiaðferðir

Hreyfingin vísar til umræðunnar í landinu og segir að auðvelda eigi aðgang að upplýsingum, en jafnframt verði að tryggja persónuvernd sem aldrei megi fórna á altari tækniþróunar og viðskipta og er þar greinilega átt við hugmyndir um miðlægan gagnagrunn Íslenskrar erfðagreiningar.

Að mati hinnar nýju Vinstrihreyfingar á atvinnulífið að greiða eðlilega hlutdeild af hagnaði sínum í sameiginlega sjóði ríkis og sveitarfélaga. Gera eigi upptækan allan sértækan gróða, sem leiði af einokunar- eða fákeppnisaðstöðu einstakra fyrirtækja í þágu samfélagsins og gróða sem spretti af nýtingarrétti atvinnurekenda af sameiginlegum auðlindum, t.d. í sjávarútvegi.

Steingrímur J. Sigfússon sagði að aðalatriðið væri að fólk í hreyfingunni væri sammála um hvernig ætti að nálgast sjávarútvegsmálin.

"Við viljum að sjávarútvegsstefnan þróist í átt til vistvænni veiðiaðferða og erum þar ekki síst að tala um báta- og smábátaflotann og nýtingu á grunnslóðinni," sagði Steingrímur. "Það getur aftur fallið mjög vel að því að sjávarútvegsstefnan styrki byggð í landinu, sem er annað meginmarkmið í okkar huga og í þriðja lagi viljum við beita þeim úrræðum sem duga til þess að ná utan um óeðlilegan gróða sem kann að myndast vegna núgildandi kerfis og það getum við annars vegar gert með breytingum á löggjöfinni og hins vegar með aðgerðum í skattkerfinu. Þær aðgerðir gætu haft áhrif á viðskipti með afnotaréttinn, en slík viðskipti eiga sér til dæmis stað þegar fyrirtæki eru að sameinast. Ég hef áður flutt tillögur á Alþingi um þessi mál, það er tilteknar breytingar á fiskveiðistjórnunarlögunum og skattalögum til þess að ná utan um þessi mál."

Einkavæðing ekki lausnarorð

Steingrímur sagði að hið nýja framboð teldi einkavæðingu ekki lausnarorð og væri andvígt henni þegar í hlut í ættu velferðarstofnanir.

"Hvað önnur fyrirtæki varðar, eins og til dæmis Landssímann, þá er ég alltént þeirrar skoðunar, að slík fyrirtæki eigi ekki að einkavæða ef þau búa við fákeppnis- eða einokunaraðstæður á markaði. Reynsla annarra þjóða af slíku er mjög slæm og ég minni á hörmulegar afleiðingar af því þegar Bretar á Thatcher-tímanum einkavæddu af slíku ofstæki að jafnvel vatns- og orkuveitur voru þar ekki undanskildar, þótt þær ættu eigið dreifikerfi og byggju þannig við algera einokunaraðstöðu. Slíkt eiga menn að hafa í huga þegar rætt er um einkavæðingu á fyrirtækjum eins og til dæmis Landssímanum. Kæmi til hennar mætti að sjálfsögðu skoða hvort grípa mætti til skattalegra ráðstafana til að hindra að aðilar geti sópað til sín óheyrilegum gróða í krafti slíkrar aðstöðu."

Í utanríkiskafla hinnar nýju hreyfingar kemur sérstaða hennar glögglega fram. Þar er lögð áhersla á að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu, eins og það er orðað. Vill hreyfingin binda enda á aðild Íslands að hernaðarbandalögum, þ.e. NATO, og vill herinn úr landi. Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og umferð kjarnorkuknúinna farartækja bönnuð. Þá hafnar hreyfingin aðild Íslands að Evrópusambandinu, þar eð slík aðild myndi skerða fullveldi Íslands og forræði þjóðarinnar yfir auðlindum sínum.

Mikil gerjun

Steingrímur segist mjög bjartsýnn á framtíð nýju samtakanna. "Andrúmsloftið í íslenskum stjórnmálum hefur verið að þróast með ansi skemmtilegum hætti, ef ég má orða það svo. Það hefur verið mikil gerjun, en hún er að taka aðra stefnu en ýmsir reiknuðu með. Við verðum vör við mikinn meðbyr, ekki síst meðal ungs fólks ­ öfugt við það sem haldið hefur verið fram ­ og það er heilmikil upplifun að vera þátttakandi í tilurð nýrrar stjórnmálahreyfingar."

Steingrímur telur ekki tímabært að ræða um með hverjum hin nýja hreyfing telur sig geta starfað að afloknum kosningum. "Við erum róttæk, vinstri- og umhverfissinnuð hreyfing og þá liggur auðvitað á borðinu með hverjum hún er líkleg til þess að starfa, og jafnframt með hverjum hún er ólíkleg til þess að starfa," sagði Steingrímur.

Í næsta mánuði hefst fundaherferð um landið þar sem hreyfingin verður kynnt og efnt til viðræðna um áherslur hinnar nýju hreyfingar. Um mánaðamótin nóvember/ desember verður síðan haldin landsráðstefna og undirbúningsfundur fyrir stofnun samtakanna og tekin ákvörðun um formlegan stofnfund.

Morgunblaðið/Þorkell FRÁ fundinum á sunnudag. F.v. Árni Steinar Jóhannsson, Steingrímur J. Sigfússon, Drífa Snædal, sem stýrði fundinum, Ögmundur Jónasson, Hjörleifur Guttormsson og Svanhildur Kaaber. Umhverfismálin sett í öndvegi