DESMOND Tutu erkibiskup, formaður Sannleiks- og sáttanefndarinnar í Suður-Afríku, hvatti í gær alla íbúa landsins til að sætta sig við niðurstöður nefndarinnar, sem birtar voru í 3.500 síðna skýrslu í fyrradag, þótt ýmsar afhjúpanir hennar væru sársaukafullar fyrir þjóðina.
Hart deilt um skýrslu Sannleiks- og sáttanefndarinnar í Suður-Afríku

Tutu varar við harðstjórn

Pretoríu. Reuters.

DESMOND Tutu erkibiskup, formaður Sannleiks- og sáttanefndarinnar í Suður-Afríku, hvatti í gær alla íbúa landsins til að sætta sig við niðurstöður nefndarinnar, sem birtar voru í 3.500 síðna skýrslu í fyrradag, þótt ýmsar afhjúpanir hennar væru sársaukafullar fyrir þjóðina. Stjórnmálamenn, sem nefndin sakaði um glæpi og mannréttindabrot, brugðust harkalega við skýrslunni en nokkur dagblöð fögnuðu henni.

Áður en skýrslan var gerð opinber hafði Afríska þjóðarráðið (ANC), sem er við völd í Suður- Afríka, krafist þess að lögbann yrði sett á birtingu hennar ef nefndin strikaði ekki út kafla þar sem flokkurinn er sakaður um hafa staðið fyrir mannréttindabrotum, morðum og pyntingum, þegar hann barðist gegn stjórn hvíta minnihlutans á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Dómstóll hafnaði þeirri kröfu.

Tutu tók harkaleg viðbrögð forystumanna ANC nærri sér og varaði við því að Suður-Afríkumenn stæðu frammi fyrir hættu á nýrri harðstjórn. "Menn geta alls ekki gengið út frá því að þeir sem voru kúgaðir verði ekki kúgarar morgundagsins," sagði hann.

Erkibiskupinn sagði að staðhæfingar forystumanna ANC um að nefndin hefði ekki tekið tillit til athugasemda flokksins væru "algjört þvaður".

Erkifjendur sameinast í gagnrýni

Allir helstu flokkar landsins og erkifjendurnir á tímum aðskilnaðarstefnunnar sameinuðust í harkalegri gagnrýni á niðurstöður Sannleiksnefndarinnar, er lýsti aðskilnaðarstefnunni sem "glæp gegn mannkyninu".

Thabo Mbeki, varaforseti Suður-Afríku, sagði að ásakanirnar á hendur ANC væru "rangar og algjörlega tilhæfulausar" en Nelson Mandela forseti kvaðst sáttur við skýrslu nefndarinnar, þótt hann tæki fram að hún væri ekki gallalaus.

Þjóðarflokkurinn, sem kom á kynþáttaaðskilnaði árið 1948 og afnam hann 1990, sagði skýrsluna sanna að Sannleiksnefndin hefði dregið taum Afríska þjóðarráðsins. Jacko Maree, þingmaður Þjóðarflokksins, sagði að flestir nefndarmannanna 17 væru stuðningsmenn ANC og þeir hefðu látið hjá líða að taka tillit til ótta hvíta minnihlutans við kommúnisma eða viðurkenna þátt Þjóðarflokksins í afnámi aðskilnaðarstefnunnar.

F.W. de Klerk, síðasti hvíti forseti Suður-Afríku, sagði í gær að Sannleiksnefndin hefði klofið þjóðina og lagði áherslu á að það var Þjóðarflokkurinn en ekki hreyfingar blökkumanna sem afnámu kynþáttaaðskilnaðinn. De Klerk tókst að fá nefndina til að birta ekki kafla úr skýrslunni þar sem því er haldið fram að hann hafi vitað af voðaverkum sem framin voru í nafni aðskilnaðarstefnunnar en haldið þeirri vitneskju leyndri. Klerk kvaðst í gær vera ánægður með að þessi ásökun var ekki birt þar sem hún væri "algjörlega tilhæfulaus".

De Klerk höfðaði mál gegn nefndinni vegna kaflans, krafðist lögbanns á birtingu hans, og Sannleiksnefndin ákvað að birta ekki kaflann strax til að þurfa ekki að fresta birtingu skýrslunnar. Réttað verður í málinu á næsta ári og nefndin kann að birta kaflann þegar málaferlunum lýkur.

Mangosuthu Buthelezi, innanríkisráðherra og leiðtogi Inkatha-frelsisflokksins, var sakaður í skýrslunni um að bera ábyrgð á mannréttindabrotum í blóðugri baráttu flokksins við fylgismenn ANC í Kwa-Zulu Natal. Forystumenn flokksins sögðust ætla að höfða mál gegn nefndinni til að hreinsa Buthelezi af þessari ásökun. "Hann hefur hreinan skjöld og við látum ekki slíkar ærumeiðingar viðgangast," sagði formaður flokksins, Ben Ngubane.

Sögð kynda undir tortryggni

Suður-afríska dagblaðið Die Burger , sem styður Þjóðarflokkinn og hefur aldrei sætt sig fyllilega við tveggja ára rannsókn Sannleiksnefndarinnar, sagði að skýrslan kynti undir tortryggni og illdeilum milli flokka og kynþátta. "Þungbærasti sannleikurinn er að Sannleiks- og sáttanefndinni, sem reyndi án árangurs að komast að öllum sannleikanum, mistókst líka hrapallega að stuðla að sáttum," sagði blaðið.

Frjálslynd dagblöð voru á öndverðum meiði og fögnuðu skýrslunni. "Það er virðingarvert af forystumönnum nefndarinnar að þeir skuli hafa sett hagsmuni þjóðarinnar ofar hagsmunum stjórnmálaflokkanna," sagði Cape Times .

"Birting lokaskýrslu Sannleiksnefndarinnar ætti að vera hneisa fyrir þröngsýna stjórnmálamenn og verjendur þeirra í fjölmiðlunum sem hafa eytt síðustu þrem árum í að gera lítið úr starfi nefndarinnar og grafa undan henni," sagði viðskiptablaðið Business Day .

Margir Suður-Afríkumenn, jafnt hvítir sem svartir, voru reiðir yfir tilraunum ANC og de Klerks til að hindra að ásakanirnar á hendur þeim yrðu birtar. "Málshöfðun ANC var stórfurðulegt klúður," sagði Graeme Simpson, forstöðumaður s-afrískrar stofnunar, sem rannsakar mannréttindabrot á tímum aðskilnaðarstefnunnar og beitir sér fyrir sáttum milli kynþáttanna.

Reuters DESMOND Tutu, formaður Sannleiks- og sáttanefndarinnar, leggur áherslu á mál sitt á fréttamannafundi í gær.