EIGNARHALDSFÉLAGIÐ Brunabótafélag Íslands (EBÍ) stóð á bak við kaup Vilhjálms Bjarnasonar viðskiptafræðings á hlutafé í Landsbanka Íslands hf. í þriðja tilboðsflokki hlutafjárútboðs bankans fyrr í þessum mánuði. Eignarhaldsfélagið keypti þannig fimmtíu milljónir að nafnvirði eða 128 milljónir að markaðsvirði.
ÐEBÍ stóð á bak við hæsta tilboðið í hlutabréf Landsbanka Íslands hf.

Eignarhlutur félagsins

nemur samtals 2,5%

Hefur alls varið 370 milljónum króna til kaupanna

EIGNARHALDSFÉLAGIÐ Brunabótafélag Íslands (EBÍ) stóð á bak við kaup Vilhjálms Bjarnasonar viðskiptafræðings á hlutafé í Landsbanka Íslands hf. í þriðja tilboðsflokki hlutafjárútboðs bankans fyrr í þessum mánuði. Eignarhaldsfélagið keypti þannig fimmtíu milljónir að nafnvirði eða 128 milljónir að markaðsvirði. Félagið lét ekki þar við sitja heldur hefur að undanförnu til viðbótar keypt hlutabréf í Landsbankanum úr almenna útboðsflokknum. Það á nú hlutafé í bankanum fyrir 162,5 milljónir króna að nafnvirði og hefur það alls varið 370 milljónum króna til kaupanna. Eignarhaldsfélagið á nú alls 2,5% hlutafjár í Landsbankanum og er stærsti hluthafinn á eftir ríkinu.

Ekki er útilokað að Eignarhaldsfélagið kaupi fleiri hlutabréf í bankanum á næstunni þar sem því verður væntanlega gefinn kostur á að kaupa á tilboðsverði það hlutafé, sem áskrifendur í almennum flokki útboðsins greiða ekki fyrir.

Tímabundin leynd

Þegar tilboð voru opnuð, 29. september sl., vildi Vilhjálmur ekki gefa upp hverjir stæðu að tilboðinu með honum en sagði að um væri að ræða venjulega sparifjáreigendur, sem vildu fá hlutdeild í hagnaði bankans og reiknuðu með að það skilaði þeim hærri ávöxtun en vextir, sem bankinn borgaði. Nú hefur hins vegar komið á daginn að EBÍ stendur að tilboðinu. Vilhjálmur segir að rétt hafi þótt að halda því leyndu að EBÍ stæði að baki tilboðinu á meðan félagið væri að auka við hlut sinn í félaginu á almennum markaði. Að öðrum kosti hefði hætta verið á að verð bréfanna hefði hækkað og þau ekki fengist á eins hagstæðu verði.

Stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands (EBÍ) ákvað á fundi sínum 23. september sl. að senda inn tilboð í þriðja tilboðsflokk hlutafjárútboðs Landsbankans, fyrir fimmtíu milljónir króna að nafnvirði. Eftir skoðun á málinu var ákveðið að hafa tilboðsgengið 2,566 og var Vilhjálmur fenginn til samstarfs í málinu en hann situr í fulltrúaráði EBÍ fyrir Garðabæ. Vilhjálmur gerði síðan tilboð í eigin nafni eins og kunnugt er og kom á daginn að það var hæsta tilboðið eða 0,066 hærra en næsthæsta tilboðið.

Meðalgengi kaupanna 2,35

Þegar ljóst varð að EBÍ væri með tilboðsrétt á þessum þriðja hlutabréfaflokki útboðsins fyrir fimmtíu milljónir króna að nafnvirði, var ákveðið að fjárfesta frekar í Landsbankanum með viðbótarkaupum á frjálsum markaði. Heildareign hlutafjár EBÍ í bankanum nemur nú um 2,5% af heildarhlutafé bankans á meðalgengi 2,35 samkvæmt upplýsingum frá félaginu.

Heildareignir EBÍ nema um þremur milljörðum króna og hefur það því keypt hlutabréf í Landsbankanum fyrir rúmlega 10% af þeim. Nýlega keypti EBÍ einnig 0,8% hlut í Sjóvá-Almennum og nam kaupverðið um 100 milljónum króna. Þá gekk það einnig frá kaupum í smáum hlut í Tryggingamiðstöðinni fyrir skömmu.

Í samræmi við fjárfestingarstefnu EBÍ

Samkvæmt fjárfestingarstefnu EBÍ ber því að fjárfesta í vátryggingastarfsemi, fjármálastarfsemi og blandaðri fjármála- og vátryggingastarfsemi. Forsenda slíkrar fjárfestingar er að hún sé arðsöm og skili félaginu tekjum til að standa við hlutverk sitt. Hilmar Pálsson, forstjóra EBÍ, segir að Landsbankinn fullnægi þeim kröfum sem félagið geri til fjárfestingar. "Landsbankinn hefur í meira en heila öld starfað alls staðar á landinu og eignarhald bankans í vátryggingastarfsemi gerir bankann að góðum fjárfestingarkosti. Landsbankinn og Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands hafa átt samleið og traust samskipti í tugi ára í þjónustu við sveitarfélögin í landinu og hefur bankinn enn treyst þau samskipti með stofnun sérstakrar ráðgjafardeildar fyrir fjármálaþjónustu við sveitarfélögin."

Morgunblaðið/Árni Sæberg LEYNDINNI aflétt. Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur og Hilmar Pálsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands, skýra frá hlutafjárkaupum félagsins í Landsbankanum.